Grái herinn sprengdi utanaf sér húsnæðið

Grái herinn, baráttuhópur eftirlaunafólks innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hélt sinn fyrsta fund á laugardaginn í húsakynnum félagsins í Stangarhyl 4 í Reykjavík. Aðstandendur fundarins töldu að fundarsalurinn sem tekur 120 manns í sæti, myndi duga fyrir þennan fyrsta fund, en svo fór ekki, því um 350 manns mættu á fundinn.  Setið var á borðum, á sviðinu og staðið inni í eldhúsi.  Hvar sem hægt var að drepa niður fæti.

Lágmarkslaun gildi líka fyrir eftirlaunafólk

Aðstandendur Gráa hersins sögðu frá helstu baráttumálum hersins, en þar má segja að megináherslan sé á Lífeyrismál og það að fólk geti lifað mannsæmandi lífi þegar það eldist. Krafan er að eftirlaun fólks, verði aldrei undir lágmarkslaunum í landinu, sem verða um 300.000 krónur árið 2018, samkvæmt því sem samið var um í síðustu kjarasamningum.  Hópurinn vill sveigjanleg starfslok og vill fá að vinna eins lengi og hann hefur getu og löngun til.  Einn fundarmanna greindi frá því að eftir að hann missti vinnuna rúmlega sextugur, hafi hann sótt

Það var setið alls staðar

Það var setið alls staðar

um 100 störf og komist í 2-3 viðtöl. Viðmót atvinnurekenda hefði gjörbreyst þegar þeir áttuðu sig á kennitölu hans.

Eru ekki baggi á þjóðfélaginu

Annað helsta baráttumál Gráa hersins er að breyta hugarfari landsmanna í garð þeirra sem eldri eru. Þau orð og hugtök sem eru notuð um eldra fólk í samfélaginu, gefi beinlínis ranga mynd af staðreyndum.  Svo gripið sé niður í stefnuyfirlýsingu Gráa hersins þar sem segir.

Eldra fólk á að sjálfsögðu að gera þá kröfu til samfélagsins að því sé sýnd virðing.  Að líta á aldraða sem afgangsstærð, sem sé baggi á þjóðfélaginu, er ósanngjarnt og ólíðandi. Eftirlaunafólk er ekki „ölmusufólk“ eða „bótaþegar.  Þeir sem greitt hafa reglulega í Lífeyrissjóði hafa unnið fyrir lífeyrinum og eiga þessa fjármuni inni í sjóðum, enda hafa þeir byggt þá upp.

Þverpólistískur þrýstihópur

Almennt var lögð á það áhersla á fundinum að fólk tæki þátt í samfélagsumræðunni og léti til sín taka um þau mál sem það varðar. Spurningin um að Grái herinn bjóði fram í næstu kosningum, hefur oft verið viðruð.  Grái herinn er hins vegar þverpólitískur þrýstihópur og hefur ekki tekið ákvörðun um framboð. En í stefnuyfirlýsingunni er bent á að þó að eldra fólk hafi ekki verkfallsrétt, hafi það atkvæðisrétt sem hægt sé að beita ef stjórnvöld fari út af sporinu og beri hagsmuni aldraðra fyrir borð.

Það var góð stemming á fundinum, þrátt fyrir þrengsli og um 70 manns buðu fram starfskrafta sína til að taka frekari þátt í baráttunni.

Ritstjórn apríl 11, 2016 14:41