Ánægjulegt að koma í ráðhúsið sem bæjarstjóri

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri

Á meðan unga fólkið er að taka yfir stjórn ýmissa sveitarfélaga landsins er Sturla Böðvarsson fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis tekinn við bæjarstjórastarfi í Stykkishólmi, 68 ára. Þetta er í annað sinn sem Sturla gegnir því starfi, en þegar hann var 28 ára gamall var hann ráðinn bæjarstjóri í Hólminum og var það í 17 ár. Þótt hann yrði síðar þingmaður, slitnaði ekki samband hans við Snæfellinga og þegar hann ákvað að hætta þingmennsku árið 2009, tók hann að sér að vinna fyrir atvinnulífið á Nesinu, hjá Þróunarfélagi Snæfellinga.

Gaf kost á sér sem bæjarstjóraefni

Hann hélt því áfram að hrærast í hringiðunni vestra og þegar uppstillinganefnd Sjálfstæðisflokksins bað hann að gefa kost á sér í fjórða sætið á sameiginlegum lista flokksins, Framsóknarmanna og óháðra og vera bæjarstjóraefni listans, hugsaði hann sig vel um. Það var leitað eftir því að fá öfluga konu í fyrsta sætið og ætlunin að standa saman til að freista þess að fella meirihluta Samfylkingar og Vinstri grænna í Stykkishólmi, sem tókst.

Mikið verk að vinna

Fólki í Stykkshólmi hefur fækkað og þar eru íbúar nú um 200 færri en þegar Sturla var þar bæjarstjóri í fyrra sinnið. „Það er því verk að vinna. Ég er svo lánsamur að vera heilsuhraustur og fjölskyldan ýtti frekar á mig að gera þetta, þannig að ég lét slag standa og fór í þetta,“ segir Sturla. „Eitt mitt síðasta verk sem bæjarstjóri í Hólminum árið 1991, var að kaupa gamla glæsilega kaupfélagshúsið og því var breytt í ráðhús. Það er sérstaklega ánægjulegt að vera komin þangað aftur sem bæjarstjóri. Það er mikið verk að vinna en það verður ekki gert á einni nóttu sem þarf að byggja upp og bæta“.

Fjölskylda á ferð og flugi

Sturla saknar ekki þingsins, enda ákvað hann árið 2009 að hætta og var mjög sáttur við þá ákvörðun. Aðalheimili fjölskyldunnar hefur staðið í Hólminum frá 1974 og stendur þar enn, þótt hún hafi einnig haft aðstöðu í höfuðborginni. Kona Sturlu, Hallgerður Gunnarsdóttir lögfræðingur vinnur hjá Sýslumanninum í Kópavogi, þannig að þau eru á ferð og flugi og hafa alltaf verið, segir Sturla. Þau hjón eiga fimm börn og sex barnabörn. Hann segir að ýmsir hafi spurt sig hvernig hann hafi nennt að fara á ný í framboð til bæjarstjórnar. Svarið væri fyrst og fremst, að honum þætti þetta svo skemmtilegt verkefni.

 

Ritstjórn júní 27, 2014 12:01