Að halda friðinn við fjölskyldu og vini

Rökræður eru ekki sterkasta hlið okkar Íslendinga og stundum er erfitt að halda friðinn í stórum fjölskyldum eða vinahópum þar sem skoðanir um menn og málefni eru skiptar. En hvernig getum við rætt viðkvæm mál eins og til dæmis pólitík við vini okkar án þess að særa þá eða missa vináttu þeirra? Hér koma nokkur ráð frá bandarískum „aktívista“, þýdd og staðfærð fyrir Íslendinga. Það er hægt að halda friðinn, þótt menn séu ósammála, segir hún, með því að fylgja eftirfarandi ráðum.

Ekki æra aðra með hávaða

Íslendingar eru góðir í að hafa hátt og helst yfirgnæfa andstæðinginn með hávaða. Það virkar mjög illa til dæmis í ljósvakamiðlum þegar menn brýna raustina og tala í kór. Slíkt endar með því að enginn heyrir neitt. Ekki detta í þessa gryfju í samtölum við vini eða ættingja, það er ekki víst að sá sem hefur hæst vinni ævinlega. Reynum að hafa ró yfir samræðum okkar við aðra. Það skilar sér þegar upp er staðið.

Látum ekki hleypa okkur upp

Öll eigum við einhver hjartans mál, sem okkur er mjög annt um. Það geta verið jafnréttismál, ESB eða umhverfismál. Þetta vita vinir okkar og ættingjar og geta strítt okkur og komið okkur í uppnám með því að ýta á réttu takkana. Ekki láta það eftir þeim að fara uppá háa- séið þegar þessi mál ber á góma.

Höldum okkur við málefnið

Stundum sjáum við umræður, þar sem menn rífast heiftarlega, fara út fyrir málefnið og gerast persónulegir til að koma höggi á andstæðinginn. Þá er ástæða til að ítreka að það sé rétt að halda sig við málefnið sem um er rætt, en taka umræðu um annað seinna. Þetta á líka við í samræðum við vini og ættingja.

Gleymum ekki að hlusta

Það erum ekki bara við, sem höfum ástríðu fyrir einhverju málefni. Þótt við séum á móti aðild Íslands að ESB, eigum við kannski vini sem ákafir fylgismenn aðildar. Hlustum á rök þeirra og reynum að skilja afstöðu þeirra. Við getum alveg gert það án þess að skipta um skoðun sjálf.

Reynum að skilja að fólk er mismunandi

Ef við lendum í rifrildi við vini okkar, förum við kannski að efast um heilindi þeirra og jafnvel vináttu. Hann er ótrúlegur þverhaus, hugsum við kannski og eiginlega líkar mér ekki við hann. Þegar við lendum í þannig aðstöðu er rétt að minna sig á, að enginn er fullkominn og enginn hefur ævinlega rétt fyrir sér. Ekki við heldur.

Þekkjum okkar takmörk

Fyrirsagnir breytast frá degi til dags, en traust vinátta endist allt lífið. Það eru fá mál svo merkileg að það sé þess virði að fórna vinum sínum fyrir þau. Ef þú ert á veitingastað með góðum félögum, eða heima að borða með fjölskyldunni, og það fer að hitna í kolunum í umræðunni, biddu þá um eftirréttinn. Umræður um stjórnmálin geta beðið, en það getur eftirrétturinn ekki.

Fengið að láni frá Marlo Thomas www.marlothomas.com

 

Ritstjórn júlí 20, 2014 14:40