Eldri starfsmenn og yngri yfirmenn

Ein af áskorunum fyrir fólk 50 ára og eldra á vinnumarkaði er að finna út hvernig það getur á sem auðveldastan hátt látið sér semja við yfirmann sem er yngri en það sjálft.  Margir eru nú þegar með yfirmann sem er yngri en viðkomandi eða munu fá yfirmann sem er mörgum árum yngri en það sjálft. Samkvæmt könnun sem gerð var í Bandríkjunum finnst alls ekki öllu eldra fólki slæmt að hafa yfirmann sem er yngri. Þó kom fram að mörgum þótti hinir yngri hafa annað vinnulag og þeir tjáðu sig á annan hátt en hinir eldri. Mörgu fólki fannst líka erfitt að taka við skipunum frá einhverjum sem var á aldur við þeirra eigin börn.  Það er hins vegar ýmislegt hægt að gera til að bæta samskiptin, segir í grein á vefnum aarp.org

Minntu þig á að eitt sinn varst þú sjálfur á svipuðum stað. Ungur og fullur af hugmyndum og með tillögur um að gera hlutina á nýjan hátt. Hlustaðu því vandlega á það sem yfirmaðurinn hefur fram að færa og vertu tilbúinn að nálgast verkefnin á nýjan hátt. Sumir eldri starfsmenn kvarta yfir því að yngri yfirmenn láti eins og þeir viti meira en þeir sem eldri eru. Leiddu það hjá þér. Einbeittu þér þess í stað að því að vera jákvæður. Horfðu á hlutina frá sjónarhóli þess sem yngri er. Þegar kvartað er yfir því að reynsla eldra fólks sé ekki metin að verðleikum getur verið að yfirmanninum finnist að þú komir fram eins og kennari eða foreldri hans og gefir honum ekki kredit fyrir þá reynslu og menntun sem hann hefur aflað sér.

Yngri yfirmenn geta haft áhyggjur af því að þú sért að básúna það út yfir alla hversu gamall hann eða hún er. Þeir hafa líka áhyggjur af því að eldra fólk sé staðnað og ekki reiðubúið að reyna nýjar nálganir, læra nýja tækni og valdi starfinu ef til vill ekki. Ræddu málið við þá og segðu þeim að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur. Kannski langar þig ekki að umgangast yngra fólkið á vinnustaðnum utan vinnutíma en það ætti eldra fólk að gera. Það getur styrkt tengslin á vinnustaðnum og fólk fær fréttir af því sem er að gerast í fyrirtækinu. Það er líka mikilvægt fyrir eldri starfsmenn að tala um stykleika sína í stað þess að vera alltaf að velta aldursmuninum fyrir sér.

Áhugi og eldmóður þeirra yngri getur verið smitandi. Hafi fólk einhvern tíma sjálft verið stjórnendur þá veit það að það getur verið erfitt. Yfirmaðurinn metur þig að verðleikum ef þú gerir honum auðveldra fyrir. Vertu jákvæður, spurðu spurninga og legðu til lausnir ef eitthvað fer úrskeiðis. Yngri stjórnendur vilja líklega hafa samband við þig með smáskilaboðum eða tölvupósti í stað þess að tala beint við þig eða taka upp símann. Talskilaboð eru úrelt og það er undir þér komið að aðlaga þig þessu. Lærðu nýjar samskiptaleiðir.

Fyrir marga yngri yfirmenn skiptir það meira máli að þú komir hlutunum í verk í stað þess að hanga tímunum saman í vinnunni. Þeir telja langa vinnudaga ekki ávísun á afköst. Ekki festast í fortíðinni. Það er allt í lagi að vera stoltur af því sem maður gerði fyrir nokkrum árum en það hefur ekkert með frammistöðu þína að gera í dag. Yfirmaður þinn vill fá að vita hvernig þér gengur að leysa viðfangsefni dagsins í dag og hvernig þú ætlar að leysa vandamál morgundagsins.

Forðastu að segja að yfirmaðurinn sé að gera svipaða hluti og börnin þín eða hvað þú varst að gera á hans aldri. Yfirmanninum langar varla til að hann minni þig á þín eigin börn. Ef þú ert gamaldags í háttum og klæðnaði gæti yfirmaðurinn haldið að starfshæfni þín sé farin að skerðast. Hugsaðu áður en þú talar. Það hefur enginn áhuga á bakvandamálum eða hvað allt var gott í gamla daga. Haltu þér í góðu líkamlegu formi og borðaðu holt og gott og reyndu að halda í við þá yngri.

 

Ritstjórn janúar 18, 2017 11:17