Áætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila væntanleg

Kristján Þór júlíusson

Kristján Þór júlíusson

„Það þarf að efla heimahjúkrun um allt land og auka samstarf við sveitarfélögin um félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun“, segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra þegar hann er spurður hvernig mæta eigi mikilli fjölgun eldra fólks á næstu árum. Rúmlega 38.000 manns eru nú 67 ára og eldri, en verða rúmlega 63.000 eftir fimmtán ár sem er 65% aukning frá því sem nú er. Áttræðu fólki og eldra mun fjölga um 53% á næstu 15 árum, en það er einkum þeir sem þurfa aðstoð heim og síðar vist á hjúkrunarheimili.

Fækka þeim sem þurfa stofnanavist

„Þegar horft er á þróunina í búsetuúrræðum fyrir eldra fólk, er einboðið að lækka hlutfall þeirra sem þurfa á stofnanavist að halda“, segir Kristján Þór. Hann segir einnig unnið að því að gera úttekt á heilbrigðishluta þjónustunnar við eldri borgara. Það sé verið að greina stöðuna og skoða hvernig þetta verkefni verði best leyst.

Ekki eftir neinu að bíða

„Síðan er ég að vinna að framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þar er í fyrstu horft á hvernig hægt er að mæta þörfini á allra næstu árum“. Framkvæmdaáætlunin er nú til skoðunar hjá framkvæmdanefnd um opinberar framkvæmdir og Kristján segist vona að hún verði afgreidd á næstu vikum. „Í mínum huga er ekki eftir neinu að bíða. Þetta er verkefni sem þarf að ráðast í, það er óhjákvæmilegt, og bíður ekki til batnaðar eins og stundum er haft á orði“.

Árangur hefur náðst á síðustu árum

Á síðasta ári biðu 276 manns eftir að komast á hjúkrunarheimili. Meðalbiðtími þeirra sem fengu pláss var 82 dagar. Kristján segir að á síðustu árum hafi náðst mikill árangur í þessum efnum, sem sjáist á því hversu dvalartíminn á hjúkrunarheimilum hafi styst. „Við höfum náð að vinna okkur í átt að því að veita fólki betri þjónustu heima“, segir Kristján. En segir jafnframt að það þurfi að hugsa þessi mál vel, það þurfi tíma til að skipta úr fyrsta og upp í annan gír í þjónustunni.

Sterkari heilsugæsla forsendan

Framtíðarverkefnið er að hans mati að auka heimahjúkrun og styrkja heislugæsluna. Á fjárlögum næsta árs eykst framlag til heimahjúkrunar um 200 milljónir króna. „Forsendan fyrir því að við getum látið þetta ganga þokkalega upp, er að heilsugæslan verði sterkari en hún er nú“, segir Kristján Þór að lokum.

 

Ritstjórn október 14, 2015 12:13