Að komast yfir einmanaleika eftir skilnað

Þegar fólk er að ná sér eftir skilnað eftir langt hjónaband, er það oft svo einmana að það á erfitt með að halda áfram með líf sitt. Menn festast í þessari vondu tilfinningu og finnst þeir ekki eiga neinn að í öllum heiminum.  En það þarf ekki að vera þannig.  Hér eru nokkrar góðar aðferðir sem geta hjálpað fólki að losna við einmanaleikann, þegar það byrjar nýjan kafla í lífi sínu.

Að vera einn er ekki það sama og að vera einmana

Þegar við verðum ein eftir skilnað, fer af stað rangt hugsanaferli í höfðinu á okkur. Okkur finnst að það sé slæmt að vera einn. Við þolum ekki þögnina, okkur finnst skrítið að sofa ein í rúminu og undarlegt að segja „ég“ í staðinn fyrir „við“.

Það er ekki slæmt að vera einn.

Nú gefst hins vegar tækifæri til að jafna sig og byrja aftur, alveg á eigin forsendum. Gera hluti sem hefði verið ómögulegt að gera á meðan við vorum enn í óhamingjusömu hjónabandi. Það má ekki gleyma því, að þótt við séum með annarri manneskju, getum við samt verið einmana. Eins mótsagnakennt og það virðist hljóma, er verra að búa með manneskju í slæmu hjónabandi og vera einmana, en að vera aleinn í húsi og hafa frið til að sleikja sárin. Skilurðu muninn á þessu?

Sjálfstæði og frelsi sem á eftir að kveikja vonir

Mörg okkar líta á einmanaleikann sem einangraðan íverustað, en það er ekki rétt.   Það er að vísu rétt að mörgum finnst kannski eins og það sé ekki hægt að hringja í neinn eða hafa samband við neinn.  Þeim líður illa og vilja ekki vera vinum og vandamönnum byrði. Þessi upplifun, að finnast maður ekki geta haft samband við nokkurn mann vegna þess hvað manni líður illa, eykur bara á vanlíðanina. En hvað ef þú breyttir þessari einsemd allri í eitthvað annað og nýtt?

Leiðir til að losna við einmanakennd eftir skilnað

Þegar fólk er orðið eitt opnast tækifæri til að gera allt mögulegt, sem því fannst óhugsandi að gera áður. Í stað þess að hanga heima, er hægt að beina orku sinni og áhuga í að fara á höggmyndanámskeiðið sem mann langaði alltaf að fara á, ganga í bókaklúbb eða drífa sig  í fjallgöngu. Það er enginn sem skiptir sér af því hvað þú gerir eða hefur skoðun á því. Notaðu tækifærið.

Ef þú ert einmana og ert ekki viss um hvernig þú átt að snúa þér í því, fylgdu þessum einföldu ráðum.

Gerðu þér grein fyrir orsökunum

Spurðu sjálfan þig. Hvað fær mig til að verða einmana? Er það eitthvað sérstakt sem kemur tilfinningunni af stað?  Áttarðu þig ekki á hvað við er átt?  Skoðaðu dæmin sem fara hér á eftir.

Alltaf þegar ég sé gömul hjón haldast í hendur á göngu um bæinn, fæ ég sting í hjartað og finnst að þetta verði aldrei mitt hlutskipti.

Skoðaðu hvað lætur þér líða vel

Spurðu sjálfan þig, Hvenær líður mér vel? Hvenær er ég upp á mitt besta?

Ég er virkilega hamingjusöm þegar ég er með hundana mína. Ég hef mikinn áhuga á björgunarhundum og hefur alltaf langað að vera með þá í sjálfboðaliðastarfi.

Allar áhyggjur mínar hverfa eins og dögg fyrir sólu, þegar ég fer í jóga. Mér finnst frábært að finna hvernig það eykur vellíðan að einbeita sér að öndun og að hlusta á líkamann. Eftir hvern tíma líður mér betur og finnst ég tilbúin að takast á við daginn.

Það þarf ekki að kosta neitt, að finna út hvað það er sem eykur vellíðan. En það þýðir að það þarf að horfa inná við og vera hreinskilinn við sjálfan sig. Það getur verið erfitt að grafa hlutina upp á yfirborðið, en það er þess virði, vegna þess að mönnum líður betur.

Finndu hvernig þú kemur þér í gang

Spurðu sjálfan þig: Hvað get ég gert núna til að virkja mínar bestu hliðar?

Næst þegar ég sé nýja trúlofunarhringamynd á Facebook, ætla ég að athuga hvort ég get fengið að vinna sem sjálfboðaliði í Kattholti. Það er betra að eyða tíma og orku í að hugsa um dýr sem þarfnast hjálpar. Það er enginn einmana þegar hann er að hugsa um litla kettlinga sem vantar gott heimili.

Húsið er svo tómt að ég er farin að verða einmana. En þá man ég allt í einu eftir nýju myndlistarsýningunni sem ég ætlaði að sjá. Hvers vegna ekki að athuga hvenær er opið og drífa sig á morgun.

Sérðu hvernig þetta virkar?

Þú átt skilið að vera hamingjusöm/samur og það mun gerast ef þú eyðir tíma uppá eigin spýtur, nýtur lífsins og áhugamála sem kveikja áhuga og gleði. Þannig nærðu að byggja þig upp aftur. Það hefur ekkert að gera með það hvort þú átt félaga eða maka.

Að vera opinn fyrir möguleikunum sem veröldin hefur uppá að bjóða og skilja að við erum hér til þess að kanna þá, það er andstæðan við einmanaleika. Þegar þú lærir að elska sjálfan þig, verður alltaf einhver þér við hlið.

 

Ritstjórn maí 18, 2017 13:12