Hamingjan kemur ekki að utan

IMG_3947 (3)

Hlín Agnarsdóttir

Hlín Agnarsdóttir sjálfstætt starfandi listamaður skrifar:

Það er farið að styttast í annan endann. Ég finn það svo vel og geri mér grein fyrir því. Ég er nefnilega afar raunsæ – á köflum. Hef ekki alltaf verið það en þegar það snýst um aldurinn, þá staðreynd að ég er komin af léttasta skeiði, þá er ég það. Afar raunsæ. Er ekki eins og móðursystir mín sem laug til um aldur. Þóttist alltaf vera tíu árum yngri en hún var. Eða maðurinn sem ég kynntist þegar ég var tæplega fimmtug, sem þóttist vera 56 ára en var 59 ára. Þegar ég komst að því að hann laug til um aldur var ég hvort eð er orðin svo skotin í honum að mér var alveg sama þótt hann væri þremur árum eldri en hann var!

En þetta með aldurinn reynist mörgum erfitt, að viðurkenna árafjöldann sem hylkið umhverfis sálina þarf að burðast með. Fyrir mér er sálin og hið andlega það mikilvægasta í lífinu. Ég veit að sálin dafnar ekki og lifir ekki neinu andlegu lífi ef líkaminn er ekki í lagi. Þess vegna hef ég alltaf haft áhuga á líkamanum, hulstrinu sjálfu, hvernig það virkar og heldur sér í formi jafnt að utan sem innan. Það er þetta eilífa samband milli líkama og sálar, gegnumstreymið sjálft, loftið sem leikur um hugsunina, vatnið sem streymir um líkamann sem er undirstaðan í lífi og starfi.

Að vissu leyti má halda því fram að öll virk og öflug hugsun sé andóf gegn þeim veruleika og öflum sem vilja steypa okkur öll í sama mótið. Skapandi hugsun er andóf gegn hættunni á andlegum dauða sem á eflaust sinn þátt í ótímabærri öldrun eða kölkun. Fyrir mér er ekkert jafn mikilvægt og gefast aldrei upp. Ekki misskilja mig, það getur verið hollt að gefast upp. Ég hef þurft að gefast upp einstaka sinnum, fyrir aðstæðum sem ég réði ekki við, fyrir fólki sem reyndi að rústa lífi mínu, fyrir sjálfri mér þegar ég hef ætlað mér um of. En ég hef ekki enn gefist upp fyrir því að breyta til, að læra nýja hluti, að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður, að kynnast nýju fólki.

Þess vegna nýt ég þess að lifa, ógift og barnlaus sem ég er. Get ekki póstað neinum myndum af ömmubörnum á fésbókina, montað mig af háskólagráðum barna minna, get ekki státað mig af geðslegum tengdasonum eða tengdadætrum. En ég get póstað ýmsu öðru ef þess gerist þörf, montað mig af annars konar undrum lífsins, athöfnum og gjörðum sem margir fara á mis við. Þar set ég sjálfstæði mitt, kjarkinn til að lifa og skapandi starfsemi í fyrsta sæti. Og fyrir öllu þessu hef ég mátt berjast, því ekkert kemur að sjálfu sér.

Ég hef reyndar oft velt því fyrir mér að barnleysið, svo ég tali nú ekki um þá staðreynd að eiga ekki lífsförunaut, er sjaldan eða aldrei til umræðu í okkar samfélagi. Við sem fetum lífsgönguna sóló erum ekki hluti af því einsleita fjölskylduamfélagi sem fámennið hefur skapað. Okkur er vorkennt og við jafnvel talin lifa í mikilli einsemd og óhamingu. Það ríkir viss þögn yfir þeirri staðreynd að sumir einstaklingar hafa annað hvort ekki þörf fyrir náið sambýli við aðra eða hafa valið að vera einir, af ástæðum sem geta verið af margskonar toga og eru ekki endilega sorglegar á neinn hátt.

Já, það er vissulega farið að síga á seinni hlutann en þrátt fyrir það lít ég á lífið sem stöðugt ævintýri. Það endar að vísu eins og öll ævintýri bæði góð og vond og sjaldnast er hægt að vita fyrirfram hvort það veitir manni hamingju. Hamingjan er ekki happdrætti hvað þá sjálfsögð gleði í lífi okkar. Hún býr í okkur eins og lífið fræ sem getur dafnað með réttri vökvun. Ég hef stundum farið óvarlega og vökvað um of eða hreinlega gleymt að vökva. Eitt veit ég þó komin á þennan aldur og það er að hamingjan kemur ekki eingöngu að utan. Hún býr innra með mér.

 

 

Hlín Agnarsdóttir júlí 24, 2014 20:00