Að komast á auðveldan hátt í gegnum breytingaskeiðið

Birna G. Ásbjörnsdóttir.

„Fæðuval hefur áhrif á örveruflóru meltingafæranna. Röskun á þessari mikilvægu flóru getur stuðlað að hitakófum og svitaköstum og haft áhrif á svefn og andlega líðan,“ segir Birna Guðrún Ásbjörnsdóttir, master í næringarlæknisfræði. Birna verður með námskeið hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands að kvöldi 28. september þar sem hún æltar að fjalla um fæðu og þarmaflóru í tengslum við breytingarskeið kvenna. Birna segir að heilbrigður lífstíll án allara öfga sé alltaf rétta leiðin þegar fólk vilji bæta heilsu sína. Á námskeiðinu ætli hún að tala um hormón í tenslum við næringu og hvernig konur geti farið á sem auðveldastan hátt í gegnum breytingaskeiðið.

Þarmaflóran hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri og Birna segir að það séu ýmsar skýringar á því. Þekking vísindamanna aukist stöðugt og ný tækni geri mönnum kleift að rannsaka bakteríur á annan hátt en áður. Nú sé hægt að raðgreina þær og það auðveldi vísindamönnum að átta sig á hvaða áhrif á þær hafa á heilsu fólks. „Rannsóknir sýna að örverur í meltingarvegi mannsins hafa margvísleg áhrif á líkamsstarfssemi. Þarmaflóran hefur áhrif á líkamsþyngd, efnaskipti og bólguvirkni, ver okkur gegn óæskilegum örverum og hefur áhrif á geðheilsu. Þarmaflóran hjálpar til við að brjóta niður og melta fæðu ásamt því að framleiða ákveðin vítamín og fitusýrur sem eru okkur nauðsynleg. Örverurnar framleiða þar að auki mikilvæg boðefni fyrir líkamann svo sem serotonin og dopamin. Heilbrigð þarmaflóra er forsenda heilbrigðrar starfssemi meltingarfæranna ásamt því að hafa áhrif á á taugakerfi, ónæmiskerfi og hormónakerfi,“ segir Birna sem  heldur úti vefsíðunni Jörth.is og þar er hægt að nálgast mikinn fróðleik um þarmaflóruna.

 

 

Ritstjórn september 27, 2017 12:47