Allir flokkar vilja hækka lægstu eftirlaun í 300.000 krónur

Fólk byrjaði að drífa að í Háskólabíói uppúr klukkan hálf sjö og Björn Thoroddsen tónlistarmaður spilaði Bítlalög á gítar á meðan fólk var að koma sér fyrir í sætunum.  Húsið fylltist og nokkrir fundarmenn urðu að standa meðfram veggjunum í bíóinu. Töluverður hiti var í fundarmönnum. Það var bæði klappað og púað, eftir því hvernig mönnum líkaði málflutningur frambjóðenda.

Sammála um 300.000 króna lágmark

Fulltrúar allra framboða til Alþingis í kosningunum í næsta mánuði mættu á fundinn til að lýsa stefnunni í málefnum eldra fólksins í landinu. Þeir voru 13 talsins, því nýr flokkur var kynntur til leiks á fundinum, en það er Framfaraflokkurinn.  Allir voru þeir sammála um að það þyrfti að hækka lágmarks ellilífeyri í 300.000 krónur, hann ætti að fylgja lágmarkslaunum í landinu. Samfylkingin vill einn flokka afturvirka hækkun fyrir eldri borgara frá 1.maí á þessu ári.  Fulltrúi Pírata benti á að það væri enn hægt að leggja til breytingar á frumvarpinu um almannatryggignar sem nú liggur fyrir Alþingi og samþykkja það fyrir kosningar, ef menn hefðu áhuga á því.

Fimm milljarða viðbót

Það var líka einhugur meðal frambjóðenda um að það þyrfti að draga úr skerðingum í Almannatryggingakerfinu og afnema þær. Þá voru þeir samtaka í því að það þyrfti að vera í kerfinu, hvati þannig að menn sæju sér hag í því að vinna lengur, þeir sem hafa vilja og getu til.   Fjármálaráðherra taldi rétt að samþykkja nýja frumvarpið um almannatryggingar, enda myndi það þýða fimm milljarða króna viðbótarframlag til málaflokksins. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að frítekjumörk verði afnumin, en ráðherrann vill að þeim verði haldið inni og að sams konar frítekjumörk gildi þá fyrir aðrar tekjur.

Kerfið sem enginn skilur

Almannatryggingakerfið með öllum sínum skerðingum var gagnrýnt á fundinum og meðal annars kallað mesti hrærigrautur á byggðu bóli. Það væri líka svo flókið að enginn skildi það.  Þá var komið inná vinnuframlag eldra fólks í samfélaginu, bæði launað og ólaunað, sem skipti gríðarlegu máli.

40 þúsund atkvæði í pottinum

Hjá Félagi eldri borgara og Gráa hernum var mikil ánægja með fundinn, en Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður FEB minnti á að félagið setti á oddinn að ná 300.000 króna lágmarkinu fljótt, barátta fyrir bættum kjörum, mannréttindum og virðingu alla ævi væru metnaðarfull orð, en hún myndi halda áfram þar til sigur ynnist. „Nú er komið að okkur með lagfæringar, það er ákall frá mjög stórum hópi kjósenda, það eru 40 þúsund atkvæði í þeim potti“, sagði hún.

Fundurinn var tekinn upp og sendur út vefunum. Með því að smella hér, getur þú horft á fundinn. Fundurinn hefst á mínútu 09:15.

Ritstjórn september 29, 2016 12:16