Ekki hækka eftirlaunaaldur þeirra sem nú eru sextugir

Mikil umræða hefur verið um eftirlaunaaldurinn á Vesturlöndum, þar sem hópar þeirra sem eldast fara ört stækkandi. Mörg lönd áforma að hækka eftirlaunaaldurinn. Það hefur einnig verið rætt hér á landi eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og Landssamband eldri borgara ætlar að ræða málið frekar á fundi sínum á þriðjudag, en almennt er það stefna sambandsins að starfslok séu sveigjanleg.

Margir farnir að hlakka til að hætta

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður sambandsins bendir á að þegar eftirlaunaaldurinn var ákveðinn 67 ár í Þýskalandi, hafi meðalaldur þar verið um 68 ár. Sér finnist persónulega eðlilegt að hækka starfslokaaldurinn í áföngum, en telur að ekki eigi að breyta eftirlaunaaldri þeirra sem nú eru sextugir. „Margir þeirra eru farnir að undirbúa sig fyrir að hætta að vinna og jafnvel farnir að hlakka til“ segir hún og vísar þar helst til fólks sem hefur unnið erfiðisvinnu. Hún telur að það þurfi að hækka eftirlaunaaldurinn rólega og í áföngum, eins og raunar er verið að ræða um.

Fráleitt að segja sjötugu fólki að hætta að vinna

Það er ekki algilt að fólk sem starfar í einkageiranum hætti að vinna þegar það verður sjötugt en samkvæmt lögum þurfa opinberir starfsmenn að gera það. Jóna Valgerður segir fráleitt að segja fólki að hætta að vinna þegar það verður sjötugt, á sama tíma og það vantar lækna, hjúkrunarfólk og kennara til starfa. Það sé alls ekki í takt við tímann, því fólk sé mun hraustara en það var fyrir 20 árum.

Ritstjórn ágúst 10, 2014 10:57