Skattleysismörk verða að hækka í 300 þúsund

Halldór Gunnarsson

Séra Halldór Gunnarsson varaformaður Flokks fólksins gagnrýnir harðlega ný lög um almannatryggingar í Fréttablaðinu. Hann segir: „Þegar rýnt er í hinar stórkostlegu bætur sem lofað var með nýjum lögum um almannatryggingar, sem sagt er að hafi kostað ríkissjóð tuttugu milljarða króna, sést hvergi kostnaðargreining þessarar upphæðar, t.d. hvað kostar 7,5% hækkunin, sem án lagabreytingar hefði orðið að greiða, hvað sparast með afnámi grunnlífeyris til tekjuhærri eldri borgara og hvað sparast með 45% skerðingu á tekjum umfram 25 þúsund kr. á mánuði, þeirra sem verða að vinna sér til lífs eða þeirra sem vilja vinna sér til sáluhjálpar.

Þessi breyting á lögunum, að lækka frítekjumark úr 109 þúsund í 25 þúsund á mánuði gagnvart eldri borgurum, er til ævarandi skammar fyrir þá sem samþykktu þetta á Alþingi sl. haust, einnig fyrir alla hina sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Enginn greiddi þar atkvæði á móti. Eru alþingismenn tilbúnir að greiða um 63% skatt af öllum launum sínum og fríðindum umfram 230 þúsund á mánuði? Útskýring frá Tryggingastofnun til að milda þessa skerðingu er, að af 1.000 kr. á mánuði umfram 25 þúsund til eldri borgara, sé tekinn skattur um 370 kr., síðan sé lífeyrisgreiðsla lækkuð um 45% af eftirstöðvum, eða 240 kr. og þá haldi sá sem vinnur, eftir 347 kr. Greiðslum til öryrkja er haldið niðri með skerðingum og mismunun milli einstaklinga, samsvarandi til skammar.

Þetta er reikningsaðferðin með áramótakveðjunni til þeirra, sem stofnunin á að tryggja lífsafkomu! Allar spurningarnar til stofnunarinnar og öll svörin sem liggja þar fyrir bera með sér óskiljanleg lög skerðinga og millifærslna milli bótaflokka, sem verður að afnema og einfalda. Skattleysismörk verða að hækka upp í 300 þúsund krónur á mánuði til að bæta lífeyrisþegum, öryrkjum og láglaunafólki kjararýrnun miðað við aðra, einkum miðað við alþingismenn, sem vildu ekki breyta ólöglegri 44% hækkun kjara­ráðs til sín, meira að segja afturvirkt, þrátt fyrir að hafa fengið 7,15% hækkun 1. júní 2016 og í árslok 2015 fengu þeir 9,3% hækkun afturvirka til 1. mars það ár. Höfum í huga samanburðinn við hækkanir Tryggingastofnunar til sinna lífeyris­þega: 9,6% í ársbyrjun 2016 fyrir árið 2015 og núna í ársbyrjun 2017, 7,5% fyrir árið 2016,“ segir Halldór í Fréttablaðinu. Greinina í heild er hægt að lesa hér.

 

 

Ritstjórn janúar 5, 2017 11:42