Lífreynslusaga „Hárbera“

 

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

      Hár er mikilvægt. Það vita þeir sem missa það – og líka þeir sem eru klipptir styttra en þeir vildu. Ég fór um daginn til hárgreiðslukonu, gamallrar skólasystur minnar, og bað hana að særa aðeins neðan af hárinu á mér. Hún tók vel í það og mundaði skærin. Áður en ég vissi af hafði hún klippt svona um það bil fjóra sentimetra neðan af hárinu, ég var ekki lengur með hálfsítt hár heldur stutt.

„Æ, þetta er alltof stutt,“ sagði ég og horfði saknaðaraugum á hárhrúgurnar á gólfinu.

„En hárið þurfti þetta, það var orðið svo slitið í endana,“ svaraði skólasystir mín og brosti afsakandi. Þá vitraðist mér allt í einu hugarfar hárgreiðslukonu.

„Hún stendur  með hárinu en ekki mér,“ hugsaði ég hissa. Í sjónhending sá ég fyrir mér hvernig ég liti út í hennar augum þegar hún væri að klippa – ég væri bara einhver óljós vera neðan við hárið. Með öðrum orðum, skoðun mín, sem hárið óx þó á, varðandi sídd þess skipti ekki máli, bara ástand hársins sjálfs.

„Ég þakka þér kærlega fyrir – þótt mér líði nú eins og rúinni rollu,“ sagði ég og kyssti skólasystur mínar á kinnina.

„Oo – hárið vex,“ sagði hún í huggunar- og kveðjuskyni. Þessi merkilega opinberun á viðhorfi hennar til hársins kom í veg fyrir að ég væri leið yfir þessu, það var bara ekki hægt. Meðan ég gekk í áttina að bílnum mínum og vindurinn lék sér í því hári sem þó var eftir á höfði mínu hugsaði ég: „Konan hefur bara þetta hugarfar – „hárinu allt“. Þannig hugsa fagmanneskjur.“  Samt leið mér á vissan hátt eins og hári með einhverja óljósa kvenmannsmynd dinglandi neðan á sér þegar ég settist inn í bílinn.

Sjálf hef ég oft klippt fólk í áranna rás en þessi heimsókn á hárgreiðslustofu skólasystur minnar hefur komið mér í skilning um að ég er hreint ekki sérstök stuðningsmanneskja hársins sem slíks. Ég reyni bara alltaf að klippa sem nákvæmast eftir því sem viðkomandi biður mig um en huga lítt að ástandi hársins sjálfs.

Hið faglega sjónarmið kemur vitanlega fram hjá fólki í ýmsum stéttum. Læknar hafa gjarnan mestan áhuga á þeim parti líkamans sem þeir eru sérfræðingar í. Söngvarar hafa mikinn áhuga á raddböndum og þannig mætti telja. Það hefur komið fyrir að mitt mat á fallegri mynd af konu er annað en mat atvinnuljósmyndara. Þeir hafa þá í forgrunni listrænt gildi myndarinnar fremur en hvernig manneskjan lítur út frá almennu fegurðarsjónarmiði.

Mín reynsla er hins vegar sú að fáar konur sem fara í viðtöl vilja fá mynd af sér þar sem hver hrukka sést – sama þótt myndin sé frábær frá listrænu sjónarmiði. Á sama hátt vill maður ekki fara út af hárgreiðslustofu með þá tilfinningu að vera bara einskonar „Hárberi“, þótt klippingin sem slík sé fín. Ég hef eftir heimsókn mína á hárgreiðslustofuna velt svolítið fyrir mér hinu gamla máltæki: „Það var meðan ég hafði hárið.“ Það er ekki tilviljun að þetta máltæki varð til.

gudrunsg@gmail.com

 

 

 

Guðrún Guðlaugsdóttir maí 2, 2016 12:09