Ætlaði að verða ballerína en lífið fór með hana aðra leið

Mynd tekin í Jökulsárlóni þangað sem Fanný fór með hóp frá Asíu á nýársdag 2020. Þessi 600 ára ísklumpur er lítið sýnishorn af því sem Fanný vill leggja áherslu á um áramót, þ.e. að taka tímamótin inn, huga að kyrrð og hugarró og setja sér markmið fram í tímann. ,,Við þurfum ekki sprengjur og læti og flugelda til þess,“ segir hún.

„Ég sá nú fljótlega að ég var allt of stór og þung þegar ég fór að miða mig við ballerínurnar í París,“ segir Fanný Jónmundsdóttir hlæjandi en hún fór til Frakklands 1965 með þáverandi eiginmanni sínum sem var að fara þangað í nám. Þá var Fanný tvítug. „Ég hafði ætlað mér að fara í ballettnám og fékk til þess styrk frá íslenska ríkinu. En þótt ekkert hafi orðið úr ballettnáminu kviknaði áhugi minn á tískuheiminum á þessum tíma. Ég sá alltaf ný og ný föt í búðargluggunum á hverjum degi og það lá beint við fyrir unga stúlku að heillast af þeim heimi.“ segi hún en Fanný stofnaði svo tískusýningasamtökin Karon með fleirum þegar hún kom heim frá París.

Alltaf haft nóg að gera og eitt tekið við af öðru

Fanný segist hafa verið svo heppin að hafa verið send í sveit mörg sumur sem barn til frænda síns að Stöpum á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu. „Þar var dásamlegt að vera og mikil umvefjandi ást og kærleikur við æðadúntekju og sveitastörf á sumrin,“ segir Fanný. ,,Náttúran hefur alltaf verið mikilvæg í lífi mínu þótt ég hafi alist upp í Vesturbænum,“ segir hún. „Mér líður frekar sem sveitastelpu en borgarbarni,“ segir hún en Fanný hefur til dæmis stundað hestamennsku allt frá því hún var  barn. Hún eignaðist síðar sjálf marga gæðinga og nú hafa afkomendur hennar tekið við keflinu og Fanný hefur enn aðgang að góðum gæðingum.

„Ég hef alltaf nóg að gera og eitt hefur tekið við af öðru allt mitt líf,“  segir Fanný. „Eftir að hafa starfað við ýmislegt eftir sveitadvölina eins og að vera sætavísa í

Fanný á hesti sem ber nafnið  Glaður og barnabarn hennar á.,

Þjóðleikhúsinu og flugfreyja hjá Loftleiðum lá leiðin til Frakklands með þáverandi eiginmanni.“

Endurnýting og hönnun  taka út um manninn

Fanný segir að þegar hún var barn og unglingur hafi móðir hennar saumað öll fötin sem hún klæddist. „Þá hét það að vera í öllu heimasaumuðu upp úr gömlum fötum en nú heitir þetta endurnýting og sérstök hönnun og þykir mjög smart. Það var af öðrum hvötum sem konur nýttu allt sem hægt var en snilldin var alveg sú sama. Ég lærði óskaplega mikið af mömmu sem varð svo til þess að þegar við vorum að sýna á stórum tískusýningum fyrir íslenskan iðnað hafði ég skoðun á framleiðslunni. Ég spurði af hverju þeir saumuðu flíkurnar svona en ekki hinsegin,“ segir Fanný. Þetta varð síðan til þess að hún var beðin um að hanna flíkur fyrir þá. „Og þannig byrjaði ég að hanna föt. Svo þegar ég var búin að vinna þannig í svolítinn tíma fannst mér alveg vera kominn tími fyrir mig að stofna mína eigin verslun.“ Það var svo þá sem Fanný stofnaði verslun með eigin nafni sem var staðsett í Kirkjuhvoli og margir muna eftir. Síðar flutti hún þá verslun upp á Laugaveg. Fanný hannaði mikið af fatnaðinum sem hún seldi en flutti líka inn mikið af vörum, bæði fötum og snyrtivörum. Einnig  stofnaði hún aðra verslun sem hún nefndi Bazar og var í Hafnarstræti í samvinnu við góða vinkonu, Þórdísi Öldu Sigurðardóttur. „Þar með var ég komin með tvær verslanir í miðbænum en eftir 17 ár opnaði Kringlan og Laugavegurinn dó og þá var sjálfhætt.“

Nýr kafli í lífi Fannýjar

Fanný að afhenda Vigdísi Finnbogadóttur fyrstu eintökin af hlustunarsnældum sem hún framleiddi. Þær eru enn í sölu.

Þegar verslunarrekstrinum var lokið fór Fanný að vinna hjá bókabúð Sigfúsar Eymundssonar í Austurstræti. „Hjá þeim var nýr verslunarstjóri og var að kynna nýja þjónustu sem hann hafði kynnst í Bandaríkjunum. Þetta voru hlustunarsnældur með kennsluefni. Hann vildi að ég færi út í fyrirtækin og seldi þeim þessa þjónustu. Þegar ég var búin að vera í þessu starfi í tæpt ár hætti þessi verslunarstjóri og ég var beðin um að taka við starfi hans. Þar með var ég orðin verslunarstjóri hjá Eymundsson. Þar kynntist ég Time manager prógramminu og við vorum að selja möppur fyrir þessa nýjung. Þetta þótti mér geysilega skemmtilegur tími og ég lærði mjög margt. Ég vildi þá taka ný skref, sagði starfi mínu hjá Eymundsson lausu og réði mig til Stjórnunarfélags Íslands þar sem ég fór að vera með námskeið í margs konar þjónustu eins og símsvörun og –sölu og sjálfsyrkingarnámskeið. Þessi námskeið voru fyrir alla, bæði konur og karla, en við tók tími þar sem við kynntum námskeið sem voru kölluð „women and power“. Þetta var óskaplega skemmtilegur tími og lærdómsríkur. Nú eru konur komnar miklu lengra en þá og gaman að hafa tekið þátt í þeirri þróun. Svo var ég komin með mitt eigið námskeið sem heitir Phoenix „Leiðin til árangurs“ en það er námskeið í sjálfstyrkingu og markmiðasetningu og er eftir Brian Tracy.“

Heilsumálin tóku við

„Svo tók við tímabil þar sem ég einbeitti mér að heilsumálum og þá fékk ég hingað til lands ýmsa fyrirlesara, til dæmis konu sem heitir Farida Sharan sem er með skóla sem

Mynd tekin í Kerlingafjöllum 2020.

nefnist School of natural medicine. Hún var með fyrirlestra um það hvernig við gætum nýtt okkur náttúruna, þ.e. plöntur og jurtir i sambandi við breytingaskeiðið. Farida var líka með nokkur námskeið í augnhimnulestri sem margir tóku þátt í.“

Á þessum tíma samdi Fanný hlustunarsnældur sem innihalda jákvæðar staðhæfingar þar sem fólki er hjálpað við að meðtaka jákvætt hugarfar og kyrra hugann. Það er slökun fyrir nóttina og hvatning inn í daginn. Þessar snældur er hægt að finna inni á vef Landssambands eldri borgara (www.leb.is) undir „útgáfuefni“ þar sem stendur „slökun fyrir daginn“ og „slökun fyrir svefninn“  og er ókeypis fyrir alla.

,,Það er svo mikilvægt að hreyfa sig og hugsa um heilsuna, synda og vera úti í náttúrunni og vera í nánu sambandi við þá sem manni þykir vænst um í lífinu,“ segir Fanný en hún syndir daglega og segist endurnærast við það hvern einasta dag.

Mosaikverkin tóku yfir

Fanný með maríumynd sem hún vann í mósaík.

Fanný tók til við að læra íkonagerð hjá dr. Yuri Bobrov sem var yfirmaður í listaháskólanum í St. Pétursborg og kom hingað til lands með námskeið. Eftir það námskeið fór Fanný að gera íkonana í mosaík. ,,Þetta var námskeið í Skálholtskirkju og það listform heltók mig og ég hef haldið nokkrar sýningar. Nú hef ég verið að nýta mósaíkin í legsteina sem ég hef gert nokkuð af.“

Fór í leiðsögumannanám

Þegar Fanný var búin að ná sér af falli af hestbaki fyrir 12 árum síðan ákvað hún að fara í leiðsögumannanám í leiðsöguskólann í Kópavogi. Hún hefur síðan verið að vinna sem

Mósaíkmynd eftir Fannýju sem hún vann í legstein.

leiðsögumaður allan ársins hring um allt Ísland og notið þess fullkomlega. „Ég hef farið í hringferðir með hópa eða styttri ferðir og er bókuð núna alveg fram í apríl. Þetta þykir mér eitt það skemmtilegasta sem ég gert um ævina,“ segir þessi fríska kona sem nú er hálfnuð með áttunda tuginn. „Ég viðurkenni  alveg að hléð sem kom með covid þegar allt fór í hægagang var kærkomið því fram að því hafði ég farið hvað eftir annað í tíu daga ferðir með hópa. Ég nýtti hléð til að fara á eigin vegum um landið í ógleymanlegar ferðir með vinum. En nú er ég alveg tilbúin í slaginn aftur,“ segir Fanný og hlær.

Varð atvinnulaus 76 ára

Covid skall á og Fanný varð atvinnulaus eins og aðrir leiðsögumenn en þá var hún 76 ára. „Þá kom kennitala mín sér illa því ég átti ekki rétt á atvinnuleysisbótum og heldur

Fanný í stúdentsfagnaði vinkonu síðastliðið sumar.

ekki þeirri aðstoð sem ríkisstjórnin lofaði því samningarnir miðuð við 67 ára og ekki eldri.

Nú hefur frítekjumarkið hækkað örlítið en ef maður gáir ekki að sér er manni refsað með skerðingum og hærri sköttum fyrir það að vilja vinna.

Það gengur svo hægt að fá leiðréttingu á þessum málum og tíminn er dýrmætur. Það vitum við sem höfum náð þessum aldri sem ég er á.“

Í gönguferð í Kerlingafjöllum með vinkonum þegar hlé varð í fararstjórninni.

Mannréttindi að fá að vinna

„Ég er mjög hress og vil gjarnan vinna áfram við það sem mig langar.“ segir Fanný Jónmundsdóttir sem er dæmi um eldri manneskju sem þykir það vera mannréttindi að fá að vinna og getur það vel en er gert það erfitt fyrir með ranglátum sköttum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn desember 10, 2021 07:05