Sveigjanleg starfslok

Á Íslandi fara menn á eftirlaun 67 ára og stundum fyrr, en almennt er ellilífeyrisaldurinn hér á landi miðaður við 67 ár. Ríkisstarfsmönnum er gert að hætta þegar þeir eru sjötugir. Þetta er ákvörðun stjórnmálanna, en byggist ekki á því að á þessum aldri verði sérstakar breytingar á færni fólks, sem geri að verkum að það getur ekki unnið lengur. Það er ákaflega mismunandi hvernig fólki líður á þessum aldri. Til eru þeir sem geta varla beðið eftir að komast á eftirlaun til að geta farið að sinna hugðarefnum sínum, en aðra langar til að halda áfram að vinna. Eftirlaunaaldur er mismunandi í nágrannalöndum okkar. Þannig fer fólk á eftirlaun 65 ára í Danmörku og Finnlandi, 67 ára í Noregi og 65 ára í Bretlandi. Mikið hefur verið rætt um hækkun eftirlaunaaldurs í Evrópulöndum á síðustu árum og fyrirhugað er að hækka hann í Danmörku í 67 ár fyrir árið 2017 og í 66 ár í Bretlandi fyrir árið 2020.

Ákveðinn sveigjanleiki til staðar

Það er athyglisvert að í rannsókn á tilhögun starfsloka sem Sigríður Hjálmarsdóttir gerði og var grunnur að meistaraprófsritgerð hennar í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands, var enginn af átta manna úrtaki rannsóknarinnar sem hætti að vinna 67 ára. Nokkrir hættu fyrr, bæði vegna þess að þeir fundu fyrir þverrandi starfsorku en líka til að geta farið að sinna öðrum áhugamálum, en aðrir hættu seinna eða sjötugir. Þeir sem könnunin náði til voru sammála um að starfslokin þyrftu að vera sveigjanlegri en þau eru í dag og einn þáttakandi talaði um allt upp í 75 ár. Á þeim aldri þyrfti fólk hins vegar ekki endilega að vera í yfirmannsstöðum. „Það væri þá miklu frekar að láta þau minnka aðeins við sig vinnuna eitthvað, en svo auðvitað á hinn bóginn þarf að rýma til fyrir yngra fólki. Það er líka það“ sagði þessi þáttakandi. Annar sem upplifði sjálfur sveigjanleg starfslok telur að það hefði verið erfiðara að segja skilið við vinnustaðinn ef hann hefði þurft að hætta skyndilega við sjötugsaldurinn. “ Ég hefði fundið miklu meiri svona tómleikatilfinningu segir hann og telur líklegt að hann hefði unnið fulla vinnu eitthvað lengur ef hann hefði átt þess kost.

 

Ritstjórn nóvember 5, 2014 13:35