Ætlaði að verða prestur eða blaðamaður

Sigrún Björk og Jón í 50 ára afmælisferð í Macchu Picchu 2016

Sigrún Björk Jakobsdóttir vakti athygli þegar hún varð fyrst kvenna til að gegna embætti bæjarstjóra á Akureyri.  Hún hefur líka verið hótelstjóri, bæði á Akureyri og Fáskrúðsfirði, þar sem hún hóf ferilinn  eftir að hún lauk námi í hótelrekstrarfræði í Sviss. Hún er ekki Akureyringur, heldur Keflvíkingur, en giftist Jóni Björnssyni viðskiptafræðingi frá Akureyri.  Um síðustu áramót söðlaði hún um, seldi húsið og flutti ásamt eiginmanninum til Reykjavíkur það sem hún tók við starfi framkvæmdastjóra velferðarþjónustufyrirtækisins Sinnum.  Þau hjónin eiga tvö börn, sem eru komin í nám erlendis.

Aðstoð við athafnir daglegs lífs

Sinnum heimaþjónusta er fyrirtæki sem hefur starfað í 10 ár og býður þeim sem á þurfa að halda, þjónustu við nær allar athafnir daglegs lífs.  „Við veitum fólki þann stuðning sem það þarf hverju sinni. Þetta eru böðun, einföld heimilisþrif, tiltekt, matargerð, gönguferðir, samvera eða annað“, segir Sigrún Björk.  Hún segir að til að byrja með  vanti fólk einungis litla þjónustu, en hana megi auka þegar þarfir breytast „Sumir kjósa að vera heima og fá þjónustuna þar, en aðrir þurfa að komast inná stofnanir. Það er nauðsynlegt að fólk hafi val og ef það velur að vera heima þarf að huga að því hvaða þjónustu það þarf til að gera heimilið öruggt Það er líka ljóst að það er lang hagkvæmasti kosturinn fyrir samfélagið.  Kostnaður við hvert rými á hjúkrunarheimili eru um ein milljón króna á mánuði og sjúkrahúsdvöl tvöfalt dýrari“, segir hún.

Eftir mörg ár í pólitík og ferðaþjónustu hefur Sigrún Björk söðlað um

Bætum við þjónustu sveitarfélaganna

Stundum á fólk rétt á heimaþjónustu frá sveitarfélaginu þar sem það býr. Séu menn orðnir 67 ára eða eldri eiga þeir til dæmis rétt á aðstoð við að fara í bað einu sinni í viku.  „Ef óskað er getum við bætt við þessa þjónustu“ segir Sigrún og bendir á að ef auka aðstoð er keypt  geti aðstandendur notað tímann með foreldrum sínum til að gera eitthvað skemmtilegt.  Hún segist líta svo á, að Sinnum sé að spara kerfinu heilmikla fjármuni með því að gera fólki kleift að vera lengur heima. Fyrirtækið sinni ekki eingöngu öldruðu fólki, heldur líka langveiku fólki á öllum aldri. „Við erum með samninga við flest sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu en jafnframt veitum við þjónustu beint til einstaklinga“, segir hún.

Geta ekki séð um makann endalaust

Sinnum veitir milli 100 og 110 manns þjónustu að staðaldri og vissulega þarf að greiða fyrir hana. Sigrún nefnir sem dæmi hjón, þar sem eldri eiginkona hefur séð um lasburða eiginmann. Hún er orðin langþreytt og ræður varla við verkefnið lengur. „Það er ekki hægt að ætlast til þess að eldra fólk geti séð um makann endalaust“, segir Sigrún. „Sveitarfélagið veitir manninum í þessu tilviki, þjónustu við að fara í bað einu sinni í viku“.

Tíminn er dýrmætur

Sinnum býður þessum hjónum viðbótarþjónustu, fjóra morgna í viku og fimm kvöld, um klukkutíma í senn.  Þetta er aðstoð við athafnir hversdagsins og kostar um 240.000 krónur á mánuði. „Fólk er mikið að vinna, það er að ferðast, annast börnin sín og á erfitt með að bæta umönnun aldraðra foreldra við sín fjölmörgu verkefni. Og þá verður að vera hægt að kaupa þessa þjónustu kjósi menn það“, segir hún og bætir við að eldra fólk borgi nú þegar fyrir ýmsa þjónustu sem það þarfnast. Þeir sem séu komnir inná stofnanir taki þáttí kostnaði vegna þess.

Vildi stækka sjóndeildarhringinn

„Ég var í ferðabransanum síðustu 7 ár og hef alltaf verið meira og minna viðloðandi ferðaþjónustuna. Jafnvel sem bæjarstjóri var ég  að sinna verkefnum sem tengdust henni. Mér fannst að ég hefði gott af því að prófa eitthvað nýtt“, segir Sigrún, þegar hún er spurð hvers vegna hún hafi ákveðið að ráða sig hjá Sinnum sem rekur nokkurs konar félagsþjónustu, eftir störf á allt öðrum vettvangi. „ Mér fannst  spennandi að skoða einkarekstur og samstarf einkafyrirtækja og ríkisins í félagsþjónustunni“, segir hún.

Kynntust um verslunarmannahelgi á Akureyri

Þegar Sigrún lauk stúdentsprófi ætlaði hún annað hvort að verða prestur eða blaðamaður. Þau áform breyttust eftir að hún lagði upp í heimsreisu 19 ára gömul. Eftir það ferðalag, langaði hana að starfa við eitthvað sem myndi gera henni kleift að ferðast. Hún lærði hótelrekstrarfræði í Sviss og var á flakki þar til hún var 25 ára.  Þá leitaði hugurinn heim og hún hélt frá Kaliforníu þar sem hún var niðurkomin til Fáskúrðsfjarðar, þar sem hún tók við starfi hótelstjóra. „Það kom mér niður á jörðina“, segir hún og segist hafa hætt öllu flakki. Síðan var hún hótelstjóri á Akureyri þar sem hún hitti eiginmanninn Jón Björnsson um verslunarmannahelgi og til að gera langa sögu stutta, giftust þau  tveimur árum síðar og eignuðust saman tvö börn.  Hann bjó í Reykjavík þegar þau kynntust, en saman fluttu þau til Akureyrar árið 1997. Sigrún byrjaði  að taka þátt í bæjarmálapólitíkinni árið 2002.

Átta efstu á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í kosningunum 2002

Stundum þarf handafl

Sigrún hafði ekki alist upp í stúdentapólitíkinni, en þegar hún fór í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri, var hann í fyrsta skipti með fléttulista í kosningum, það er að segja með jafn marga karla og konur á listunum. Og úr varð að öll framboð á Akureyri stilltu upp fléttulista sem skilaði einstökum  árangri. Við höfðum 55 konur og 55 karla úr að velja til setu í nefndum og ráðum.  „Stundum þarf handaflsaðgerðir til að breyta hugsun og venjum, við snúum ekki svo auðveldlega til baka“ segir hún.

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri ávarpar gesti í þrítugs afmæli Háskólans á Akureyri 2007bbbbb

Lexía að vera bæjarstjóri í hruninu

Þegar Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri hvarf úr bæjarpólitíkinni yfir í landsmálin, varð Sigrún bæjarstjóri. Hún segir að það hafi verið heilmikil lexía að vera bæjarstjóri í hruninu, þó dýfurnar í samfélaginu hafi ekki verið jafn miklar fyrir norðan og hér í Reykjavík. „Við stofnuðum t.a.m.  almannaheillanefnd. Þar komu saman fulltrúar margra stofnana, sem voru að fylgjast með stöðu mála í samfélaginu. Það voru allskonar flökkusögur í gangi um hjónaskilnaði, sjálfsvíg og erfiðleika. „Það voru allir að reyna að fóta sig á hálu svelli, en enginn vissi hvernig átti að gera það. Umræðan hjá okkur var yfirveguð og við reyndum að auka samkenndina í samfélaginu, fannst það mikilvægt í svona erfiðleikum, í stað þess að ala á sundrungu“, rifjar hún upp.

Foreldrafrí til að sjá um aldraða foreldra

Sigrún Björk er Keflvíkingur. Faðir hennar er  Jakob Árnason sem nú er orðinn 92ja ára, en móðir hennar Jóhanna Kristinsdóttir lést fyrir fimm árum. Sigrún er yngst fimm systkina. Faðir hennar býr enn heima þó heilsan sé farin að daprast. „Ég fór með honum til læknis í gær. Nú er maður ekki lengur með leikskólabörn, heldur aldrað foreldri, þannig  að nú þarf maður foreldrafrí en ekki frí vegna barna,“ segir hún og brosir.

Stöðugur og öflugur hópur hjá Sinnum

Sigrún er bjartsýni fyrir verkefnin framundan, ,, Það er staðreynd að íslenska þjóðin er að eldast og á næstu áratugum mun verða gríðarmikil fjölgun í hópi eldri borgara.   Sinnum hefur gott orðspor í þeim verkefnum sem við erum að vinna og  við höfum verið heppin með starfsfólk. Það er stöðugleiki í mönnun hjá okkur. Hér starfar lítill þéttur hópur sem fólkið okkar þekkir.  Við störfum undir eftirliti landlæknis sem hefur gert úttekt hjá okkur, sem sýndi að hlutirnir voru í eðlilegu horfi. Umsagnir viðskiptavina um þjónustuna eru einnig góðar. Þannig að ég er spennt fyrir að halda áfram að leiða gott fyrirtæki,“  segir Sigrún Björk að lokum.

 

Ritstjórn apríl 20, 2018 09:43