Brýnt að bæta tannheilsu eldri borgara

VGVinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn héldu landsfundi um liðna helgi og málefni eldri borgara voru rædd á báðun fundunum. Á landsfundi Vinstri grænna fór ekki mikið fyrir ályktunum um stöðu eldra fólks í samfélaginu, utan þess að í kjarmálaályktun flokksins segir að: „Ríkinu ber að tryggja öllum starfsmönnum sínum sem og öldruðum og öryrkjum mannsæmandi kjör sem standast samanburð innbyrðis og gagnvart öðru launafólki.“ Á fundinum var ákveðið að vera ekki að álykta sérstaklega um eldra fólk heldur að ganga skrefinu lengra og setja það sem þennan hóp varðar inn i stefnuskrá flokksins. Þessa dagana er verið að útfæra stefnuna og ætlar Lifðu núna að greina frá því er varðar eldri borgara þegar stefnuskráin verður tilbúin.

Aldraðir haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu

downloadMálefni eldri borgara fengu meira vægi í ályktunum landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn telja jákvætt að breyta fyrirkomulagi dvalar- og hjúkrunarheimila þannig að heimilismenn greiði milliliðalaust fyrir þá þjónustu sem þeir fá, að undanskilinni heilbrigðisþjónustu og ummönnum, sem verði greidd af ríki með daggjöldum til heimilanna. Á ályktuninni segir að stefna beri að því að aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu og þjónustusamningur milli aðila verði gerður. Þá segir að mikilvægt sé að fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimaþjónustu og heimahjúkrun eldri borgara. Heimaþjónusta taki mið af aldri og þörf og verði veitt samkvæmt viðurkenndu þjónustumati. Áhersla verði lögð á að eldri borgarar geti búið á eigin heimili sem lengst.

Tannheilsa veði bætt

Brýnt er að bæta tannheilsumál eldri borgara og þá fyrst og fremst þeirra sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Sjálfstæðismenn vilja að öldruðum verði tryggð nauðsynleg tannheilbrigðisþjónusta með aukinni þátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Þá var ályktað um að Sjúkratryggingar Íslands taki meiri þátt í kostnaði vegna kaupa heyrnartækja aldraðra.

Kjaraskerðing verði afturkölluð að fullu

Um leið og minnt er á og þakkað að sú kjaraskerðing sem eldriborgarar urðu fyrir 1. júlí 2009 hefur verið leiðrétt að mestu, er lögð áhersla á að hún verði afturkölluð að fullu. Sjálfstæðismenn vilja að tafarlaust verði hætt að skerða framfærsluuppbót krónu fyrir krónu og að þeir sem náð hafa 70 ára aldri geti aflað sér atvinnutekna án þess að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist.

Lögum verði breytt

Þá segir í ályktunum fundarins að fjármagnstekjur eldri borgara eigi ekki að valda skerðingum hjá Tryggingastofnun ríkisins. Sjálfstæðismenn vilja breytingar á lögum um almannatryggingar á þann hátt að aldraðir geti selt eða leigt eignir sínar án þess að andvirði þeirra skerði greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Það felur í sér að þeir greiða skatta og skyldur af sölu eigna en verður ekki íþyngt umfram aðra þegna þjóðfélagsins.

Ritstjórn október 29, 2015 11:30