Drakúla missir sig í jólastemmingunni

Kúli alsæll, nýkominn úr jólaklippingunni.

Þeir Viðar og Sveinn eru ekki mikil jólabörn að eigin sögn. Það er helst hann Drakúla greifi sem missir sig í jólastemmningunni þegar hann fær að fara í jóladressið sitt. En það er bara á hátíðlegum stundum eða sérstaklega fyrir myndatökur. Þeir segja þó að honum hafi verið gert alveg ljóst strax í upphafi að hann væri hundur en ekki maður. „Hann er hundurinn okkar, ekki sonur okkar,“ segja þeir ákveðnir. Þeir þrír búa í húsi við Laufásveginn sem þeir hafa nefnt herrasetrið Skurn. Þar er aðalherrann Drakúla greifi sem hefur gælunafnið Kúli Cool. Reyndar segir Sveinn að öll nöfn með stafasamsetningu sem inniheldur úl dugi þegar verið er að kalla á greifann, jafnvel Jón Múli virki vel.

Húsið sem þeir búa í var byggt um aldamótin 1900 og Viðari datt í hug að auglýsa eftir nafni á húsið á Facebook. Hann fékk strax 357 tillögur en úr varð, eftir miklar vangaveltur, að nafnið  Skurn eða herrasetrið Skurn varð ofan á. Skurnin vísar í egg, en Viðar er þekktur fyrir Egg-leikhúsið sem hann stofnaði og rak um langt árabil og skurnin hulstrið er utan um eggið sem er fullt matar og vísar í veitingahúsið AALTO bistro sem þeir félagar reka í Norræna húsinu.

Ekki mikil jólabörn

“Eftir að við Viðar fórum að búa saman höfum við haldið  jóladagsmorgunn heilagan hjá okkur,” segir Sveinn. “Það er í raun eina hefðin sem við höldum. Þá bý ég til morgunverð, er búinn að grafa lax og búa til sósu með honum, baka stollenbrauð með marsípani og sörur. Svo bý ég til sviss mokka og þetta fáum við okkur um morguninn. Ljúfur jóladagsmorgunn í náttfötunum. Síðan hittum við fjölskylduna mína heima hjá þeim seinna um daginn.”

Bindum okkur ekki í hefðum

“Hefðin hjá okkur er að binda okkur ekki í jólahefðum,” segja þeir félagar. “Okkur finnst betra að vera opnir fyrir breytingum og brydda upp á einhverju nýju ef okkur sýnist svo. Jólin verða oft sorgleg þegar hefðirnar fara að þvælast fyrir fólki og jólin eigi að vera á einhvern ákveðinn hátt, sem síðan rætist svo kannski ekki. Við höfum til dæmis nokkrum sinnum farið út að borða á aðfangadagskvöld, en þá hefur verið lokað á AALTO bistro. Það er tilvalið fyrir fámenn heimili að fara út að borða þetta kvöld því yfirleitt er svo mikið haft við í matargerðinni heima að eldhúsið fer á hvolf og þá er svo gott að láta aðra um matargerðina og koma heim í allt hreint og fínt. Það er líka miklu hagkvæmara því yfirleitt er öllu tjaldað til og alls konar hráefni keypt sem er svo ekki notað nema þetta eina kvöld og restin í pakkningunni endar í ruslinu sem er hvorki mjög umhverfisvænt né ódýrt. Okkur fannst þetta miklu skemmtilegra. Svo þegar þetta var alveg að verða hefð breyttum við til að fórum að borða heima,” segja þeir og brosa.

Á veitingastöðunum sem þeir Viðar og Sveinn sóttu á aðgangadagskvöld voru yfirleitt bara útlendingar að borða á en með árunum hafa þeir séð fleiri Íslendinga taka upp þennan sið.

Sumir vilja vera einir heima á aðfangadagskvöld

Kúli stillti sér upp í jóladressinu.

“Þegar ég var einhleypur og bjó einn dreymdi mig um að vera heima hjá mér á aðfangadagskvöld en ég var í mestu vandræðum því öðrum fannst svo sorglegt að ég yrði einn þetta kvöld.

Eitt skemmtilegasta aðfangadagskvöldið sem ég átti á meðan ég bjó einn var um jólin 1992 en þá var ég nýbúinn að eignast tölvu sem ég kunni ekkert á. Þessu aðfangadagskvöldi fékk ég að verja eftir eigin höfði – aleinn! Ég fékk því algeran frið til að dunda mér við að ná tökum á tækinu. Þetta var ekki bara skemmtilegt heldur líka praktískt og þegar jóladagur rann upp kunni ég á tölvu.

Fólk er oft of upptekið af því að jólin eigi að vera á einhvern ákveðinn hátt að allt sem bregður út af venjunni verður  ómögulegt. En ef maður bindur sig ekki af hefðum opnar maður fyrir ný og óvænt ævintýri. Einu sinni var ég í Malaga á Spáni um jól og þar var aðfangadagskvöld ekki haldið hátíðlegt og Spánverjar ekkert að stressa sig úr hófi yfir jólunum, kaþólikkarnir. Ég náði í messuna á Íslandi á langbylgjunni í útvarpinu mínu þegar klukkan sló sex heima og eftir messuna var send út upptaka af Viðari Eggertssyni að lesa ljóð. Þetta fannst félögum mínum á Spáni mjög fyndið,” segir Viðar.

Gera ekki jólahreingerningu

Ein af hefðunum sem þeir félagar halda ekki er að gera meiriháttar jólahreingerningu. “Okkur finnst miklu skynsamlegra að gera almennilega vorhreingerningu og taka á móti bjartari tímum í hreinum húsakynnum. Þá fer rykið að sjást almennilega og með hækkandi sól er miklu skemmtilegra að þrífa og fagna þannig sumarkomunni” segja þeir félagarnir. Þeim líkar ekki pressan sem gerð er um að allt eigi að vera fullkomið yfir jólahátíðina. Það er mikill þrýstingur að kaupa dýrar og merkilegar gjafir og hátíðin fer þá að snúast um peninga hjá kaupmönnum sem allir vilja nota tækifærið og rétta efnahagsreikninginn af, áður en árið er úti.

Dakúla er mjög vanafastur hundur

Afmælisdagur Drakúla er í ágúst og síðasta afmælisdag var sett mynd af honum inn á Facebook. “Hann fékk umsvifalaust 467 “læk”, meira en við höfum nokkurn tíma fengið! Þar sem Drakúla er sérlega vanafastur hundur höfum við ekki gert neinn dagamun í lífi hans og þess vegna var hann sá eini sem vissi ekki um þennan merkisdag í ágúst. Við vissum að við myndum vera  að gera honum mikinn óleik ef hann fengi til dæmis öðruvísi mat þá en aðra daga. Það gæti haft leiðinlegar afleiðingar fyrir meltingarfærin hans. Hann heldur sínum venjum og er þá alsæll. Til dæmis horfir hann fast í augun á okkur þegar hann vill láta bera sig niður stigann til að fara að sofa. Þetta gerist alltaf klukkan hálftíu á kvöldin og þá kemur hann mjög nálægt okkur og alltaf nær og nær ef honum er ekki svarað. Það þýðir “ég ætla nú að fara að sofa.” Hann er alveg til í að fara einn að sofa en hann vill láta bera sig niður – alltaf á sama tíma. Hann er heldur aldrei klæddur í föt nema í þennan eina jólabúning. Hann skilur reyndar ekkert í af hverju hann er látinn klæðast svona jólalega því hann veit ekkert um Jesúbarnið eða Guð frekar en svo margir aðrir… en það eru nú einu sinni jól!” segja þeir Viðar og Sveinn og brosa.

 

Ljósmyndari: Hákon Davíð Björnsson tekið fyrir Gestgjafann.

Jólaleg uppskrift úr eldhúsi Sveins Kjartanssonar

Camenbert-ostabaka og dúfa með kantarellusveppum og trönuberjum

Camenbert-ostabaka

3 smjördeigsplötur

1 camenbert-ostur, skorinn í bita

3 egg

3 dl rjómi

salt og pipar

1 tómatur, saxaður

1 vorlaukur, saxaður

Hitið ofninn í 180°C, fletjið smjördeigið í 24 cm form þannig að botninn sé alveg hulinn og kantarnir til hálfs. Blandið saman eggjunum og rjómanum í skál og bragðbætið með pipar og salti. Skerið camembert-ostinn Í litla bita og blandið saman við eggjablönduna ásamt tómötunum og vorlauknum. Bakið í u.þ.b. 30 mín.

Dúfa með kantarellusveppum og trönuberjum

2 dúfur

40 g þurrkaðir kartarellusveppir

klípa af smjöri

salt og pipar

2 vorlaukar, saxaðir

Úrbeinið dúfuna frá hryggnum þannig að aðeins kjötið og beinin á leggnum sé eftir, sem og vængurinn til hálfs. Hreinsið sveppina og meðhöndlið samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Steikið dúfubrjóstin í smjöri í u.þ.b. 2 mín. á hvorri hlið og bragðbætið með salti og pipar. Setjið í 180°C heitan ofn í u.þ.b. 2. mín. Takið úr ofninum og látið standa í smástund áður en kjötið er borið fram. Snöggsteikið sveppina í sama smjöri og  dúfan var steikt í og skreytið með lauknum.

Sósa

20  fennelfræ

5 msk. Maille-dijon-hunang

4 msk. Bourgogne-hvítvkínsedik

400 ml eplasafi

Myljið fennelfræin og setjið í pot tog ristið örlítið. Bætið við sinnepi, ediki og eplasafa. Blandið öllu vel saman og látið sjóða í nokkrar mínútur.

Til skrauts

8 stönglar sítrónutímían

160 g trönuber

100 g klettasalat

Notið eftir smekk með bökunni, sveppunum og dúfunni.

Ritstjórn desember 21, 2018 09:29