Að umbuna fyrirtækjum sem ráða eldra fólk

Sigurveig H. Sigurðardóttir

Sigurveig H. Sigurðardóttir

Dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir deildarforseti í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands hefur rannsakað viðhorf eldra fólks til ýmissa hluta í samfélaginu, þar á meðal til starfsloka. Í rannsókn sem var gerð árið 2006 var spurt um viðhorf 46 aldraðra til starfsloka og fleiri þátta. Fram kom að þeir voru flestir hlynntir því að aldraðir fengju að vinna lengur en til 67 ára aldurs ef þeir hefðu heilsu til. Það þótti ósanngjarnt að miða starfslok við ákveðinn aldur. Ef vilji væri fyrir hendi, væri eflaust hægt að finna eldra fólki léttari verkefni á vinnustaðnum. Í rannsókninni segir meðal annars.

Ég held að það væri mjög æskileg sveigjanleg vinnulok. Það var nú þannig með mig, ég hætti sem fastur starfsmaður sjötugur en var endurráðinn síðan árlega bara með einfaldri bókun og þannig var ég ráðinn ár eftir ár og þangað til ég vildi hætta. Og þá var það þannig að mig langaði til að vera laus við á meðan ég var frískur og þannig urðu mín starfslok og allir voru ánægðir, eða ég veit ekki betur”.

Fram kom tillaga um að umbuna stórfyrirtækjum sem ráða unga, miðaldra og fullorðna en ekki bara konur og karla til helminga.

Mér finnst að eldri borgarar eigi að fá að vinna fram að áttræðu ef þeir hafa heilsu og getu til og vitsmuni og allt það. Það er fullt af áttræðu fólki í dag sem er alveg í fullu fjöri…… . Og ég er búin að vera að hugsa um það, mér finnst að það eigi að umbuna stórfyrirtækjum sem ráða unga, miðaldra og fullorðna en ekki bara konur til hálfs og karlmenn til hálfs heldur bara alla þessa flokka. Og fá umbun fyrir það hvað marga þú hefur í þínu fyrirtæki þar sem er svona skipting. Mér finnst að það eigi að vera svona“.

Einnig var hvatt til þess að öldruðum gæfist kostur á léttari störfum innan fyrirtækjanna og að þau nýttu sér reynslu og visku eldri starfsmanna sinna frekar en að láta þá hætta.

Mér finnst rétt að fyrirtæki haldi í eldri starfsmenn og þeir þurfa ekki að hafa þá þar sem mesti hamagangurinn er en þeir geta haft þá til ráðuneytis og þeir geta sjálfsagt unnið fyrir sínu kaupi. En það er ekki þar með sagt að þeir eigi að vera á sama kaupi og fullfrískur maður, en bara það að þeir geti gengið að þessu og fyrirtækið geti gengið að þeirri visku og reynslu sem þessir menn búa yfir“

Margir sögðust hafa hætt launaðri vinnu vegna tekjutengingar ellilífeyris og skatta, þeir töldu sig ekki bera meira úr býtum í vinnu en á eftirlaunum. Var rætt um að ef þessar skerðingar væru ekki til staðar, væru eflaust fleiri 70 ára og eldri í vinnu.

Gallinn í sambandi við að vinna áfram er að maður jafnvel er á sömu launum; ef maður er í lægri launuðu flokkunum þá lendir maður næstum því á sömu launum hvort sem maður er að vinna eða ekki. Ef maður til dæmis reyndi að fá sér einhverja létta vinnu fer eiginlega megnið af því í skatt”.

Frá því þessi grein var skrifuð hefur ýmislegt gerst varðandi starfslok eldra fólks hér á landi.  Það er engu að síður fróðlegt að glugga í þessa rannsókn, þótt hún sé komin til ára sinna. Starfslok eru ennþá miðuð við 67 ára svona almennt, þó ríkisstarfsmenn geti unnið lengur.

Ritstjórn desember 18, 2014 13:10