Ókeypis falskar

Auður Haralds

Auður Haralds

Auður Haralds rithöfundur skrifar

Byrjar ekki barlómurinn aftur! Það er sama hvaða tittlingaskítur bærir á sér í þjóðfélaginu; fjárlagafrumvarp, samningar, pípari tekur í nefið eða páfinn prumpar; upp rís eymdarkveinið um bæturnar.

Eins og annað endurtekið efni er þessi armæða leiðigjörn. Það er enginn vandi að lifa á örorku- eða ellilífeyri, tala nú ekki um þegar bæturnar ná 150 og jafnvel 180 þúsundum á mánuði. Örfáar, einfaldar aðgerðir í tíma gjöra afkomuna að léttum leik, já, lífi í munaði.

Fyrsta skrefið að farsælli elli er tekið á 27. aldursári. Þá er síðasta íbúðin keypt. Ekki fyrsta, heldur síðasta. Er svo stakkurinn sniðinn að vexti;  sé íbúðin lítil, þá er eignast minna af börnum (eða minni börn). Fjörutíu árum síðar er eignin skuldlaus, sem er eina vitið ef fólk ætlar að lifa fram yfir 67 ára aldur.

Frá síðustu íbúðakaupum og fram að næstu aðgerðum er þokkalegt hlé, þetta allt að 30 ár, sem má nýta til að koma börnum í gegnum arðbært nám, svo maður geti hætt að sjá fyrir þeim um sextugt.

Uppúr fimmtugu eruð þið hætt að kaupa plastpoka undir matinn og notið tuskur í stað eldhúsrúllunnar.

Þegar örlátir afkomendur ykkar vilja gefa stjórgjafir á sextugsafmælinu, þá biðjið þið um, að frjálsu vali gefanda, þvottavél, ísskáp eða eldavél. Tækið er svo sett geymsluna. Þeta er endurtekið á 65 ára afmælinu og fer einnig það tæki í geymsluna. Þá eru komin tvö af þremur nauðsynlegustu heimilistækjunum. Sjálf kaupið þið svo tvær vara-ryksugur og eitt vara-sjónvarp á ústölum á síðustu tveimur árunum.

Frá 60 til 67 ára dragið þið markvisst saman seglin. Afmælis- og jólagjafir minnka um 25% á ári hverju í sjö ár, til að venja þiggjendurna við væntanlegan fjárhag ykkar.  Áskriftum og félagsgjöldum er fækkað árlega og þarf ekki að sýta það, eftir 50 ára streð, strit og puð hafið þið litla heilsu í að stunda samkomur. Áhuginn á glanstímaritum minnkar, en aðallega á ekki að vera að fletta þeim, því það espar upp alls kyns langanir sem verða utan seilingar þegar lifa skal á lífeyri.

Síðustu tvö árin notið þið til að kaupa rammbyggðan skófatnað og vandaðar yfirhafnir sem endast í 15-20 ár. Gott er ennfremur að koma upp varasjóði með því að hætta að fara til tannlæknis. Falskar tennur eru í boði Tryggingastofnunar við 67 ára aldur, háð því að þær séu í samræmi við reglur stofnunarinnar (framleiddar í Albaníu, staðlaðar stærðir, en flestir finna eitthvað við sitt hæfi). Tannhirða ellitanna kostar um 6 þús. krónur á mánuði og er þá aðeins átt við þrif. Lausar tennur má bara taka með hinum uppþvottinum.

Sé farið eftir þessum einföldu leiðbeiningum, má lifa við kjörskilyrði. Þau eru: Allir reikningar greiddir á gjalddaga og að auki máltíð á hverjum degi. Er hægt að biðja um meira?

Tók einhver eftir, að minnsti stjórnmálaflokkur landsins fattaði, að vinsælasta kosnigabrellan var laus til ábúðar? Nú ætlar flokkurinn að beita sér fyrir hærri bótum. Hvað gera menn ekki þegar fylgið minnkar….

Auður Haralds september 14, 2015 09:46