Ævisögur frægs fólks ekki lengur söluvara

Bryndís Loftsdóttir

Bryndís Loftsdóttir

„Ævisagan er í svolítilli lægð, titlunum hefur farið fækkandi á undanförnum árum,“ segir Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda. Fyrir ekki svo mörgum árum seldust ævisögur frægra einstaklinga vel, þær eru hins vegar að mestu hættar að koma út. Bryndís segir að skýringin geti verið sú  að með tilkomu samfélagsmiðla og netsins viti fólk flest allt sem það kæri sig um að vita um þessa einstaklinga. „Fólk fær upplýsingar um frægt fólk með allt öðrum hætti en áður, nú er hægt að finna allt á netinu,“ segir hún.

Ævisögur látinna á toppnum

Ævisögur sem fjalla um látna einstaklinga seljast hins vegar vel. Oft eru þetta mikil og  góð verk sem höfundarnir leggja mikla vinnu í. Bækur af þessum toga sem koma nú fyrir jólin er bók Helgu Guðrúnar Johnson, Saga þeirra sagan mín og bók Gísla Pálssonar, Hans Jónatan, -maðurinn sem stal sjálfum sér. Góð sala er líka í Svart hvítum dögum Jóhönnu Kristjónsdóttur, og í bók Sallyar Magnúsdóttur, Handan minninganna.

Breytt áhugamál

„Bókaflokkar eiga sínar hæðir og lægðir. Í fyrra komu til að mynda út frekar fá íslensk skáldverk, í ár eru þau mun fleiri og mörg mjög góð,“ segir Bryndís. Fyrir ekki svo löngu seldust þýddar skáldsögur vel, sala þeirra hefur dregist saman í takt við grósku í íslenskri glæpasagnagerð.„Fyrir hrun seldust sjálfshjálparbækur í bílförmum.  Nú eru fáir sem lesa þær.  Hins vegar er mikil eftirspurn eftir handavinnu- og matreiðslubókum,“ segir Bryndís og bætir við að áhugamál fólks séu greinilega önnur nú en fyrir hrun.

 

Ritstjórn desember 11, 2014 17:00