Betri dökkhærð en gráhærð

Ég hef alltaf litað á mér hárið, segir Ragnhildur G. Guðmundsdóttir. „Ég prófaði einu sinni að lita það grátt en ég varð svo ellileg að ég hætti því. Ég er vitavonlaus með grátt hár“. Hún segir samt að sér finnist grátt hár fallegt á öðrum. „Ein vinkona mín hafði það fallegasta gráa hár sem ég hef séð. Það var svo þykkt og fallegt á litinn“, segir hún.

Ragnhildur hefur verið  óhrædd með að prófa sig áfram með háralitinn

Ragnhildur hefur verið óhrædd með að prófa sig áfram með háralitinn

Prófaði að vera rauðhærð

Ragnhildi dreymdi alltaf um að vera svarthærð, en hún er með venjulegt skolleitt hár. Hún segir að það sé ekki mikið um grátt hár í sinni fjölskyldu „Þetta gengur í ættir finnst mér“ segir hún. Hún er núna með dökkbrúnt hár. „Ég er búin að prófa ýmislegt. Ég prófaði til dæmis að vera rauðhærð og kunni bara nokkuð vel við það. En svona er staðan í dag, mér finnst ég betri dökkhærð en gráhærð, en svo getur smekkurinn breyst“, segir hún.

Ódýrast að vera gráhærður

Það hafa margir skoðun á háralit Ragnhildar og sumir segja við hana að hún sé komin á þann aldur að hún eigi að láta gráu hárin fara að ráða. „Ég hlusta ekkert á það, er bara þver og leiðinleg. Aðrir segja mér að ég eigi að láta litinn vaxa úr, vegna þess að það sé ódýrast. En menn hafa líka orð á því að litaða hárið fari mér vel“, segir Ragnhildur hæstánægð með sitt dökkbrúna hár.

Ritstjórn júlí 27, 2015 11:42