Eldra fólk sem drekkur og djammar

Þýdd grein úr breska tímaritinu Economist

„Ekki líta út eins og druslur, ekki verða full og ekki æla yfir ykkur“ þetta voru ráð sem leikonan Joanna Lumley gaf ungu fólki endur fyrir löngu. Þau hegðuðu sér illa, fannst henni, líklega vegna einhverrar ástæðu sem var undirliggjandi í samfélaginu. Nýlegar tölur benda til þess að Lumley hafi frekar hitt naglann á höfuðið í leikþættinum „Algerlega æðisleg“ þar sem aðalpersónan var Patsy, alkóhólisti sem var að eldast.

Eftirlaunafólk í áfengismeðferð

Á síðast liðnum fimm árum hefur ungu fólki í áfengismeðferð fækkað um 25%, en konum á eftirlaunum sem fara í meðferð vegna áfengisdrykkju hefur fjölgað um 65%. Könnun sem var gerð var af Heilsu- og velferðarmiðstöðinni bresku, sýndi að þeir sem eru í mestri hættu á að verða drykkju að bráð, eru karlar á aldrinum 55-64 ára.

Álag sem eykur drykkju

Eftirlaunaaldurinn getur leyst úr læðingi slæma ávana, sem fólk gat haldið í skefjum á meðan það var að vinna. Um þriðjungur eftirlaunafólks sem á við áfengisvanda að stríða, byrjaði fyrst að drekka fyrir alvöru þegar hann hætti að vinna. Ýmiss konar álag sem fylgir aldrinum getur líka valdið því að fólk fer að halla sér að flöskunni: ástvinamissir, einmanaleiki og heilsufarsvandamál. Eftirstríðsárakynslóðin – baby boomers- er sögð vera í sérstakri áhættu hvað þetta áhrærir. Hún drekkur meira en kynslóðirnar á undan, að hluta til vegna þess að það er auðveldara að fela drykkjuna þegar fólk verslar á netinu, en einnig vegna þess að hún varð fullorðin um svipað leyti og það hætti að vera feimnismál að drekka mikið. Og áður en unga fólkið í dag gerði það aftur að feiminismáli.

Eftirlaunafólk einnig í kannabisneyslu

Eftirlaunafólk lætur sér hins vegar ekki nægja að fá sér í glas. Evrópska lyfjaeftirlitið telur að fjöldi 65 ára Evrópubúa sem þurfi í endurhæfingu vegna lyfjamisnotkunar, muni tvöfaldast á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar. Betri meðferð er ekki eina skýringin á því. Rannsókn sem var gerð við Kings College í London, sýndi slánandi niðurstöður varðandi lyfjanotkun eldra fólks. Þannig tífaldaðist kannabis neysla fólks á aldrinum 50-64 ára, á árunum 1993 til 2007. Þetta eru ekki endilega nýir neytendur, heldur fólk sem tók þessa ósiði upp á árunum 1960-1970 og heldur þeim áfram á gamalsaldri.

Kynsjúkdómar aukast

Þetta fólk er líka laust í rásinni. Kynsjúkdómar meðal eftirlaunafólks hafa aukist gríðarlega. Fjöldi karla yfir 65 ára aldri, sem fær Herpes genitalis, jókst um 50% á síðustu fimm árum. Meðal kvenna tvöfaldaðist fjöldi slíkra tilvika. Hvað sem Herpes líður, getur djamm á eftirlaunaaldri verið skemmtilegt. En það getur líka haft sínar skuggahliðar.

Alvarlegt ef menn missa jafnvægið

Eldra fólk er viðkvæmara fyrir áhrifum áfengis og lyfja, þar sem lifrin starfar ekki jafn ötullega og áður þegar aldurinn færist yfir. Hliðarverkanir geta líka orðið alvarlegar, þegar þannig er komið að ef menn missa jafnvægið getur það þýtt mjaðmagrindarbrot. Kynsjúkdómar geta síðan tekið sinn toll, þegar ónæmiskerfið er farið að eldast. Allt skilar þetta sér svo í hærri kostnaði í heilbrigðiskerfinu. En það er kannski huggun harmi gegn, að börn þessa fólks eiga líklega eftir að hegða sér betur á efri árum.

Ritstjórn desember 3, 2014 11:34