Sextugir karlar gera lukku í Slóveníu

Strákarnir hennar Sóleyjar, kallar leikfimihópurinn sig, sem fór nýverið á Leikfimihátíð fólks á besta aldri í Slóveníu og gerði mikla lukku.  Þeir voru meðal annars valdir sérstaklega til þess að sýna listir sínar síðasta kvöldið af yfirstjórn hátíðarinnar.  Einar Karl Haraldsson, einn strákanna, segir að sama hafi gerst fyrir fjórum árum þegar hátíðin var haldin á Ítalíu. „Okkur hefur farið mikið fram síðan, enda þroskast mikið á þessum fjórum árum“, segir hann og hlær.  Með strákunum var nokkur hópur stuðningsmanna en fyrirferðarmestar í hópnum voru eiginkonur þeirra, sem stigu meðal annars nokkur dansspor með þeim og tóku Víkingaklappið við mikinn fögnuð.  Eins og nafnið gefur til kynna, er Sóley Enid Jóhannsdóttir þjálfari hópsins, en hún rak Dansstúdíó hér á árum áður.

Tóku sér listamannanafnið Sóley´s boys

Hátt í 2000 manns frá 22 löndum tók þátt í leikfimihátíðinni sem kallast á ensku „The Golden Age Gym Festival“. Hátíðin er haldin annað hvert ár á vegum Evrópska fimleikasambandsins.  Auk strákanna sem notuðu listamannsnafnið Sóley´s boys á hátíðinni voru tveir aðrir sérlega fótfimir hópar frá Íslandi, annar frá Akranesi en hinn úr Kópavogi. Einar Karl segir að Leikfimihópurinn hjá Sóleyju sé orðinn 25 ára. „Það voru m.a. arkitektarnir Guðmundur Gunnarsson, Sigurður Björgúlfsson og Richard Briem sem settu hópinn af stað, ásamt Hafliða M. Guðmundssyni líftæknifræðingi. „Þeir kappar eru ennþá með en svo hefur líka bæst í hópinn“, segir Einar Karl sem fór að sækja Kramhúsið fyrir fimm árum.

Sóley veit hvað svona karlar þurfa

„Þetta er það alskynsamlegasta sem ég hef gert“ , segir Einar Karl. „Þótt ég sé sonur íþróttakennara byrjaði ég ekki að hreyfa mig að ráði fyrr en um fertugt.  Síðan hef ég stundað margs konar hreyfingu, svo sem hlaup, golf, æfingar í tækjasölum og fleira, en svona alhliða leikfimi er langbest fyrir fólk þegar það fer að eldast. Það er verið að teygja og styrkja vöðva, sem hjálpar stoðkerfinu mikið en það fer að gefa sig eftir ákveðinn aldur“. Hann segir að Sóley kunni vel til verka, hún hafi langa reynslu og viti hvað svona karlar þurfi. „Við höfum eina reglu, við segjum aldrei nei við hana. Hún lætur okkur stirðbusana efla miðjuna og styrkja magavöðvana, allt til að auka liðleikann. Við kvörtum og kveinum en hún drífur okkur áfram“.

Náðu þessu á nokkrum korterum

Einar Karl segir að þetta hafi verið feyki skemmtileg samvera og samskipti hjá hópnum í Slóveníu. Sóley hafi dregið konurnar inn í málin fyrir þessar tvær utanlandsferðir sem strákarnir hafi farið og það hafi verið sérlega vel lukkað.“Okkur þótti samt súrt í broti að við vorum búnir að æfa stíft í allt sumar og mæta á aukaæfingar klukkan 7 á morgnana til að undirbúa okkur, að þá komu þær og náðu þessu öllu upp á nokkrum korterum. En það er meira en að segja það að fá svona karla eins og okkur til að gera fleira en tvennt í einu. Hreyfa sig, fylgja ákveðnum sporum og gera það ofaní kaupið í takt. En þetta tókst á endanum svona ljómandi vel.  Það var  líka gaman að kynnast Slóveníu sem er afar fallegt land“.

 

 

Ritstjórn október 18, 2016 11:07