Eftirlaunin ekki send sjálfkrafa heim í pósti

Það er misjafnt hvernær fólk fer á eftirlaun. Sumir vilja vinna eins lengi og þeir geta og mega, á meðan aðrir vilja minnka við sig vinnu með aldrinum. Enn aðrir kjósa að hætta launuðum störfum á vinnumarkaði um leið og þeir geta. En það er mjög mikilvægt að kynna sér tímanlega hvað menn eiga eftir að fá í eftirlaun frá Lífeyrissjóðnum sem þeir hafa greitt í og frá Tryggingastofnun ríkisins, eigi þeir rétt á eftirlaunum þaðan. Flestir upplifa að þeir lækka mikið í launum þegar þeir fara á eftirlaun. Það er því gott að vita tímanlega hver eftirlaunin verða og skipuleggja fjármálin út frá því.

Sótt um með fjögurra vikna fyrirvara

Það er breytilegt eftir lífeyrissjóðum hvenær menn geta byrjað að taka út lífeyrinn sem þeir eiga. Almenna reglan er að það sé hægt að hefja töku lífeyris 62ja til 70 ára, en flestir lífeyrissjóðir miða við 67 ára aldur.  Eftirlaunin lífeyrissjóðanna eru ekki send sjálfkrafa heim í póstinum þegar menn verða 67 ára. Það þarf að sækja um að fá þau. Sótt er um annað hvort hjá lífeyrissjóðnum sem greitt var í síðast, eða hjá þeim sjóði þar sem menn eiga mest réttindi.  Sjóðurinn sendir svo umsóknina áram til annarra sjóða sé þess óskað.  Gott er að sækja um lífeyrisgreiðslurnar með fjögurra vikna fyrirvara.

TR fyrir þá sem eiga engan lífeyrissjóð

Tilgangur lífeyrissjóðanna er að tryggja sjóðfélögum ellilífeyri til æviloka, auk þess sem þeir koma inn ef félagar eða fjölskyldur þeirra missa tekjur til dæmis  vegna örorku eða andláts maka. Réttindin í sjóðnum miðast við hversu mikið og lengi menn hafa greitt í lífeyrissjóð á starfsævinni. Ef einstaklingur hefur ekki verið á vinnumarkaði og þar af leiðandi greitt mjög lítið eða ekkert í lífeyrissjóð, hleypur almannatryggingakerfið undir bagga.  Almannatryggingakerfinu er ætlað að tryggja öllum ákveðinn lágmarkslífeyri.

Flestir með eftirlaun bæði úr lífeyrissjóðum og frá TR

Þó Tryggingastofnun sé ætlað að tryggja þeim sem eiga ekkert í lífeyrissjóði ákveðinn lífeyri, eru mjög margir sem fá eftirlaun bæði úr lífeyrissjóði og frá Tryggingastofnun. Það gildir sama um greiðslur frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðunum,  það þarf að sækja um þær.  Það er hægt að gera þegar fólk er orðið 65 ára, en almennt er miðað við 67 ára aldur. Og það gildir líka almennt að menn fá lægri greiðslur ef þeir byrja snemma að taka lífeyri, en fá þá lífeyri í lengri tíma en þeir sem taka lífeyrinn seinna. Þeir fá aftur á móti hærri greiðslur.

 

 

Ritstjórn febrúar 12, 2018 11:18