Þá verð ég að fara á bæinn

Sólveig Adamsdóttir starfar tímabundið sem stuðningfulltrúi í grunnskóla. Það finnst henni dásamleg vinna

Sólveig Adamsdóttir starfar tímabundið sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla. Það finnst henni dásamleg vinna

„Mér var sagt upp störfum sem móttökuritari hjá Atvinnurþróunarélagi Eyjafjarðar þegar ég var 62 ára nú er ég rúmlega 64 ára og ekki enn komin í fasta vinnu,“ segir Sólveig Adamsdóttir á Akureyri. Um þessar mundir  starfar Sólveig í afleysingum sem stuðningsfulltrúi í Giljaskóla, þá stöðu fékk hún um miðjan október og er ráðin þangað til sá sem hún leysir af snýr til baka úr veikindaleyfi. Hvað þá tekur við er ekki ljóst.

Farið að ganga á bótaréttinn

Sólveig segir að staða hennar hjá Atvinnuþróunarfélaginu hafi verið lögð niður haustið 2012. Við því hafi svo sem ekkert verið að segja, það hafi ekkert haft með hennar persónu eða frammistöðu að gera. Stjórn félagsins hafi ákveðið að gera breytingar á starfseminni og þetta hafi verið niðurstaðan. Hún segir að hún hafi fengið sex mánaða uppsagnafrest greiddan, auk orlofs og uppsafnaðs orlofs. Hún hafi því ekki farið atvinnuleysisbætur fyrr en  haustið 2013 og hafi verið á bótum þangað til í nú haust. Það sé því verulega farið að ganga á hennar bótarétt.

Hefur sótt um tugi starfa

Sólveig segir að hún hafi sótt um tugi starfa eftir að hún missti vinnuna en ekki fengið neitt. Hún segist hafa kveikt á perunni hvað væri í veginum þegar hún sótti um vinnu við bókhald hjá Akureyrarbæ. Bærinn hafi skrifað henni bréf  og tilgreint að umsækjendur væru á milli 30 og 40. Í  bréfinu hafi komið fram að þeir 5 hafi verið kallaðir í viðtal sem hafi haft mesta reynslu í bókhaldi.  Sólveig segir að sér hafi brugðið nokkuð við að lesa þetta og ákveðið að hringja í þann sem hafði með ráðninguna að gera og spyrja hvers vegna hún hafi ekki verið kölluð í viðtal þar sem hún hafi unnið við bókhald og launaútreikninga í  30 og  40 ár.  Þá hafi henni verið sagt að hún væri ekki með stúdentspróf. „Þá áttaði ég mig á því að það var kennitalan mín sem stóð í veginum en ekki skortur á þekkingu og reynslu,“ segir Sólveig og bætir við að stúdentsprófið hafi verið fyrirsláttur, það virðist bara vera þannig að fólk á hennar aldri fái ekki vinnu nema í gegnum kunningsskap.

Einkennilegt að hækka lífeyrisaldurinn

Ef að Sólveig fær ekki fasta stöðu þá er ekkert annað fyrir hana að gera en fara aftur á atvinnuleysisbætur en hún á ekki  nema nokkra mánuði eftir af bótatímanum áður en hún dettur út af skránni.„Þá verð ég að leita til sveitarfélagsins um framfærslu þangað til ég kemst á eftirlaun. Svo eru þeir að tala um að hækka lífeyrisaldurinn, sem er afar einkennilegt í ljósi þess hversu illa eldra fólki gengur að fá störf.  Stundum finnast manni þessir þingmenn „dáldið“ vitlausir,“ segir Sólveig og bætir við að það sé verið að ýta vandanum yfir á sveitarfélögin. „Þá er maður kominn á bæinn og það þótti nú ekki fínt þegar ég var ung,“ segir hún að lokum.

 

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 29, 2015 14:35