Neskaupstaður lamaðist af inflúensu

Hún var greinilega óvenju skæð flensan sem herjaði á Norðfirðinga  í kringum áramótin 1969/1970, því í frétt í Vísi sem birtist í janúar 1970 segir að bærinn sé lamaður af inflúensu.

Neskaupstaður hefur orðið afar illa úti í inflúensunni, en meirihluti bæjarbúa liggur í innflúensunni eða hefur legið í henni. Bæjarbúar muna ekki annan eins faraldur, enda er nú svo komið, að fyrirtækjum hefur verið lokað vegna almennra veikinda starfsmanna.

Þannig mun síldarvinnslan hafa lokað og einhver fleiri fyrirtæki.  Hjá Pósti og síma standa aðeins 2 uppi af 17 manna starfsliði, en svipað ástand mun vera á flestum stofnunum og fyrirtækjum bæjarins. T.d. er á mörkunum, að hægt sé að halda bæjarskrifstofum og bæjarfógetaskrifstofum opnum.

Inflúensan kom ekki til Neskaupstaðar í fyrra, þannig að bæjarbúar hafa litla eða enga mótstöðu gegn veikinni. Er ástandið að þessu leyti líkt og í Vestmannaeyjum. Fyrst fór að bera á inflúensunni skömmu fyrir jól á Neskaupstað, en útbreiðslan hefur verið afar ör.

Að því er fréttaritari Vísis sagði í morgun leggst flensan þungt á fólk með háum hita og viku legu.

Ritstjórn janúar 24, 2017 11:04