Ég er alger fíkill

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur skrifar:

“Ég er alger fíkill í súkkulaði, fótbolta, Silver Cross barnavagna, ávaxtaleður, sólarlagsmyndir, deserta og allt sem við kemur húsaviðgerðum.” Þetta eru örfá dæmi af mörgum um fíkn sem fólk segist haldið og sér ástæðu til að tjá sig um á netmiðlum og víðar. Þessi fann ég við flýtileit á google rétt í þessu.

Fíkill er nýyrði í íslensku, en höfundur þess, Hörður Jónsson, sagðist hafa fundið það upp því að enskuslettur eins og dópisti og alkóhólisti fóru í taugarnar á honum. Sú tenging kom orðinu sem sé inn í málið og núna, tæpum fjórum áratugum seinna, er engu líkara en stórum hópi fólks sé ekki sjálfrátt þegar kemur að neyslu eða meðhöndlun á hvers kyns utanaðkomandi efnum sem áður töldust ekki hættuleg, sbr. ofangreind dæmi.

Ekki nógu sexí?

Af hverju ætli það sé ekki nóg að segja að manni þyki súkkulaði gott og hafi góða reynslu af Silver Cross barnavögunum? Kannski er það hvorki nógu “sexí” né fyndið til að vekja athygli. Samskiptamynstur okkar hefur tekið algerum stakkaskiptum á þessum tíma frá því orðið fíkill kom til sögunnar. Núna getur hver sem er látið rödd sína heyrast án teljandi vandkvæða. Eini vandinn er sá að þegar margir tala í einu skiptir máli hver talar hæst, er fyndnastur, eða nær að draga að sér athygli með einhverjum öðrum hætti. Sennilega er það t.d. “meiri frétt” að vera sykurfíkill heldur en að finnast sykur bragðgóður.

Einfaldlega gott

Gæti hugsast að öll þessi stóryrði og ýkjur sem við grípum til þegar við viljum koma skoðunum okkar á framfæri skapi ákveðinn ýkjuheim sem við erum farin að líta á sem veruleika? Það þarf allt að vera svo gríðarlega stórt í sniðum og tilfinningar okkar og langanir eru þar með taldar. Núna er ég alger fíkill í það sem mér þótti einfaldlega gott áður og gat líka með góðu móti látið á móti mér og neytt í hófi ef ég vildi. Spáum í það.

 

 

Ritstjórn febrúar 12, 2015 13:39