Fann ástina og keypti hús á 700 þúsund

Hugsi heima á Íslandi.

Hugsi heima á Íslandi.

„Að ná endum saman er hugtak sem ég hef aldrei skilið. Mitt viðmið hefur alltaf verið að njóta lífsins á því sem ég hef þénað hverju sinni sem hefur verið ansi sveiflukennt í gegnum tíðina. Ég hef gætt þess að skuldsetja mig ekki mikið, en það sýnist mér vera aðalvandamál margra Íslendinga að skuldsetja sig upp fyrir haus,“ segir Friðrik Lúðvíksson. Friðrik er einn þessara manna sem eltir drauma sína. Hann er fluttur að mestu til Búlgaríu, giftur þarlendri konu og lifir eins og blóm í eggi. „Ég fór í námsleyfi til Plovdív fyrir sjö árum. Þar fór ég að vera með núverandi eiginkonu minni henni Danielu Yordanova sem er blessunarlega hrifin af gamaldags suðrænni þorpsmenningu , eins og ég. Hún flutti svo með mér á Ísafjörð um tíma og líkaði vel. En nú erum við sem sagt bæði flutt aftur til Búlgaríu ótímabundið. Við búum í þorpinu Palamartsa í  Popovo héraði sem er í norðurhluta landsins.“

Ólst upp í Skólavörðuholtinu

Stráknum sem ólst upp á Skólavörðuholtinu í Reykjavík og í Hafnarfirði og eyddi unglingsárunum í Danmörku, finnst eins og hann sé kominn heim og það til Búlgaríu. Áður en hann fór á eftirlaun var hann tónlistarkennari á Ísafirði í 29 ár. Þar áður bjó hann á Egilsstöðum í 16 ár þar sem hann fór að kenna tónlist í aukastarfi. Auk þess að starfa sem tónlistarmaður og kennari hefur hann lagt gjörva hönd á margt, lærði grjóthleðslur og að byggja torfhús. Hann er söðlasmiður og áhugamaður um gamalt handverk. Mörgum finnst ansi fjarlægur draumur að setjast að í Búlgaríu og þekkja lítið til landsins. Friðrik segist hafa komið þangað fyrst árið 1968 þá tvítugur að aldri. „Ég bjó í Danmörku á þessum árum. Kommúnistastjórnin í Búlgaríu var að opna smá glufu fyrir hina stórhættulegu vesturlandabúa, til að koma í heimsóknir til landsins. Annars var þetta harðlokað land. Í fyrstu leyfðu þeir bara Dönum og Svíum að koma þangað, líklega hefur þeim þótt þeir nógu sósíalískir. Ég man að þeir tóku þá á móti einni flugvél á viku frá Danmörku og einni frá Svíþjóð. Ég ákvað að skella mér og satt best að segja var þetta ferðalag einstök upplifun. Við vorum þrír tvítugir félagar saman á ferð og skemmtanaþyrstir mjög. Við kynntumst mörgu fólki, ekki síst fallegum ungum stúlkum sem vildu ólmar kynnast okkur nánar. Það varð þó lítið úr nánum kynnum, einhvern veginn tókst kommúnistunum að koma í veg fyrir það,“ segir hann.

Örlagastund í lífi manns

Friðrik ásamt nemendum sínum.

Friðrik ásamt nemendum sínum.

Friðrik flutti aftur til Íslands 1972, eignaðist konu og börn. Hann gleymdi þó aldrei suðrinu. Árið 1996 fór hann að dreyma um að eignast kofa og landskika einhversstaðar í suður Evrópu. Í fyrstu var hann að hugsa um að kaupa í Portúgal  þar sem nokkrir danskir vinir hans höfðu keypt sér hús. Við nánari skoðun sá hann að það var orðið of dýrt, svo ekkert varð úr því. Eftir að Friðrik gerðist tónlistarkennari í fullu starfi árið 1987 átti hann löng og góð sumarfrí sem hann notaði meðal annars til að fara á allskonar námskeið og tónlistarhátíðir og ferðast vítt og breitt um heiminn. „Nú komum við að örlagastundu í mínu lífi. 2003 fór ég á námskeið og gítar festival á eyjunni Siros Hermopolis, í Hvítahafi Grikkja . Þar kynntist ég stórkostlegum gítargúrú og galdramanni frá Bandaríkjunum. Eftir stutt kynni segir hann „Þú þarft að fara til Plovdiv í Búlgaríu og hitta Stela Dinkova.“ Þá hafði ég ekki hugsað um Búlgaríu ansi lengi. Tveimur árum síðar benti sonur minn mér á hús til sölu á 8000 evrur (um 700 þúsund íslenskar krónur þá ) í suður Búlgaríu, í tæplega 50 kílómetra fjarlægð frá Svartahafinu. Ég tók næsta flug og keypti það“.

Ferðast um landið þvert og endilangt

Friðrik og Daniela nýgift árið 2012.

Friðrik og Daniela nýgift árið 2012.

„Frá því árið 2005 hef ég komið til Búlgaríu á hverju sumri og ferðast um landið þvert og endilangt auk þess sem ég hef brugðið mér til nágranna landanna. Ég keypti fleiri hús, krónan var ansi sterk um miðbik síðasta áratugar og hægt að kaupa hús á eignarlóð við vægu verði. Þau ódýrustu voru á um 300 þúsund íslenskar krónur.“ Friðrik segir að margt hafi breyst varðandi húsakaup í Búlgaríu á síðustu árum . „Þegar ég kom hér fyrst máttu útlendingar ekki eiga land. Menn gerðu það þá með því að stofna einkahlutafélag og kaupa í gegnum það. Búlgaría gekk í Evrópusambandið 2007 með fimm ára aðlögunartíma og nú geta Evrópusambandsbúar keypt land og fasteignir hér í eigin nafni,rétt eins og heima hjá sér . Það sama gildir þó ekki um Íslendinga þeir þurfa enn að fara krókaleiðir að því að fjárfesta hér. Norðmenn og Svisslendingar hafa gert samninga við Evrópsambandið um fasteignakaup, en Ísland ekki enn,svo ég viti?“ Friðrik segir að húsnæði í Búlagaríu sé mjög misdýrt eftir því hvar í landinu það sé. „Það er sennilega dýrast við Svartahafið og í miðborg Sofia. En að meðaltali er allt verðlag líklega einna lægst hér af öllum Evrópusambandslöndunum,“ segir hann. „Í Búlgaríu fæst núorðið, allt milli himins og jarðar, og húsnæði getur verið mjög nýtískulegt, hátækni lúxus, og mjög gamaldags,og allt þar á milli! Ég hef sjálfur laðast mest að gamaldags þorpum, en þeir sem vilji nútíma þægindi verða oftast að gera þó nokkuð fyrir þessi hús svo þau standist kröfur vestur Evrópubúa. Þetta er svona eins og hverfa 60 til 80 ár aftur í tíman á Íslandi. Ég er búinn að gera tvö hús í stand með misgóðri hjálp heimamanna. Það var mikill lærdómur að semja við heimamenn og kynnast búlgörsku skrifræði,“ segir Friðrik „ En þessi gamaldags þorpshús eru sannarlega gamaldags handverk. Og hvað er betra en að fara til nágrannans og geta keypt ferska geita og kindamjólk, ferskt grænmeti og ávexti, úrvals hunang og egg úr glöðum hænum sem ganga lausar.“

Gott að komast af á eftirlaununum í Búlgaríu

Asninn er enn þarfasti þjóninn hjá sumum íbúum Búlgaríu.

Asninn er enn þarfasti þjóninn hjá sumum íbúa Búlgaríu.

Eins og allir muna varð hrun á Íslandi árið 2008. Ári síðar fékk Friðrik námsleyfi í eitt ár. Hann ákað að verja því í Búlgaríu og fékk inni í Listaháskólanum í Plovdiv fyrir tilstilli gítarsnillingsins Stela Dinkova sem minnst var á hér að framan. „Ég fékk að læra allt það sem mig langaði og vera með í öllu sem hugurinn girntist. Balkönsk þjóðlagatónlist var þá orðin sérstakt áhugamál hjá mér. Svo lærði ég myndlist, grafík, dans og sviðsmyndagerð. En klassíski gítarleikurinn var þó mínar ær og kýr . Friðrik segir að Plodvív sé afar falleg borg í suðurhluta landsins. „Plovdív er sögð elsta borg Evrópu, eldri en Istanbul ,Róm og Athena. Þar gekk ég daglega á 6-7000 ára gömlum steingötum. Og ég varð þess fullviss að ég hafði gengið þessar götur oft áður.“ Teningunum var kastað, ný ástfanginn Friðrik flutti með Danielu aftur heim á Ísafjörð. Hann langaði þó að snúa til baka og setjast að í fallegu þorpi í Búlgaríu.Friðrik segir gott að komast af á eftirlaununum í Búlgaríu. „Hér fæst allt sem hugurinn girnist, og er nokkuð augljóst, að ellilaun íslensks kennara, duga mér miklu betur hér en á Íslandi. Ég hef ekki þurft að nota heilbrigðisþjónustuna hér nema tvisvar lítillega, á þessum tíu árum og fékk góða þjónustu. Hér talar enginn um biðlista eftir að komast til læknis. Annað varðandi heilbrigðiþjónustu, Íslendingar eiga rétt á EU sjúkrakortinu, sem veitir fullan rétt á allri almennri heilsugæslu í öllum Evrópusambandslöndunum. Svo get ég keypt prívat sjúkratryggingu að auki hér, það er ekki ódýrt, en fæ þá allt það besta sem er í boði.“

Fegurð við foss

Fegurð við foss

Vingjarnlegt fólk 

Hann segir að matarverð sé lágt, eins og flest annað, hægt að fá góða máltíð frá 4-500 krónum á veitingahúsum,og stóran bjór með frá 100 kr. „Matarinnkaup okkar eru alltaf minnst helmingi ódýrari en á Íslandi, og margt annað óskiljanlega mikið ódýrara, jafnvel vörur innfluttar langt að. Byggingavörur,raftæki,bílavarahlutir t.d, fasteignaskattar, tryggingar, internet , kosta 1/6 -1/8 af því sem þau kosta á Íslandi“. Friðrik segir að almenningssamgöngur kosti einnig lítið og séu mikið notaðar af öllum. Búlgarir eru almennt mjög vingjarnlegir, þægilegir og opnir fyrir kynnum að sögn Friðriks. „Hér býr fólk af margvíslegum uppruna og hér mætast menningarstraumar úr ýmsum áttum. Flestir eru blanda af latnesku og slavnesku fólki sem tilheyrir Grísk kaþólsku kirkjunni. Um það bil fimmtungur er af tyrkneskum uppruna og er múslimar. Svo er slatti af Róma-fólki, Sígaunum, enginn veit hve margir . Þeir eru frekar á móti manntali, skólum og öllum frelsisfjötrum og heilaþvotti. Mér finnst þeir skemmtilegir og áhugaverðir, en betra er að passa vasana vel, þangað til þú þekkir þá persónulega. Það er erfitt að læra búlgörskuna, ekki léttara en fyrir útlendinga að læra íslensku. Yngra fólk kann oftast þó nokkra ensku, og miðaldra fólk oft hrafl í þýsku eða frönsku. Eldra fólk kann rússnesku sem var skyldunámsgrein á dögum kalda stríðsins eins og danska hjá okkur á meðan við vorum nýlenduþjóð,“ segir Friðrik sem leiðist aldeilis ekki lífið í Búlgaríu. „Ættingjar og vinir mínir eru út og suður um allar jarðir. Flestir líklega þó í Skandinavíu. Ég held þeir komi jafnvel frekar hingað í heimsókn en á Ísafjörð. Og það er minna mál fyrir mig að skreppa til Danmerkur héðan, en frá Íslandi,“ segir tónlistarmaðurinn og lífskúnsnerinn Friðrik Lúðvíksson að lokum.

 

Ritstjórn ágúst 26, 2016 10:08