Ástin mikilvægari en peningar

„Baby boomers“ kynslóðin, það er fólk sem fætt er eftir seinna stríð í Bandaríkjunum, telur ást mikilvægari en peninga. Þrátt fyrir það eru peningar sá þáttur sem veldur mestri streitu í lífi þeirra samkvæmt nýlegri könnun sem sagt er frá á systurvef Lifðu núna, aarp.org.

Könnunin tók til rúmlega 2000 einstaklinga. 80 prósent þeirra töldu að ástin væri mikilvægust en 20 prósent töldu að það væri mikilvægast að verða ríkur.

Þrátt fyrir að fólk teldi að ástin væri svo mikilvæg sögðu 62 prósent að peningar væri mesti stressvaldurinn í samböndum þeirra, 21 prósent sögðu að yfirvofandi skilnaðir væri mikill streituvaldur, 7 prósent sögðu að börnin yllu þeim áhyggjum, 5 prósent nefndu tengdaforeldra sína og önnur fimm prósent atvinnu

Meirihluti þátttakenda eða 58 prósent taldi að það ætti að ræða það við maka sinn hvernig fjármunum væri varið, 30 prósent töldu að einungis þyrfti að gera slíkt ef fjárhæðin væri yfir 500 dollurum en 12 prósent töldu enga ástæðu til að ræða það í hvað peningunum væri eytt.

Þegar spurt var um hæfileika til að fara með peninga töldu 70 prósent þátttakenda að konur væru betri í gerð fjárhagsáætlana, 34 prósent að þær væru góðar í allskonar góðgerðarstarfsemi, 29 prósent að þær væru góðar í samningaviðræðum og 19 prósent töldu að þær væru góðar í að skipuleggja eftirlaunasparnaðinn. 40 prósent töldu að karlarnir væru bestir i samningaviðræðum, 33 prósent töldu þá góða í fjárfestingum, 25 í að skipuleggja eftirlaunin og 22 prósent töldu þá góða í að gera áætlanir fyrir skattinn.

Loks voru þátttakendur látnir velja á milli þess að þess að veita maka sínum aðgang að reikningum sínum eða leyfa þeim að skoða hvað þeir væru að gera í tölvunni. 62 prósent völdu að leyfa þeim að skoða reikningana en 38 prósent vildu frekar leyfa þeim að sjá hvað þeir væru að aðhafast í tölvunni.

Ritstjórn apríl 23, 2018 10:16