Tengdar greinar

Niður í skúffu með brennivínsfrumvarpið!

Morgunklúbburinn á Þingeyri eða Akademían líkt og félagsskapurinn er iðulega kallaður samanstendur af fólki á besta aldri sem hittist í sundi á morgnana. Akademían lætur sig málefni líðandi stundar miklu varða.

Vefurinn bb.is á Ísafirði birti þessa skemmtilegu frétt.  „Eitt af þeim málum sem rædd hafa verið í klúbbnum að undanförnu er það hvort heimila eigi áfengissölu í matvöruverslunum líkt og tekist er á um á Alþingi Íslendinga um þessar mundir. Ákvað Akademían að ekki dugi að ræða einungis þetta mikilvæga mál í heita pottinum, heldur samþykkti hún eftirfarandi ályktun með eiginlega öllum greiddum atkvæðum er fram kemur í fréttatilkynningu:

„Akademían á sundlaugarbakkanum á Þingeyri fordæmir Brennivínsfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi. Þeir þingmenn sem að því standa, ættu að snúa sér að þarfari málum fyrir kjósendur sína. Það er grátlegt þegar dreifbýlisþingmenn telja þetta forgangsmál fyrir landsbyggðina.

Allir vita að það er auðveldara fyrir börn og unglinga að nálgast eiturlyf en að panta pizzu. Á það sama að gilda um áfengið? Akademían tekur undir með Birgi Jakobssyni landlækni, sem segir:

„Það er talað fyrir því að gera mjög áhættusama og kostnaðarsama tilraun með sölu á áfengi í matvöruverslunum. Þetta er stórhættulegt. Áhrif þessarar tilraunar verður ekki hægt að draga til baka.“

Niður í skúffu með Brennivínsfrumvarpið segjum við! Það getur vel verið að sú skoðun okkar sé afturhald. Það verður þá bara að hafa það og hana nú!“ Hér er slóð inn á vefinn

 

Ritstjórn febrúar 15, 2017 10:42