Öllum finnst gott að láta dekra við sig

Hingað eru allir velkomnir, segir Guðbjörg.

Hingað eru allir velkomnir, segir Guðbjörg.

Fyrir um tuttugu til þrjátíu árum voru rúmlega þrjátíu snyrtivöruverslanir við Laugaveginn og í nágrenni hans. Nú er ein eftir og það er Sigurboginn. Í tæpan aldafjórðung hafa komið þangað konur á öllum aldri að leita sér að snyrtivörum, ilmvötnum, sundbolum, toppum, buxum, töskum eða hálsklútum. „Hingað koma ungar stúlkur, mæður þeirra og ömmur. Við sjáum hverja kynslóðina á fætur annarri koma í búðina. Mér er minnisstætt að fyrir jólin kom hingað ung stúlka og sagðist vera að leita að gjöf handa ömmu sinni. Þetta væri uppáhaldsbúðin hennar. Ég þekkti stúlkuna strax af svipnum og vissi hvað ömmu hennar langaði í,“ segir Guðbjörg Hjálmarsdóttir, verslunarstjóri Sigurbogans.

Ekki bara einhver sem borgar

Guðbjörg segir að galdurinn við að lifa af í verslun sé að veita góða og persónulega þjónustu. „Hjá okkur starfar snyrtifræðingur og allir sem hér vinna hafa áratuga reynslu í þessum geira. Við leiðbeinum konum um hvað henti þeim og þeirra húð. Sýnum þeim hvernig á að nota vörurnar og gefum hverri og einni þann tíma sem hún þarf. Það skiptir svo miklu máli að viðskiptavinurinn finni að hann skipti máli. Viðskiptavinurinn er ekki bara einhver sem borgar með korti hann er manneskja og okkar hlutverk er að þjónusta hann. Öllum finnst líka gott að láta dekra svolítið við sig öðru hverju,“ segir Guðbjörg.

Hyljari, púður og gloss

Litir haustsins

Litir haustsins

Guðbjörg segir að förðun breytist með hækkandi aldri. Hún segir að allar konur þurfi að eiga hyljara, púður og gloss.  „Ung stúlka farðar sig á allt anna hátt en miðaldra kona eða þaðan af eldri kona. Við eigum ekkert að vera elta stelpurnar og gera eins og þær heldur nota það sem hentar okkur. Það eru til konur sem mála sig eins áratugum saman. Sumar völdu sinn stíl ungar og vilja halda honum. Aðar eru óhræddar að breyta til og prófa eitthvað nýtt. Ég myndi segja að grunnreglan ætti þó að vera sú að fara varlega í förðunina. Við eigum að nota farða til að skerpa á því sem við höfum en ekki vera að búa til breiðar augabrúnir eða varir. Við eigum að leyfa okkar náttúrulega útliti að skína í gegn en undirstrika það með fallegri förðun. Kona á miðjum aldri á ekki að detta í þann pytt að fara að mála sig eins og dóttir hennar.“

 

Rautt og brúnt

Rauðir tónar.

Rauðir tónar.

Á haustin og vorin fyllast allar hillur af nýjum litapallíettum. Margir bíða spenntir eftir því að sjá hvað er í boði. „Um miðjan ágúst fara konur að spyrjast fyrir um haustlitina frá Dior og Chanel. Þessi fyrirtæki eru leiðandi þegar kemur að förðunarvörum. Öll naglalökkin frá Dior í haust eru í brúnum litum og það sama gildir um varlitina. Mér finnst stíllinn í förðun minna á það sem var vinstælt uppúr 1990. Dökkir skuggar, dökk naglalökk og varalitirnir aðeins út í glans eða örlítið mattir. Chanel er hins vegar eldrauður, rautt í kringum augu, dökkrauðir mattir varalitir. Sumar konur eru hræddar við að nota þennan rauða lit í kringum augun og finnst eins og þær líti út fyrir að vera útgrátnar. Konur skipta gjarnan um stíl eftir árstíðum. Á sumrin vilja þær létt dagkrem eða bb krem en á haustin vilja þær meik. Þær velja líka gjarnan gloss yfir sumartímann en varalit á haustin,“ segir Guðbjörg.

Fjölbreytt mannlíf

Hún segir að henni finnist alltaf jafn gaman að vinna í búðinni. Það er alltaf nóg um að vera hér við Laugaveginn segir hún. „Mannlífið er fjölbreytt og stundum er þetta hreinlega eins og að horfa á beina útsendingu í sjónvarpi. Eitt það skemmtilegasta sem ég sel í búðinni eru sundföt. Mörgum konum finnst mjög erfitt að finna sér sundbol. Ég þekki oft svipinn á þeim þegar þær eru að leita. Þær eru eitthvað svo hjálparvana á svipinn. Maður sér grannar konur sem eru með áhyggjur af einhverju sem þær telja vera útlitsgalla verða glaðar þegar þær finna rétta bolinn en konurnar sem þurfa stóru númerin verða ekki síður ánægðar þegar þær fá boli sem henta þeim og klæða þær vel,“ segir Guðbjörg að lokum.

 

 

Ritstjórn september 26, 2016 10:29