Dugnaður, virðing og samúð

Katrín Björgvinsdóttir móðir og amma skrifar:

Katrín Björgvinsdóttir

Katrín Björgvinsdóttir

Við erum mótuð af uppeldinu hvað varðar gildismat og hver og einn ber með sér sitt ættarmót.  Þegar við fullorðnumst og fetum gegnum lífið breytast gildin gjarnan við ný kynni, nýja reynslu og aukna menntun.  Það er einstaklingsbundið hvað er eftirsóknarvert í lífinu, fólk er misjafnt í eðli sínu og sem betur fer eru ekki sömu áherslurnar hjá öllum. En það að láta gott af sér leiða held ég að sé mjög ríkt í mannskepnunni, gerum við það fáum við að njóta og prýðast mörgum eftirsóknarverðum dygðum.

Fyrst og fremst finnst mér eftirsóknarvert að fá að lifa lífinu heilbrigð.  Fæst okkar skilja hve mikilvægt það er að halda heilsu nema að fá að reyna sjálf hvernig það er að hafa hana ekki, sem von er, því að það er fjarri heilbrigðri manneskju að hugsa um heilsuleysi. Heilsan er grundvöllur þess að við fáum að njóta þess besta og eiga val um það sem lífið hefur uppá að bjóða. Njóti hennar ekki við rekumst við sífellt á óyfirstíganlega þröskulda á veginum.

Heilbrigði gefur frelsi sem er svo mikilvægt hverri manneskju til þess að geta þroskast og dafnað andlega og líkamlega. Þá á ég ekki við það að við eigum að losna við allar skyldur og leika lausum hala til að vera frjáls, heldur það að „fá að vera“ taka þátt í lífinu af fullum krafti, vera stundum glöð og stundum hrygg án þess að nokkuð sé athugavert við það. Hugurinn hlýtur að vera markaður af fyrri reynslu og af því sem við sjáum, heyrum og skynjum. Þó svo að við eigum hugsanir okkar sjálf tel ég hugann aldrei geta orðið frjálsan í þess orðs fyllstu merkingu vegna þess að hugurinn er fjötraður líkamanum meðan við erum hér á jörð.  Aftur á móti trúi ég því að frelsið geti orðið að fjötrum ef það eitt og sér er sett sem takmark í lífinu.

Metnaður dregur manninn að settu marki. Hann virkar eins og mótor í vél, kemur okkur á áfangastað þar sem við oft á tíðum fáum að njóta bestu augnablika lífs okkar. Án metnaðar held ég að lífið geti orðið þrautarganga fyrir suma, þar sem ekkert knýr þá áfram nema ef til vill svipuhögg samferðarmanna þeirra. Sá maður er ekki frjáls.

Dugnað þarf til þess að framfylgja metnaðinum, hann markast mjög af því hversu viljasterk manneskjan er, hugurinn dregur mann hálfa leið eins og þar stendur.

Virðing er ein af mikilvægustu skyldum hvers manns gagnvart sjálfum sér og öðrum. Sé hún ekki til staðar getur lífið orðið óbærileg kvöl fyrir á sem hlut eiga að máli.  Virðing kemur inná svo margt í daglegu lífi að við þurfum að styðjast við þá dygð uppá hvern einasta dag á meðan við lifum.  Það er okkur öllum einnig mikilvægt að verðskulda virðingu.

Samúð er í mínum huga ein af höfuðdygðunum. Það er auðvelt að bera annarra byrðar en til þess að geta haft skilning á raunum annarra verðum við að geta verið fær um að setja okkur sjálf í þeirra spor.  Ef það er hægt tekst okkur að veita öðrum samúð af heilum hug og mynda bræðralag.

Fyrirgefningin held ég að sé systir samúðarinnar. Hún leysir allt og í mínum huga er hún tilfinning en ekki verknaður.  Fyrirgefningin veldur frelsistilfinningu.

Vináttan er dýrmæt hverri manneskju, njóti hennar ekki við er lífið minna virði en það hefði annars getað orðið.  Vinátta auðgar andann, vekur gleði og er mikils virði þegar eitthvað bjátar á.

Vináttan er sérstakt fyrirbæri og er hægt að finna margt og mikið um hana skrifað og ort frá öndverðu sem sýnir hversu mikils virði hún er í mannlegu samfélagi.

Ungur var eg forðum,

Fór eg einn saman,

Þá varð eg villur vega.

Auðugur þóttumk,

er eg annan fann,

maður er manns gaman.

Úr Hávamálum

Við höfum þörf fyrir vináttu, hún íþyngir aldrei og er aldrei ótímabær.

Sundurlyndi – vinátta – fjandskapur

Menn tengjast tilfinningaböndum.  Eftir því sem fólk stendur nær hvort öðru, því traustari eru böndin.  Sem dæmi um það má nefna tengsl systkina, foreldra og barna, fólks sem hefur vaxið upp í sama byggðarlagi og samlanda.  Þó að það sé komið langt út fyrir sína nánustu þegar talað er um samlanda og útlendinga eru vissulega hlýjar tilfinningar gagnvart öllu fólki eðlilegur hlutur, þær eru bara fjarlægari.

Vinátta er öðruvísi en skyldleiki eða frændsemi að því leyti að við veljum vini en ekki frændur.  Því geta fjölskyldubönd liðast í sundur vegna sundurlyndis eða logað af fjandskap, en eftir sem áður helst skyldleikinn.  Gerist slíkt í vináttu manna er vináttan ekki lengur til staðar, grundvöllurinn er brostinn og góðleikinn horfinn.

Hamingjan

Lífið snýst mjög mikið um það að höndla hamingjuna.  Oftar en ekki bíðum við eftir stóra vinningnum og tökum varla eftir því að lífið líður hjá eins og stöðugur straumur.  Það er hægt að sannreyna með því að líta af og til í spegil og sjá hrukkunum og gráu hárunum fjölga.  Eftir hverju erum við að bíða?

Líkast til er daglega lífið og litlu hlutirnir sem rúmast innan þess hamingjan.  Skyldi ekki sá sem af einhverjum ástæðum er þvingaður út af heimili sínu óska þess stundum að hann mætti fara heim, þó ekki væri nema í eitt skipti til að vaska upp eftir kvöldmatinn?  Það gæti átt við einhvern þá stríðsþjáðu í Sýrlandi nákvæmlega núna á þessari stundu.  Að vakna úthvíldur er ekki sjálfsagður hlutur fyrir marga, myndi ekki einhver vera tilbúinn til þess að segja að það sé hamingja.

Að taka til í geymslunni er eitthvað sem fólk gerir ekki á hverjum degi og oftar en ekki þarf að taka sig taki til að byrja.  En farir þú í geymsluna og takir vel til hendi, hendir því sem er ónýtt, gefir það sem þú þarft ekki að nota og færð þar af leiðandi nóg pláss til að taka við meira drasli á næstu mánuðum.  Það er hamingja, ef þú trúir því ekki ráðlegg ég þér að prófa það!

Ritstjórn september 10, 2015 10:36