Á stefnumóti með brostið hjarta

Að skella sér á stefnumót um leið og maður hættir í sambandi er ekki ráðlegt. Þó að það sé eitthvað sem maður telur sig hafa þörf fyrir, þá er hreint ekki góð hugmynd að fara á stefnumót áður en þú ert tilbúinn tilfinningalega. Af hverju? Að því að það kemur mjög líklega til með að misheppnast, þú ert óhamingjusamur, kvíðinn og dofinn. Hver vill fara á stefnumót með þeirri manneskju? Þannig hefst grein á bandarísku síðunni AARP, þar sem bandarískur karlmaður af eldri kynslóðinni lýsir reynslu sinni af þessu fyrirbæri.  Síðan er vefsíða eftirlaunafólks í Bandaríkjunum.

Ljósin kveikt en enginn heima

Það er ómögulegt að fela brostið hjarta. Ég veit að ég villti ekki um fyrir neinum þegar ég reyndi að gera það. Kvíðinn var augljós því ég gat ekki horft í augun á viðkomandi konu, sem er merki um að öll ljós séu kveikt en engin heima tilfinningalega séð. Frosin gríma og brosgretta hjálpuðu heldur ekki til, segir í greininni sem heldur þannig áfram……

Ég var auðvitað á svæðinu en fjarverandi í anda. Eitt skiptið fór ég á tvöfalt stefnumót með vini mínum og konunni hans. Þau höfðu fundið fyrir mig myndarlega konu sem hafði augljóslega eytt tíma í að taka sig til, fötin, hárið og farðann. Ég sá ekki einu sinni hvað hún var glæsileg því ég var svo upptekinn af mínum eigin sársauka. Stefnumótið hélt áfram en ég var sjálfur í bakkgír. Ef hún reyndi að brydda upp á samræðum svaraði ég með einsatkvæðisorðum. Ég vissi ekki hvort ég ætti að kveðja eða biðjast afsökunar í lok kvöldsins, svo ég hálf muldraði bæði. Vinur minn tuldraði hins vegar ekki þegar hann sagði: „Ekki fleiri stefnumót fyrir þig góði“.

Hélt ég þyrfti að finna nýja konu

Auðvitað hefði ég átt að hætta að fara á stefnumót eftir þetta. En ég var enn sannfærður um að eina leiðin til að mér liði betur, væri að ég fyndi mér nýja konu. Ég hélt fast í þá hugmynd að ég gæti drekkt sorgum mínum í faðmi nýrrar konu. Ég fór því á nokkur hræðileg stefnumót til viðbótar.

Ráðleggingin sem ég þurfti á að halda kom frá bestu vinum mínum, sem þykir vænt um mig. Sem dæmdu mig ekki og stóðu við bakið á mér, þegar ég var að reyna að koma sjálfum mér á fætur aftur. Ég var opinn og heiðarlegur í sambandi við sambandsslit mín og spurði þá hvernig þeir hefðu sjálfir komist yfir sín.   Þeir sögðu mér að sitja einn heima í rólegheitunum og finna fyrir sársaukanum, frekar en forðast hann. Ég þyrfti að takast á við sársaukann og gefa mér þann tíma sem ég þyrfti til að komast yfir hann. Þeir töluðu um sjálfsskoðun í nokkra mánuði til að byrja með, ég þurfti fimm.

Glaður að finna til lífs aftur

Í byrjun var ég með sjónvarpið í gangi en ég hélt ekki athyglinni, það var bara hávaði. Ég áttaði mig á því að lágvær tónlist væri róandi. Svo ég teygði úr mér á sófanum, hlustaði á klassíska tónlist og leyfði tilfinningunum að flæða upp á yfirborðið. Ég áttaði mig á að ef ég hundsaði tilfinningar mínar yrði sársaukinn enn til staðar. Mantran mín varð, ekki hugsa, ….skynjaðu!!

Mér til undrunar fann ég að lundin léttist eftir nokkra mánuði. Ég byrjaði að hlæja aftur að skemmtiþáttum í sjónvarpinu. Ég forðaðist ekki teiknimyndasögurnar í dagblöðunum. Ég fór aftur út að hitta vini mína og fann til léttis yfir áhyggjum þeirra. Merki um að ég væri á réttri leið , ég var glaður að finna til lífs aftur.

Hvað lærðirðu af síðasta sambandi?

Þegar ég var tilbúinn að fara á stefnumót aftur, hitti ég fallega konu. Hún spurði mig hinnar dæmigerðu spurningar: „Hvað lærðir þú af síðasta sambandinu sem þú varst í?“ Ég sagði henni að ég hefði tekið mér algjört frí frá stefnumótum. Gefið mér tíma til að skoða tilfinningar mínar og sambandshegðun. Ég hefði áttað mig á því að ég hefði ekki verið góður hlustandi sem þýddi að ég hefði ekki verið til staðar á stefnumótunum sem ég fór á. Að auki hefði ég forðast mínar eigin tilfinningar en væri kominn í betra samband við þær í dag.

Ég var stoltur af því að geta svarað þessari spurningu almennilega. Flestir karlar sem ég þekkti gáfu sér ekki tíma á milli sambanda. Þeir tóku einfaldlega allan farangurinn úr eldri samböndum með inn í þau næstu.

Tókst að lækna brostið hjarta

Í lok greinarinnar er því lýst að það hafi ekki verið einfalt að lækna brostið hjarta. En mér tókst það, segir þar, með því að sýna sjálfum mér þá góðvild, samúð og þolinmæði sem ég sýni besta vini mínum. Ég eldaði stórkostlega góðar máltíðir handa sjálfum mér sem ég naut þess að borða í rólegheitunum. Ég fór í ræktina og verðlaunaði sjálfann mig með nuddi. Ég horfði á uppáhlads bíómyndirnar mínar. Síðast en ekki síst þá fyrirgaf ég sjálfum mér fyrir minn þátt í sambandsslitunum.

Að auki þróaði ég með mér hæfileika sem hafa hjálpað mér í samskiptum, bæði við karla og konur. Ég er betri hlustandi og ég hef ekki lengur þörf fyrir að laga öll vandamál sem koma upp hjá öðrum. Ég viðurkenni minn hluta í vandamálum sem koma upp í samböndum og lít á það sem minn styrkleika, ekki veikleika. Ég hef stjórn á skapi mínu í gegnum rifrildi og leita lausna í stað blóraböggla.

Ritstjórn október 5, 2014 16:08