Berjast við slitgigt og svefnleysi

„Maturinn er einstaklega góður og það er dekrað við mann frá toppi til táar“, segja þær Jórunn Tómasdóttir og Sólrún Sverrisdóttir sem blaðamaður Lifðu núna hitti í matsalnum á heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði fyrir skömmu. Jórunn er búin að vera í viku í Hveragerði en þangað var hún send af lækni vegna slitgigtar í hálsi sem hún hefur þjáðst af lengi og á að vera í fjórar vikur. Slitgigt fylgja miklir og stöðugir verkir. „Verkirnir leiða uppí höfuð og niður í bak“,segir hún.

Bjargráð til framtíðar

Jórunn sem er kennari segir að það hjálpi sér í vinnunni að geta verið á hreyfingu og þurfa ekki að sitja stöðugt kyrr. Það hjálpi líka að geta farið heim eftir kennslu til að slaka á. En hún segir að hún hefði átt að koma fyrr í Hveragerði. „Þetta er ekki að lagast og maður gæti átt eftir 15-20 góð ár“, segir hún. Henni finnst að nú hafi hún tækifæri til að finna bjargráð til framtíðar, eitthvað sem hún geti nýtt sér til að lifa með verkjunum en láta þá ekki stjórna lífi sínu. Hún hafi líka áttað sig á því að menn þurfi ekki að skammast sín fyrir að vera með verki. „Maður ber þá ekki utaná sér og stundum er maður að fara í felur með þetta eins og alkóhólisti sem drekkur í laumi, en ég hef lært það á þessari viku að maður þarf ekki að skammast sín“, segir hún.

Var alveg búin

Sólrún kom aftur á móti í Hveragerði vegna langvarandi streitu sem kemur út í verkjum – og svefnleysi – sem hún segir að fari verst með sig. Hún starfar hjá fjölskyldu- og búsetudeild Akureyrarbæjar við liðveislu og tilsjón, og inná hennar borð koma oft erfið mál. „Þar við bætist að það hefur verið svo margt í gangi í mínu lífi, til dæmis veikindi og dauðsföll í fjölskyldunni. Þetta tekur á og síðast liðið sumar var ég alveg búin“,segir hún.

Rýrir lífsgæðin að sofa illa

Hún segist vakna upp um miðjar nætur og ekki sofna aftur. Þessu fylgi svo pirringur og viðkvæmni yfir daginn, sem verði viðvarandi. „Það rýrir lífsgæðin að sofa svona illa og tekur burt tilhlökkun og gleði úr lífinu“, segir hún. Hún segir að það sé frábært að vera í Hveragerði og hugsa eingöngu um heilsuna. Byggja hana upp til að sér geti liðið betur. Hún var búin að kynna sér starfsemina vel áður en hún kom og segir það skipta máli.

Prógrammið frábært

Jórunn sem ekki hafði gert það, fann fyrir því að hún var ekki nógu vel inní hlutunum og hefði þegið betri upplýsingar þegar hún kom, en er afar ánægð með aðstöðuna, ekki síst sundlaugina, pottana og gufuna. „Mér finnst prógrammið hér frábært“ segir hún, eftir að hafa stundað heit böð, nudd og slökun í viku. Hún hefur líka farið í leirböð. Báðar hafa þær einnig farið í gönguferðir alla virka daga. Sólrún segir mjög fallegar gönguleiðir í kringum heilsustofnunina og umhverfið sé allt mjög fallegt.

Góð sundlaug

Þegar Sólrún er spurð hvað það sé helst í Hveragerði sem henni líki best, segir hún að sér finnist aðstaðan öll frábær. Aðstaðan í sundlauginni til dæmis en þangað geti maður farið og verið eins lengi og maður vill. „Ég var komin með bronkitis þegar ég kom hingað og taldi að rakinn og gufan myndu hjálpa mér og ég finn stóran mun“, segir hún. En hún nefnir líka leirböð og yoga. Hún segir að það skipti líka máli hvað starfsfólkið á Heilsustofnun sé yndislegt „Það er svo gott starfsfólk hérna og það er haldið svo vel utanum mann. Það hafa aldrei svona margir í einu sýnt mér jafn mikla umhyggju“.

Þær Jórunn og Sólrún eru líka sammála um, að félagslífið sé skemmtilegt á heilsustofuninni, en þar dvelja að meðaltali um á bilinu 120-140 manns.

 

Ritstjórn mars 25, 2015 10:23