Eins og geðstirðir gamlir karlar

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Flestir muna án efa eftir bíómyndinni Grumpy old men, og framhaldinu Grumpier old men, frá tíunda ártug síðustu aldar. Þar fara þeir félagar Jack Lemmon og Walter Matthau með hlutverk geðstirðra karla á eftirlaunaaldri, sem hafa rifist og verið með skæting hvor í annars garð nánast alla tíð. Þetta er ágætis bíó, og ekki dregur úr ánægjunni að Ann-Margret er í aðal-kvenhlutverkinu, algjör andstaða við þá félaga. Án þess að það sé beinlínis verið að fjalla um það í þessum myndum, þá má þó lesa það út úr þeim, að sumir geti átt á hættu að verða geðstirðari með aldrinum.

Eflaust kannast einhverjir við sambærilegar týpur úr sínu umhverfi og þeir Jack Lemmon og Walter Matthau túlka í þessum bíómyndum. Næsta víst er þó að skapsveiflur séu ekki endilega bundnar við eldri karla. Það þarf nefnilega ekki að leita langt yfir skammt til að komast að því að sumir eru stirðari í skapi en aðrir. Þetta má sjá nánast daglega í fjölmiðlunum, eins og til dæmis í öllum þeim fýlukenndu greinum í vefmiðlum eða dagblöðum, sem sumir senda frá sér með nokkuð reglubundnu millibili. Þar sem allt er ómögulegt ef það kemur ekki úr réttri átt. Einnig er hægt að benda á þá fjölmörgu geðvonskulegu leiðara, eða önnur sambærileg skrif þeirra sem fást við slíkt, sem hafa birst í einstaka dagblaði á umliðnum árum. Ástæðulaust er að sökkva sér of djúpt í hvað þar býr að baki. Svo eru það að sjálfsögðu öll kommentin í vefmiðlunum, þar sem ákveðnir einstaklingar eru alltaf neikvæðir, óháð tilefninu. Símatímar sumra útvarpsstöðva eru svo enn ein birtingarmyndin.

Ber það ekki vott um að vera stirður í skapi, að þykjast alltaf vita allt betur en allir aðrir um nánast allt sem hugsast getur? Að kunna aldrei að hlusta, eða það sem er líklega enn líklegra, að vilja ekki hlusta. Þannig eru því miður svo margar af þeim greinum eða kommentum, sem birtast jafnt í vefmiðlum sem og í dagblöðum. Eða, hvað er hægt að segja um þau sem eru alltaf sannfærð um að allt sem aðrir segja sé tóm þvæla og vitleysa, eða í besta falli algjör misskilningur? Svo eru það þau sem sjá ofsóknir eða árásir, jafnvel loftárásir, úr öllum hornum og öllum áttum, sem svo mjög hefur borið á undanfarin misseri. Slíkt fólk er auðvitað í sérstökum flokki. Það er með ólíkindum hve margir virðast alltaf vera í vondu skapi, að minnsta kosti þegar viðkomandi láta skoðanir sínar í ljós í fjölmiðlum. Ótrúlegt að nenna því.

Sumir þeirra sem eru hvað duglegastir að skrifa fýlukenndar greinar í vefmiðla eða dagblöð eru á svipuðum aldri og þeir félagar Jack Lemmon og Walter Matthau í Grumpy old men og Gruppier old men. Um þetta lið er ekkert að segja. Það er bara þarna úti, með sín viðhorf. Það vita allir hvernig þetta fólk er, og þess vegna er hægt að afgreiða það eins og þá Jack Lemmon og Walter Matthau, og reyna að hafa gaman að því. Það er hins vegar vandasamara með þau sem hafa ekki einu sinni náð miðjum aldri, en virðast alltaf vera í fýlu. Hvernig verður þetta fólk þegar það kemst á efri ár, ef ályktunin hér að frama er rétt, þ.e. að sumir eigi á hættu að verða geðstirðari með aldrinum? Þá er ekki von á góðu. Það er ekki við því að búast að hægt sé að afgreiða þetta fólk eins og þá Jack Lemmon og Walter Matthau, og hlæja að því. Sérstaklega ekki þau sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif á líf okkar hinna. Áhyggjuefni.

 

Grétar Júníus Guðmundsson september 15, 2014 15:01