Á leiðinni í frí

 

Þórhallur Heimisson.

Þórhallur Heimisson.

„Það er svo sem ekkert sérstakt á döfinni hjá mér um helgina.Reyndar er ég að undirbúa mig undir að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni og ætla að nota fyrripart laugardagsins til að hlaupa. Annars ætla ég bara að taka því rólega,“segir presturinn og fararstjórinn Þórhallur Heimisson.

Þingvellir í uppáhaldi

Þegar hann er spurður um hver sé uppáhaldssaðurinn hans á Íslandi vefst honum ekki tunga um tönn. „Það eru Þingvellir.“ Þórhallur bjó  í um tvo áratugi  á þingvöllum á meðan faðir hans séra Heimir Steinsson var þjóðgarðsvörður og prestur á Þingvöllum. „Hugurinn leitar þangað. Ég fer þangað ótrúlega oft. Mér finnst afar gott að koma þangað.  Ég fer oft að veiða í vatninu.  Þingvellir búa yfir einhverjum dulmögnuðum seið,“ segir hann.

Ætlar að slappa af 

Hann segist ekki vera búinn að fara í sumarfrí  en ætli að fara í frí 26. júli. „Þá fer ég ásamt konu minni og 10 ára gömlum syni til Tenerife. Þar ætlum við að njóta lífsins og slappa af í tvær vikur. Ég hef komið þangað einu sinni áður og líkaði afskaplega vel. Þá notuðum við tímann til að skoða okkur um og sjá það merkilegasta sem staðurinn hefur upp á að bjóða,“segir hann. Þórhallur verður fararstjóri í nokkrum ferðum á vegum ferðaskrifstofunnar Vita í haust og vetur. Þar má nefna siglingu um Miðjarðarhafið þar sem meðal annars verður komið til Rómar og Jerúsalem.

Gengið um götur

Þórhallur er velkunnugur Róm hann hefur oft lagt leið sína þangað. Um borgina sagði hann í blaðagrein „Ég hef gengið um götur hennar og torg, upp í turna, niður í borg hinna dauðu undir Vatikaninu og alla leið að gröf Péturs postula. Ég hef setið nokkrar páfamessur verið í móttöku hjá Benediktusi XVI og setið samkirkjulegt þing við borgarmúrana. Og hvert sem erindið er, alltaf finnst mér borgin eins og ótæmandi fjársjóðskista. Samtímis því að hún sé allt það sem ég hef talið upp hér að ofan er hún líka nútímaleg tískuborg.“

Landið helga

Í ferðinni um Miðjarðarhafið verður komið til Landsins helga. „Það verður í fyrsta sinn sem ég kem þangað. En mér finnst ég þekkja þetta svæði mjög vel. Ég hef lesið gríðarlega mikið um þetta svæði í gegnum tíðina,“ segir hann. Í nóvember liggur svo leiðin aftur þessar slóðir með hópi á vegum ferðaskrifstofunnar Vita. Þá verður haldið í ellefu daga ferð til Landsins helga þar sem meðal annars verður áð í  Jerúsalem, Kapemaum, Jeríkó, Betlehem, Betaníu og á fleiri stöðum. Í ferðinni á að láta söguna hljóma í nútímanum og markmið ferðarinnar er að komast að því hvers vegna þessi landræma er „Landið helga“ í hugum svo margra.

 

 

Ritstjórn júlí 15, 2016 12:51