Tengdar greinar

Alltaf edrú með eitthvað lekkert í potti

Í minningabókinni Elsku Drauma mín, segir frá ýmsu úr lífi Sigríðar Halldórsdóttur. Frá foreldrum hennar Halldóri Laxnes og Auði Sveinsdóttur, systur hennar Dunu, fólki í Mosfellssveit og víðar. Sögurnar í bókinni eru áhugaverðar, sorglegar, ánægjulegar, einlægar og  skemmtilegar eins og aðalsöguhetjan sjálf. Minningabókin fjallar um margar sterkar konur, ömmur, mæður, frænkur og vinkonur og um börnin hennar fjögur.  Vigdís Grímsdóttir rithöfundur skráði bókina.  Hér á eftir koma nokkrir kaflar úr henni. Fyrst örstutt um foreldra henna:

Þegar þau pabbi og mamma gifta sig loksins er hús drauma hans nokkurn veginn tilbúið og þar í stofunni okkar spilar hann pabbi minn á flygil alla sína tíð, og hann smitar okkur stelpurnar sínar báðar af ást á klassískri músík ef smit skyldi kalla. Það er reyndar svo ómetanlegt að fá slíka ást á tónlist í vöggugjöf að um það duga ekki orð, enda læt ég þessi nægja.

Nema hvað, hún mamma mín hefur semsé ógrynni að gera á þessum árum, hún er bara nitján ára gömul þegar þau pabbi hittast, og stundum finnst mér raunar ekki alveg mannlegt hvað hún er alla tíð framtakssöm, ábyrgðarfull og drífandi.  Hún er auðvitað einstaklega stjórnsöm líka, en stjórnsemin er ævinlega fylgifiskur þess fólks sem menn reiða sig á – og það gerum við öll.

Við reiðum okkur alltaf öll á hana Auði Sveinsdóttur.

Það er á hreinu.

Nóbelskáldið var oft fjarverandi þegar Sigga var barn og bjó með foreldrum sínum á Gljúfrasteini.

En nú er pabbi semsé kominn heim til okkar mömmu og þarf því hvorki að sakna mín né venjast því.  Það er gott. Hann er fínn, eins og hann er alltaf, í brúnyrjóttum jakkafötum. Nei, kannski eru þau gráyrjótt. Eins og gefur að skilja man ég það ekki alveg og það stendur heldur ekkert um það í bréfunum frá mömmu til hans, þótt ótrúlega margt standi í þeim um alls konar föt og fatakaup, en yrjótt eru fötin hans að minnsta kosti. Og nú horfir hann blíðlega á mig, hann hafði svo blíðlegt augnaráð hann pabbi, og svo spyr hann hvernig henni „Draumu sinni líði“.

Jú henni Draumu hans líður vel.

Kannski er ég dálítið feimin við hann, það er svo langt síðan ég sá hann síðast, kannski margir mánuðir, ómögulegt að segja, tíminn rennur saman í barnsminninu. En ég er glöð að vera nálægt honum.

Uppúr ferðatöskunni sinni dregur hann flíkur sem hann færir mér.

Þetta eru anórakkur og flughúfa í stíl.

Nú erum við bæði nákvæmlega jafnfín.

Nýi anórakkurinn minn ilmar af dökkbláu popplíni.

Mér finnst ég ennþá finna ilminn.

Í bókinni segir Sigga frá mönnunum sínum. Barnsfeðurnir eru tveir og svo eru hinir sem hún hefur átt tíma með, segir hún, og hún fjallar líka um áfengisneyslu.

Ég ætla nú samt sem áður alls ekki að gera áfengið að blóraböggli tilveru minnar. Ég þarf þess ekki.  Ég hef nefnilega þá skoðun, eins og mamma þótt við séum ósammála um margt, að ég hafi sjálf með líf mitt að gera.  Það er ég sjálf sem hef ávallt tekið mínar ákvarðanir. Bæði góðar og vondar. Það verður líka að segjast blygðunarlaust að brennivín hef ég aldrei þambað ósjálfrátt og að enginn maður hefur, hvorki fyrr sé síðar, þvingað ofan í mig svo mikið sem einum einasta dropa af lífsins dýru veigum. Ó, nei, aldeilis ekki, það er ég sem er ábyrg gjörða minna þótt ekki séu þær allar til að hrópa húrra fyrir. En ég segi eins og sjálfumglaða kellingin sagði forðum og sneri háðslega út úr eigin orðum: „Ég vel mér lifnaðarhætti sem fara vel með líkama og sál.“

Börnin hennar Siggu fá sína umfjöllun í bókinni, en þau eru fjögur.

Börnin mín eru að minnsta kosti öll gæfufólk, ég bakka ekki með það, og þau eru öll hjartanlega velkomin í heiminn. Öll eru þau skráð og nefnd, ekkert þeirra er skírt sem smábarn, enda erum við foreldrarnir ekki trúaðir í þeirri merkingu sem stofnanir leggja í orðið og sennilega í engri merkingu yfirleitt – að minnsta kosti ekki ég

Hvað sem sagt verður þá eru fæðingardagar barnanna minna mínir lukkudagar, ef hægt er að tala um lukkudaga án þess að tengja þá við lottóvinninga.  Börnin eru stolt mitt og yndi og þau eru framlag mitt til lífsins, sem er ekki skorið við nögl, þó að ég segi sjálf frá og spari algjörlega við mig lítillætið, þótt hógværðin sé mér sífellt meira að skapi.

Kannski langar mig einfaldlega til að segja hreint út að börnin mín hafi verið mér allt og séu mér allt, en ég forðast úrsérgengnar klisjur sem missa merkingu sína um leið og þær eru sagðar og skrifaðar, enda trúlega hin mesta þvæla að segja að eitthvað og einhverjir séu einhverjum allt í lífi sem ennþá hefur ekki sungið sitt síðasta. En þetta er tilfinningin. Þau eru mér allt. Þau skipta mig mestu máli og hafa alltaf gert, þrátt fyrir allt og allt.

Fyrir nokkrum árum stofnaði Sigga til sambands við Hans Kristján Árnason,Hosa. Þau segjast hafa hist í Bónus.

Við hittumst trúlega í grænmetisdeildinni, kannski er ég að kaupa epli og hann appelsínu – og viti menn – þar sem við stöndum þarna vindur hann sér að mér og spyr hvort hann megi koma heim með mér og fá sér drykk, segist hafa keypt sér pela í bænum. Ég segi bara gjörðu svo vel og hann kemur og borðar með okkur Dóru Lenu. Hann fær sér svo sinn drykk og fer.

Nú líður og bíður og fátt merkilegt sem gerist í þessari sögu, nema einn daginn kemur vinurinn í heimsókn, vindur sér beint að efninu eins og honum einum er lagið og spyr hvort hann megi ekki kyssa mig

Gjörðu svo vel, þó nú væri, segi ég og hann gerir það

Og má ég svo kannski gista? Segir hann eftir kossinn góða.

Þó nú væri, segi ég – og síðan eru semsé liðin nokkur ár og við höfum lullað þetta saman í besta heimsins bróðerni.

 

Saumaklúbbur Siggu frá í menntaskóla er orðinn að settlegum kellingum.

Í hópnum okkar þarf enginn að þykjast neitt og það er svo dásamlegt.  Við erum nefnilega manneskjur en engir róbótar. Í menntaskóla áttum við svo margt sameiginlegt sem lýsir vel tíðarandanum í lok sjöunda áratugar síðustu aldar og byrjun þess áttunda. Seinni tvö árin í skólanum vorum við töluvert vinstrisinnaðar, töluvert á móti Nató, töluvert djammfengnar, töluvert sénsaðar, töluvert áhugalausar um hefðbundið nám, töluvert vel lesnar, töluvert pjattaðar, töluvert slakar, töluvert villtar, töluvert trúlofaðar, töluvert jafnréttissinnaðar, töluvert vitlausar, töluvert óléttar og töluvert orðnar mæður, búandi í unglingaherberjum foreldrahúsanna; að vera með kærasta og vöggu inná foreldrunum er bara töluvert eðlilegt mál og ég gæti auðveldlega gert töluvert lengri lista yfir hvað við erum töluvert eðlilegar, glaðar og hressar ungar manneskjur, en ég læt staðar numið.

 

Ritstjórn október 28, 2016 14:57