Á karlmannskaupi við að taka upp kartöflur

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og  félagsvísindasviðs HA skrifar

Ég er alin upp á soðningu og kartöflum – með bræddu smjöri. Þorskinn dró pabbi úr sjó og kartöflurnar voru heimaræktaðar. Auðvitað Gullauga. Aðrar kartöflur voru ekki ætar, að mati pabba.

Þegar ég var táningur fékk ég pláss í hópi kvenna sem tók upp kartöflur fyrir bændur í Vaðlaheiði. Við skriðum með klórur og fötur á fjórum fótum eins og dýr á ískaldri jörðinni í sex tíma á dag. Við stoppuðum ekki. Ástæðan var einföld. Þetta var nefnilega frægur flokkur sem fékk KARLMANNSKAUP fyrir dugnað – konur og táningsstelpur sem fengu karlmannskaup árið 1965. Og þá var nú eins gott að vinna vel!

Þessi haustvinna mín á karlmannskaupi varð að hálfgerðri martröð. Mig dreymdi kartöflur á nóttunni og lofaði sjálfri mér að ég skyldi aldrei setja niður kartöflur. Ég gekk meira að segja svo langt að ég hætti að borða kartöflur.

Hér á Akureyri leigja karlar sér bil og safna drasli í bilið, „ditta“ þarna að bílunum sínum eða nota bilið sem athvarf  þegar gólfþvottur er yfirvofandi á heimilinu. Ég hef reyndar aldrei komið inn í svona bil enda er þau karlaheimur.

Í fyrra frétti ég að það væru líka til annars konar bil – það eru ræktunarbil sem bærinn leigir út. Þessi bil eru bæði fyrir karla og konur. Systir mín leigði sér svona bil og ræktaði hreðkur, gulrætur, spínat og síðast en ekki síst kartöflur. Hún kom með sýnishorn í poka og bragðið var himneskt. Með sannfæringarkrafti sem hún ein býr yfir tókst henni að fá mig til þess að leigja mér bil í fyrrasumar. Við systur erum alsystur en uppskeran í fyrrahaust bendir til þess að ég hafi ekki erft grænu fingurna hans pabba – þau gen fóru öll í litlu systur mína, lyfjafræðinginn. En mér tókst vel upp með arfa sem er reyndar sagður bæði ætur og hollur. Læt kannski reyna á hann í haust.

En nú er ég búin að lofa sjálfri mér að vinna betur í bilinu mínu í ár. Með bilinu fær maður nokkur örlítil bréf með fræjum – á einu stendur bókstafurinn H – gef mér að það sé hreðkufræ – sem reyndar hétu radísur þegar ég var að alast upp. Á öðru var stafurinn S sem ég held að sé spínatfræ og svo voru aðrir bókstafir sem sögðu mér ekkert. Bíð bara spennt eftir því hvað kemur upp. En rúsínan í pylsuendanum er að með bilinu fæ ég líka 42 kartöflur – rauðar. Ég kom þeim niður í bilið í gærkvöldi og pakkaði hverja og eina vel inn í hrossaskít. Þegar síðasta kartaflan hvarf undir yfirborð jarðar leit ég yfir í Vaðlaheiðina og fannst ég bæði sterk og þroskuð. Komin yfir kartöflufóbíuna og búin að setja niður rauðar.

Sigrún Stefánsdóttir maí 30, 2016 11:16