Afturábak í strætó

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir blaðamaður og framkvæmdastjóri skrifar:

Hún var ótrúlega löng biðin eftir leið 1 á Lækjartorgi á laugardaginn, en veðrið var fallegt þó hitastigið væri ekki hátt.  Það var ansi kalt að bíða. Lítil fjölskylda beið í skýlinu, dökk á brún og brá með lítinn dreng í kerru. Hann var óskaplega fallegur, með dökkbrún augu og svart hár.  Hann ræddi við pabba sinn og hafði mikið að segja.  Mamma hans sagði að hann væri þriggja ára, þau væru frá Írak. Alltaf fjölgaði fólkinu sem beið eftir leið 1. Drukkinn Íslendingur reyndi að ná sambandi við tvær ungar konur sem voru líklega ferðamenn. Honum varð ekki mikið ágengt sem var skiljanlegt. Önnur kona í skýlinu, örugglega amma eins og ég, var alveg undrandi á þessari seinkun á vagninum. Þegar hann loksins kom spurði ég bílstjórann sem var greinilega nýr Íslendingur, hvernig á þessu stæði. Hann vissi ekki alveg skýringuna, en fólk streymdi upp í vagninn og maður var feginn að fá sæti.  Ég sat því miður öfugt, eins og mér finnst leiðinlegt að fara afturábak, hvort sem er í strætisvögnum eða lestum.

Á móti mér sátu tvær konur. Önnur sem leit ekki úr fyrir að vera íslensk, í pilsi með skuplu um höfuðið, en hin, sem var þó áþekk sessunaut sínum talaði íslensku reiprennandi greinilega innfædd. Kannski Hafnfirðingur og kannski amma.  Líklega sátum við þarna þrjár ömmur saman í  vagninum. Útlenda konan brosti til litla drengsins frá Írak. Hann hreyfði svo sannarlega við okkur ömmunum. Sjálf á ég barnabörn í útlöndum. Ég vona að þar sé fólk gott við lítil börn þó þau séu ekki innfædd þar í landi. Ég var óskaplega forvitin. Langaði svo að vita hvaðan þessi erlenda kona kæmi. Ég hugsaði með mér, er óskaplega dónalegt að spyrja hana?  En forvitnin varð öllum kurteisisvenjum yfirsterkari og ég laut fram þar sem ég ók öfug í strætisvagninum og spurði hana hvaðan hún væri.  Hún sagðist vera frá Sýrlandi. Þaðan hefði hún flúið vegna stríðsins og byggi nú í Hafnarfirði. Ég var glöð yfir að hún væri komin í öruggt skjól, en spurði ekki fleiri spurninga.

Það var ótrúlega margt fólk í vagninum. Það voru ekki næg sæti fyrir alla. Um 20 manns stóðu. Aðallega ungt fólk.  Ungt par, greinilega ferðamenn stóð í faðmlögum framarlega í vagninum með bækling um ferðalög á Íslandi. Aftar í vagninum var upphækkun. Fremst á henni stóð ungur blökkumaður með bók og lét það ekkert aftra sér að strætisvagninn var á fleygiferð. Hann las og las. Ég er ekki mikið í strætó, og lífið þar er ótrúlega frábrugðið mínu daglega lífi. Kannski endurspeglar lífið í strætó, mun betur hið daglega líf í íslensku samfélagi, en lífið sem ég lifi í úthverfi Reykjavíkur. Og mér finnst það líf sem ég sé í strætó ótrúlega heillandi.

Erna Indriðadóttir apríl 2, 2018 08:01