Bóluefni gegn inflúensu er komið til landsins

Það styttist í að farið verði að bólusetja fyrir inflúensu en yfirleitt er byrjað að bólusetja í byrjun október. Bóluefnið er komið til landsins. Sóttvarnarlæknir mælist til að allir 60 ára og eldri séu bólusettir, svo og fullorðnir sem þjást af langvinnum, hjarta-,lungna-, nýrna-, og lifrarsjúkdómum. Þeir sem orðnir eru 60 ára og þeir sem þjást af langvinnum sjúkdómum eiga rétt á bóluefni sér að kostnaðarlausu. Almennar bólusetningar eru í höndum heilsugæslunnar en auk þess er bólusett á sjúkrastofnunum og mörg fyrirtæki bjóða upp á bólusetningu.

Óvíst hvaðan flensan kemur

Ekki er vitað á þessari stundu hvað tegund inflúensu muni herja á landsmenn í vetur. Flensan er ekki enn farin að láta á sér kræla en búist er við henni í kringum áramótin. Bóluefnið sem í boði er veitir vörn gegn svínainflúensunni sem gekk hér 2009–2010 og að auki vörn gegn inflúensu af stofni H3N2 og inflúensu B.
Bólusetning gegn inflúensu veitir allt að 60–70% vörn gegn sjúkdómnum. Jafnvel þótt bólusettur einstaklingur fái inflúensu eru allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur.

 

 

Ritstjórn september 18, 2015 11:15