Ertu að fá hjartaáfall án þess að vita af því?

Næstum helmingur þeirra sem fá hjartaáfall fá lítil sem engin einkenni áður en þeir fá áfallið.

Flest allir hafa séð atriði  í kvikmyndum þar sem leikarinn ber hönd að brjósti sér sem merki um að hann sé að fá hjartaáfall. En slík hjartaáföll segja aðeins hálfa söguna. Nýjar rannsóknir sýna að 45% allra þeirra sem fá hjartaáföll fá svokölluð þögul eða hljóð áföll og hafa jafnvel enga hugmynd um hvað er að henda þá. Karlmenn eru í meirihluta þeirra sem fá hjartaáföll en dánartíðni þeirra sem fá hjartaáföll er samt hærri meðal kvenna, segir í grein á vefnum aarp.com

Samkvæmt könnun sem var birt í vor í tímaritinu Circulation segir að næstum helmingur allra hjartaáfalla sé án allra einkenna.

„Afleiðingar þöguls hjartaáfalls eru alveg jafn alvarlegar og áfalls sem er greint strax sem slíkt,“ segir læknirinn Elsayed Z. Soliman en hann er yfirmaður rannsóknarmiðstöðvar um hjartasjúkdóma hjá Wake Forest Baptist Medical Center. „Þar sem að sjúklingar vita ekki af hjartaáfallinu er hætt við því að þeir fái ekki meðferð til að fyrirbyggja annað slíkt áfall,“ bætir hann við.

Hjartaáfall verður þegar blóðflæði til hjartans stöðvast eða skerðist verulega með tilheyrandi skemmdum á hjartavöðva. Dæmigerð einkenni eru brjóstverkur, andnauð, ógleði, svimi eða kaldur sviti.

En önnur einkenni þekkjast líka eins og óútskýrð þreyta, verkur eða óþægindi í hálsi, kjálka, eða mikill brjóstsviði. „Stundum eru þessi einkenni samt svo væg að manneskjan tekur varla eftir þeim,“ segir Soliman læknir. Ummerki um þessi áföll finnast venjulega fyrir tilviljun, t.d. þegar þegar hjarta viðkomandi er rannsakað eða vegna annara rannsókna sem fólk þarf að gangast undir.

Rannsakendur greindu sjúkraskýrslur næstum 9.500 einstaklinga á aldrinum 45-64 ára sem voru jafnframt þátttakendur í stórri rannsókn um kölkun í æðum. Úr þeim hópi höfðu á níu ára tímabili 317 fengið þögul hjartaáföll en 386 fengið hjartaáföll með þekktum einkennum.

Þá voru tuttugu síðustu ár skoðuð með tilliti til dánarorsaka þeirra þáttakenda sem látist höfðu úr hjartaáfalli eða af öðrum orsökum. Hægt var að sýna fram á að þögul hjartaáföll þrefölduðu hættuna á að deyja síðar úr hjartasjúkdómi og jók hættuna á að deyja úr öðrum sjúkdómum um 34%.

„Þar sem einkenni þöguls hjartaáfalls geta verið óveruleg ætti fólk að vera á varðbergi ef það snöggþreytist eða verður andstutt eða óglatt við venjulega hreyfingu en verði strax einkennalaust við hvíld,“ segir hjartalæknirinn Suzanne Steinbaum en hún er yfirlæknir hjartadeildar kvenna hjá Lenox Hill Hospital í New York í viðtali við tímaritið HealthDay.

„Þessi óverulegu einkenni gætu stafað frá hjartanu og ætti ekki að líta fram hjá þeim, leitaðu strax læknis,“ segir hún.

Ritstjórn júní 3, 2016 14:54