Amma, komdu út að leika

Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur skrifar

Kona sem ég hitti í ræktinni um daginn sagði mér skemmtilega sögu. Hún hafði verið í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í útlöndum og ömmustrákurinn kom til hennar og sagði: „Amma, komdu út að leika.“ Vinur hans brást strax við með því að segja að hún gæti það ekki neitt, en stráksi hafði trú á ömmu sinni og sagði að hún gæti það víst. Leikar fóru þannig að amma tók áskoruninni og sannaði bæði fyrir sjálfri sér og strákunum að hún er vel liðtæk í Löggu og bófa.

Það er óneitanlega gaman að fara með barnabörnin í Húsdýragarðinn, en það er ekki síðra að fara í einfalda leiki sem þarfnast hvorki mikils undirbúnings, útbúnaðar eða útgjalda. Og við þurfum ekki að vera neinn sérstakur skemmtikraftur til að koma þeim af stað. Auðveldast er að leyfa börnunum að ráða ferðinni. Þau eru meistarar í að leika sér og það er engin hætta á að ekki finnist eitthvað skemmtilegt að gera. Við getum lært mikið af þeim og leyft barninu í okkur að blómstra um leið. Tveggja og hálfs árs gamlir kenndu tveir ömmustrákar mér að það þarf ekki meiri útbúnað í búðarleik heldur en laufblöð, smásteina, kvisti og gott ímyndunarafl. Og með því að setja teppi yfir borð er kominn hellir og nokkrir stólar verða að augabragði að kastala, skipi eða sölubúð. Slökum á, leyfum þeim að hafa frumkvæðið og fylgjum þeim svo inn í leikinn.

Lífið er mismunandi örlátt á samverustundir ömmu og afa við barnabörnin. Hjá sumum börnum er ansi mikið um að vera. Þau eru í skólanum, áhugamálum, leika með vinunum, fara í afmæli og svo framvegis. Þá finna amma og afi að það er um að gera að nota þann tíma vel sem gefst til að vera saman. Og stundum þarf ekki langar stundir til að skapa sterkar minningar. Fyrir nokkrum árum spurði vaskur ömmustrákur mig hvort ég kynni á hlaupahjól. Ég viðurkenndi að ég hefði aldrei prófað svo ég kynni það líklega ekki. „Það er enginn vandi,“ sagði sá stutti. „Þú gerir bara svona…“ og svo sýndi hann ömmu hvernig hún ætti að gera og útskýrði galdurinn í leiðinni. Kennslustundin tók aðeins fáeinar mínútur en ömmu fannst gaman hvað stráksi var tilbúinn að kenna henni það sem hann sjálfur kunni og minningin er sterk og góð. Það er nefnilega ekki bara þannig að við sem eldri erum kennum yngri kynslóðum heldur er það svo oft gagnkvæmt.

Barnabörnin eru meistarar í alls konar tölvuleikjum og geta gefið okkur innsýn í heim sem sumum okkar er ókunnugur. Í staðinn getum við kennt þeim leiki bernsku okkar. Það er ekki víst að þau hafi heyrt um Fuglafit, Yfir, Stikk (sem hét Hark fyrir sunnan) og alla þessa leiki sem voru til í mörgum útgáfum. Tilvalið er að spila á spil og í leiðinni æfum við athygli, úthald, talnaskilning og ýmislegt fleira. Leikirnir okkar mega gera sanngjarnar kröfur til barnanna og þeirra leikir til okkar. Slönguspil er upplagt fyrir alla sem geta talið upp í sex og er fínasta æfing í tölum. Yatzy æfir talnaskilning, útsjónarsemi og skipulag. Svarti-Pétur og Ólsen eru einnig fín spil fyrir yngstu börnin. Svo er upplagt að kenna þeim einfaldan kapal og skák sem hefur lengi verið þjóðaríþrótt á Íslandi.

Það er svo margt í gangi þegar við leikum við barnabörnin og í leikjunum felast ýmiss konar tækifæri. Fæstum finnst til dæmis gaman að tapa, en við getum verið jákvæð fyrirmynd fyrir börnin með því að kenna þeim að taka tapi og læra að varla getur einn unnið nema annar tapi. Útkoman geti svo verið jöfn þegar upp er staðið. „Ég vann núna, en hver vann aftur síðast?“ Svo má kannski rifja upp gamla frasann um að sá sem tapar í spilum sé heppinn í ástum.

Lífið er lærdómur og börn læra best í gegnum leik. Við sem eldri erum höldum í atgervi okkar með því að takast á við fjölbreytt viðfangsefni og reyna á okkur andlega og líkamlega. Þetta tvennt fer dásamlega vel saman í leik ömmu og afa með barnabörnunum.

Ritstjórn september 8, 2014 12:15