Datt í lukkupottinn með sjötuga fyrirsætu

Þórunn með nýblásið hár

Þórunn með nýblásið hár

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, hefur einstaklega gerðarlegt og gott hár. Það er fallega grátt, næstum hvítt, enda er Þórunn einn af forsprökkum Gráa hersins. Það kom svolítið flatt uppá hana þegar hún fór í klippingu á dögunum, á hárgreiðslustofunni Greiðunni eins og hún er vön, að hún var beðin um að vera módel Írisar Leu Þorsteinsdóttur hárgreiðslunema sem var að fara að þreyta próf í greininni. Þórunn sló til og viku seinna mætti hún á fyrstu æfinguna, þar sem Íris blés á henni hárið. „Það er gaman að upplifa það svona á efri árum að vera eftirsóknarverður vegna hársins“, segir hún og hlær.

Vel að menntuninni staðið

Á sjálfan prófdaginn hófst blásturinn klukkan 9:00. „Okkur gekk vel enda orðnar æfðar“, segir Þórunn. „Þetta mátti taka 30 mínútur.  Þá var manni vísað inní annað herbergi þar sem prófdómarar tóku við. Allt var skoðað, lyfting hársins og myndir teknar frá öllum hliðum. Þetta var mjög sérstök upplifun, en segir manni líka hversu vel er staðið að þessari menntun“.

Íris Lea náði prófinu

Íris Lea náði prófinu

Var öfunduð af módelinu

Íris Lea segist hafa dottið í lukkupottinn að fá Þórunni sem módel. Hún hafi verið svo viljug að mæta á æfingar og á undirbúningsnámskeiðið fyrir sveinsprófið.  Þá hefði hún þykkt hár sem legðist vel. „Hún getur farið í sturtu og þegar hárið þornar lítur það út eins og það sé blásið“, segir hún og bætir við að margir hafi öfundað hana af fyrirsætunni. „Nú er ég útskrifuð en það voru margar stelpur sem féllu einmitt í blæstri“, segir hún.

Aktíf og flott kona

Íris Lea hafði ekkert sérstaklega velt því fyrir sér hvað Þórunn væri gömul.  „Ég sé hana alls ekki sem gamla konu. Hún er jú með hvítt hár, en hress og skemmtileg.  Hún var alltaf til í að leyfa mér að æfa mig og er aktíf og flott kona“, segir Íris sem er farin að vinna á hárgreiðslustofu á Skólavörðustíg sem heitir Rauðhetta og úlfurinn. Þess má geta að Íris er einnig förðunarfræðingur og „beauty snappari“.  Sjá hér

Ritstjórn apríl 15, 2016 14:15