Hættulegt að hafa allt á hornum sér varðandi nútímann

„Ég ætla að kenna og ég ætla að ferðast“, sagði Bryndís Víglundsdóttir þegar Anna Konráðsdóttir, kennarinn hennar í 12 ára bekk í Austurbæjarskólanum spurði börnin hvað þau ætluðu að verða þegar þau yrðu stór. „Til Ameríku“, bætti hún ákveðin við. Þegar hún rifjar þetta upp með tíðindamanni Lifðu núna fyrir nokkrum dögum bætti hún glettnislega við „og þá hló þingheimur“. Þá sagði kennslukonan „Ég veit að það sem þú ætlar að gera, gerir þú“. Og það gekk eftir. Hún átti eftir að helga líf sitt og starf, baráttunni fyrir að þroskaheft börn fengju að læra eins og önnur börn. Það þótti ekki sjálfsagt og eitt sinn var hún spurð í ráðuneyti menntamála „ Er ekki nóg að hafa einhvern sem getur snýtt þessum aumingjum vel?“. Bryndís átti einnig eftir að ferðast víða um heim til að kynna sér kennslu fatlaðra barna, þjálfun og leiðir til að styðja fatlaða einstaklinga, börn og fullorðna, til eins virkrar þátttöku í daglegu lífi og frekast er unnt.

Bryndís Víglundsdóttir

Bryndís Víglundsdóttir

Þarf rými fyrir gamalt fólk

Bryndís sem er komin á eftirlaun, býr í tveggja íbúða húsi í Reykjavík ásamt syni sínum og fjölskyldu hans. Eftir að hafa unnið að hugarfarsbreytingu í málefnum fatlaðs fólks í áratugi og  þróað með kennurum Þroskaþjálfaskólans og nemendum sínum menntun sem er af tveim fræðasviðum, sviði uppeldis og heilbrigðis – þroskaþjálfun- hafa aðrir tekið við keflinu og nú er henni ofarlega í huga hugarfarsbreyting í málefnum eldri kynslóðarinnar. „Í raun og veru er þetta alltaf sama verkefnið, vinna að breytingu viðhorfa“, segir Bryndís. Hún hefur verið virk í Félagi eldri borgara og telur verk að vinna að auka virðingu fyrir og oft á tíðum tillitssemi í samfélaginu við eldra fólk. „Það sem gamalt fólk þarf er umhyggja“, segir hún. „Ef heilsan bilar og fólk verður uppá aðra komið með líkamlega og andlega aðhlynningu þarf rými fyrir það. Það er rætt um að fólk teppi pláss á hátæknisjúkrahúsinu og þá finnst því eins og það sé fyrir. Það finnst mér sárt“, segir hún.

Ekki fangar í stórum húsum

Hún vill heldur ekki að eldra fólk verði „fangar í eigin húsum“ og vill vekja fólk sem er komið yfir miðjan aldur til umhugsunar um það. Það sé ekki endilega farsælt að bera ábyrgð á stórum húseignum þegar aldurinn færist yfir. Sem betur fer séu fleiri og fleiri að átta sig á þessu „Ég byði ekki í það ef ég ætti stóra húsið mitt í Garðabænum ennþá“, segir hún. Hún segir notalegt að búa í húsi með fjölskyldu sonarins, sem á fjögur börn. „En maður verður að vera tilbúinn til að taka þátt í lífi fjölskyldunnar“, segir hún. Hún veltir fyrir sér hvers vegna svo margt gamalt fólk er óhamingjusamt í hjartanu. „Ég held að það sé af því að endalokin nálgast. Þá finnst fólki ef til vill að því hafi ekki tekist það sem það ætlaði sér, eða ekki fengið eins mikið út úr lífinu og það telur að aðrir hafi fengið“. Þetta finnst henni nauðsynlegt að skoða betur og vonar að sú þróun að rækta sjálfan sig sem við verðum mikið vör við nú til dags, eigi eftir að skila sér í betri líðan þegar fram í sækir.

Gaman að leika sér í Heiðmörk með krökkunum

Gaman að leika sér í Heiðmörk með börnunum

Maður verður að passa sig

„Ég mæli ekki með einsemd“, segir Bryndís „ Held að hún sé ekki holl fyrir neinn. Það er gaman að fylgjast með hvað barnabörnin eru að gera í skólanum og á veturna koma hingað oft margir félagar þeirra, glerfínir unglingar, og þá er mikið líf hér“. Hún segir að yngri drengirnir í fjölskyldunni sem eru að fara til Boston með foreldrum sínum, hafi áhyggjur af því að hún verði ein á meðan þeir eru í burtu. Hún segir að það sé misskilningur að börn og unglingar vilji ekki tala við gamalt fólk. „En maður verður að passa sig að koma ekki þannig fram við þau að maður tali eins og maður viti allt best og hafi réttar skoðanir á öllum málum“, segir Bryndís. Henni finnst að frekar eigi að spyrja þau hvað þeim finnist og hvernig þau sjái hlutina. Þegar þau spyrja okkur hvað okkur finnist um málefnin beri okkur hins vegar að svara af einlægni.  Hún bætir því við að það sé stórhættulegt fyrir eldra fólk að hafa allt á hornum sér varðandi nútímann.

Kynntist mannsefninu í Heiðmörk

Bryndís og Guðmundur á ferð í kláf í Kerlingardal í Squaw Valley í  Kaliforníu 1963

Bryndís og Guðmundur á ferð í kláf í Kerlingardal í Squaw Valley í Kaliforníu 1963

Bryndís fæddist og ólst upp á Laugavegi 70 í Reykjavík. Hún bjó þar með foreldrum sínum og fjórum systkinum, afa sínum og ömmu. Hún gekk menntaveginn fór í Kvennaskólann og síðan í MR  og útskrifaðist þaðan árið 1955. Hún fór síðan í  Kennaraskóla Íslands og fékk kennsluréttindi. Eftir það fór hún að kenna og vann á sumrin í Vinnuskóla borgarinnar. Eitt sumarið var hún með hóp af unglingsstelpum að vinna í skógrækt í Heiðmörkinni. Þar hitti hún Vestfirðing með svart hár og dökkbrún augu, en hann var að vinna hjá SkógræktReykjavíkur og leist Bryndísi vel á hann í öllu tilliti. Þar var kominn Guðmundur Bjarnason mannsefni hennar. Þau giftu sig og um það var samið að hann færi með henni til Boston þar sem hún ætlaði að leggja stund á framhaldsnám í sérkennslufræðum.

Kaupum ekki gáfur fyrir börnin okkar

Bryndís nam við Háskólann í Boston, Boston University,en starfsþjálfunin var að mestu í afar merkum skóla, Perkins School for the Blind sem var á þeim tíma og er raunar enn í fararbroddi í kennslu daufblindra og daufblindra sem takast á við þroskaskerðingu líka. Hún ákvað að búa jafnframt í skólanum, til að fylgjast með börnunum utan skólatíma. Bryndís hafi farið í eitt ár til Iowa eftir kennarapróf, til að reyna að læra meira um kennsluaðferðir og leiðir til að gæða kennsluna lífi. „Kennsla fatlaðra höfðaði mikið til mín. Ég varð snemma meðvituð um hvað ég naut mikils og var þakklát fyrir að sjá og heyra, geta farið um allt, notið vináttu að vali og margháttaðra lífsins gæða. Mig langaði að leggja þeim lið sem ekki hefðu fengið jafn mikið í vöggugjöf. Gott atgervi er gjöf, við kaupum ekki gáfur fyrir börnin okkar eða okkur sjálf“.

Ung móðir. Bryndís með börnin sín tvö Grím og Sólbjörtu

Ung móðir. Bryndís með börnin sín tvö Grím og Sólbjörtu

Alltaf allt „allright“ á Íslandi

Eftir að hafa menntað sig í Boston í Bandaríkjunum og starfað þar í framhaldinu sneri Bryndís heim til Íslands. Það var fjögurra manna fjölskylda sem settist að í Garðabænum. Auk foreldranna þau Grímur 9 ára og Sólbjört 4 ára. Það var frelsi fyrir börnin að koma til Íslands. Eitt sinn kom Grímur hlaupandi inn úr rigningunni og kallaði á blöndu af íslensku og ensku „Mamma, there is always allt allright á Íslandi“. Það fundust Bryndísi orð að sönnu. Hún segist meðvituð um þá heppni að hafa fæðst á Íslandi og fengið að njóta þessa lands. „Jafnvel þegar ég er ósátt við þá sem stjórna landinu er alltaf allt „allright“ á Íslandi. Það ber ekki að skilja þannig að ég sé þjóðernissinni, bara glöð og full af þakklæti og auðmýkt yfir því að vera Íslendingur“.

Vildi mennta þroskaþjálfa

Þegar Bryndís kom heim og fór að vinna hér, áttaði hún sig á því að hún myndi gera meira gagn með því að mennta fólk til að vinna með fötluðum, en vinna sjálf á gólfinu. Hún fór að vinna í að setja saman námsskrá, til að mennta þroskaþjálfa. Hún vildi að litið væri sömu augum á kennslu og þjálfun fyrir fötluð börn og kennslu og þjálfun ófatlaðra barna. „Ég hélt að það myndi taka mig 4 ár að þróa þetta, en það tók 21 ár“, rifjar hún upp. „Þetta var lifandi og skemmtilegur tími. Það þurfti að vinna í hugarfarsbreytingu og því fylgdi margt gott, en líka annað sem var erfitt“. Að endingu var námið lagt fram til mats og samþykkt í menntamálaráðuneytinu. Nú er þroskaþjálfun orðin deild í Háskóla Íslands.

Fatlaðir lokaðir inni í Rússlandi

Bryndís var skólastjóri Þroskaþjálfaskólans í 21 ár. Á þeim tíma fór hún í margar námsferðir til útlanda með nemendum sínum til að kynna þeim það sem var að gerast á öðrum bæjum. Hún varð fljótt vör við að ýmsum fannst allt verst hér á Íslandi í málefnum fatlaðra, lélegast og aumast. En þegar þeir fóru sjálfir að skoða málin betur í nágrannalöndunum kom í ljós að svo var ekki. Hún fór með nemendur í námsferðir til allra Norðurlandanna, Bretlands, Ísraels, nokkrum sinnum til  til Boston þar sem hún lærði og til Rússlands. Ferðin til Rússlands var eftirminnileg fyrir þær sakir að þar fékk hópurinn ekki að sjá nokkra fatlaða manneskju. Það kom svo í ljós, að fatlaðir voru allir lokaðir inni, vel geymdir og sáust aldrei.

Bryndís segist hafa átt gott líf. Hún er enn að njóta

Bryndís segist hafa átt gott líf og kann að njóta þess

Hafði svo falleg viðhorf

Guðmundur eiginmaður Bryndísar féll frá þegar hún var 48 ára. „Það var alltof fljótt“, segir hún. Hann var með hjartasjúkdóm og þau vissu að hverju stefndi. „Hann hafði svo falleg viðhorf, var alveg sáttur og viss um að lífið endurnýjaðist í gegnum börnin okkar“, segir Bryndís. Hún segir að þegar fólk missi vin sinn og  maka svona snemma, ljúkist upp fyrir því hvað lífið sé brothætt. „Ég hef reynt að innprenta börnunum mínum og barnabörnunum að maður verði að vanda sig í lífinu hvern einasta dag“.

Þrátt fyrir annasamt starf, þýddi Bryndís fjölda bóka og var einnig með þætti í Ríkisútvarpinu. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir lífsstarf sitt. Hún segist hafa átt gott líf, ekki alltaf auðvelt, en gott. Hún segist hafa kynnst og átt samskipti við skara af góðu fólki um ævina. Hún hafi hins vegar leitt hjá sér fólk sem henni féll ekki við. Það sé ákveðið val „Og við eigum að velja, vita hvaða gildi við höfum og vera þeim trú“, segir hún.

 

Ritstjórn júní 16, 2016 10:18