Aldurslöggan fylgist með

Það eru einkum konur sem athyglin beinist að í öllum þeim hugmyndum og reglum sem við höfum sett um aldur. Þessu er haldið fram í þættinum Á besta aldri sem Danska sjónvarpið hefur verið að sýna.  Við þekkjum hugtakið tískulögga, en Dorthe Boss Kyhn skrifar um þáttinn á vef danska ríkisútvarpsins.

Það er til nokkuð sem heitir aldurslögga. Hún fylgist með því hvað má og má ekki á ákveðnum aldri. Hún situr einhvers staðar uppi á skýi og fylgist alveg sérstaklega með konum. Hvernig þær eigi að hegða sér, hvernig þeim gangi að verða hin fullkomna eldri kona og hvernig þær megi vera eða ekki vera.

Þetta segir Maria Marcus 89 ára, um konur og aldur í danska sjónvarpsþættinum og hún heldur áfram.

Aldurslöggan veit allt um konur. Hvernig þær eiga að hegða sér og sérstaklega yfir hverju þær eiga að hafa samviskubit.

Það er fyrst þegar konur verða gamlar að þær fara að hugsa – já, já, það getur vel verið að ég virðist vera með stóran rass í þessum kjól, en hvað með það.

„Það er synd að það taki konur svona langan tíma að verða frjálsar, en það er einmitt þetta sem er svo frábært þegar maður eldist, að maður verður sjálfstæðari og hættir að hafa áhyggjur af hlutunum“, segir Maiken Wexö sem er umsjónarmaður þáttarins og bætir við.

Ég hræðist bara hákarla og svo er ég lofthrædd. Að öðru leyti er ég ekki hrædd við neitt. Þegar ég kem inní sal sem er fullur af fólki, þá er ég ekki lengur hrædd um að mér verði ýtt um koll. Ég er heldur ekki hrædd um að segja eitthvað rangt. Ef ég geri það, þá segi ég bara ææ og biðst afsökunar. En hvað þetta hefur tekið mig langan tíma. Að hugsa sér ef konur fengju sjálfstraustið sem þær öðlast með aldrinum, fyrr. Hugsið ykkur hverju við gætum þá áorkað.

Það eru ýmsar hugmyndir á kreiki um hin ýmsu aldursskeið. En þrátt fyrir það eru konur sem láta það ekkert á sig fá.

Í þáttunum kemur fram kona sem hugsar ekkert um aldurinn. Hún heitir Ester Jensen og er 65 ára. Hún missti manninn sinn fyrir 10 árum. Á þeim tíma datt henni ekki  í hug að hún ætti eftir að ferðast um allan heim á mótorhjóli. En hún er búin að ferðast til 38 landa á Harley mótorhjólinu sínu. Hún hefur komið með ýmsa muni með sér heim úr þessum ferðum, sem hún notar daglega á krá sem hún rekur.

Hún brýnir það fyrir öðrum, bæði konum og körlum, að aldur sé engin fyrirstaða. „Mér líður ótrúlega vel á mótorhjólinu. Við megum ekki gleyma að lifa lífinu á meðan við getum. Við vitum ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Við skulum ekki fresta því til morguns, sem við getum gert í dag“.

 

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 4, 2015 15:26