Barði hann fyrir framhjáhaldið

Tom Jones söngvarinn frægi, fæddist í litlum bæ í Suður Wales fyrir rúmum sjö áratugum. Faðir hans var námuverkamaður. Tom sem var skírður Thomas Jones Woodward var ekki mikið fyrir bókina, en byrjaði kornungur að syngja. Hann söng í fjölskylduboðum, við brúðkaup og var í skólakórnum. Tólf ára gamall veiktist hann af berklum og var rúmliggjandi í tvö ár, sem hann segir hafa verið þau verstu sem hann hefur lifað.

Giftust 16 ára gömul

Tom giftist skólasystur sinni Melindu Trenchard þegar þau voru bæði 16 ára, en þá áttu þau von á barni saman. Sonurinn Mark fæddist mánuði eftir brúðkaupið, en fleiri urðu börnin ekki. Þau eru enn gift, þrátt fyrir að Tom Jones hafi haldið framhjá Melindu með ýmsum þekktum konum og meira að segja eignast barn með bandarískri fyrirsætu. Sagt er að Melinda hafi barið hann fyrir framhjáhaldið og hann hafi látið sig hafa það.

Söngferillinn hefst fyrir alvöru

Tom byrjaði ungur að koma fram með félögum sínum í Suður-Wales, en þeir léku á klúbbum sem verkamenn sóttu. Sjálfur fór hann að vinna í hanskaverksmiðju til að sjá konu og barni farborða. Það var svo í upphafi sjöunda áratugarins að Gordon Mills umboðsmaður í London sem einnig var frá Suður-Wales heyrir hann syngja, og ferill hans kemst á flug. Hann drífur Tom til London, breytir nafni hans í Tom Jones og útvegar honum plötusamning við Dekka.Lagið hans „It´s Not Unusual“ slær síðan í gegn en það var útvarpsstöðin Radio Caroline sem kom því á framfæri. Næstu ár nær Tom Jones miklum vinsældum í Bretlandi.

Var kyntákn

Feril Tom Jones þekkja margir. Hann sló eining í gegn í Bandaríkjunum og fluttist þangað. Hann var með og kom fram í sjónvarpsþáttum, söng á tónleikum, gaf út plötur og kom fram við ýmis tækifæri. Á tímabili var hann mikið kyntákn og stúlkurnar hentu hótellyklum uppá svið þegar hann var að syngja, í þröngum buxum með skyrtuna upphneppta niður á bringu. Þegar hann var sjötugur var hann enn að koma fram, 200 daga á ári.  Um áramótin 2000 söng hann í nýársboði í Hvíta húsinu í Washington, í forsetatíð Bill Clintons.

Hefur selt yfir 100 milljónir platna

Hann hefur selt yfir 100 milljónir platna á ferli sínum og átt 36 lög á vinsældarlistum í Bretlandi og 19  í Bandaríkjunum með smellum eins og Its Not Unusual, Delilah, Green Green Grass of Home og She´s a Lady. Hann er enn að og syngur fyrir okkur Íslendinga í Laugardalshöllinni í kvöld.

Ritstjórn júní 5, 2015 12:51