Að sofa í sitt hvoru herberginu

Ein af fjórum bandarískum hjónum hafa sitt hvort svefnherbergið, samkvæmt könnun sem gerð var í Bandaríkjunum á síðasta ári. Sambærileg könnun sem gerð var í Kanada fyrir þremur árum leiddi í ljós að þar í landi sváfu mun fleiri hjón aðskilin eða 30 til 40 prósent þeirra. Menn hafa í ljósi þessara staðreynda velt því fyrir sér hvaða áhrif þetta hafi á samband hjóna þegar þau hætta að deila herbergi.

Hrotur og byltur 

Um þetta var fjallað á vef Huffington Post nýlega. Sálfræðingurinn Amanda Zayde  segir að aðalatriðið sé að fólk komi sér saman um hvort það eigi að sofa aðskilið og að báðir séu sáttir við það fyrirkomulag.  Annars geti öðru hjónanna fundist það eitt og yfirgefið.  Ýmsir þættir geta valdið því að fólk ákveði að deila ekki sama herbergi. Veikindi, háar hrotur annars makans, tíðar klósettferðir  eða stöðugar byltur getur valdið því að annað hjónanna sefur illa eða alls ekki. Svefnleysi hefur áhrif á skap fólks. Það verður pirrað, þreytt, óþolinmótt og stutt í spuna ef það fær ekki nægan svefn. Það getur því hreinlega bætt samband hjóna að sofa í sitthvoru herberginu.

Að deila sama rúmi

Það eru hins vegar margir kostir við að deila rúmi. Dr.Laurel Steinberg prófessor í sálfræði við Columbia háskólann segir að kynlíf sé mikilvægt í sambandi hjóna. Kannanir sýni að það minnki um 20 prósent. Skyndikynlíf seint á kvöldin og um miðjar nætur sé ekki lengur til staðar. Heilinn framkallar streitulosandi hormón við kynlíf. Koddahjalið sem mörgum hjónum er svo mikilvægt, kvölds- og morgna hljóðnar og nándin minnkar. Fólk talar ekki eins mikið saman. Eitt í viðbót, það er ekki eins auðvelt að sofna ósáttur ef fólk deilir sama rúmi.

Eiga að vera saman 

Sálfræðingurinn Robert Oeman telur að hjón eigi að deila sama herbergi. Það eigi frekar að reyna að bæta úr ágöllunum en sofa aðskilin. Hann leggur til að hjón kaupi eins stórt hjónarúm og kemst fyrir í svefnherbergi þeirra. Það skapi fjarlægð á milli hjóna þarfnist þau hennar. Hann segir líka að fólk eigi ekki sofa undir sömu sænginni. Sumir séu heitfengir og vilji nota þunnar sængur eða yfirbreiðslur á meðan aðrir séu kuldaskræfur og þurfi þykka sæng. Sumir vilji stífar dýnur aðrir mjúkar og hjón þurfi ekki endilega að sofa á eins dýnum. Aðalatrið sé að þær séu hlið við hlið.  Séu einhver heilsufarsleg vandamál eða annað hjónanna hrjóti hástöfum eigi það að leita læknis og fá viðeigandi meðferð.

Ritstjórn maí 20, 2016 12:05