Eiga hjón að fá að búa saman á hjúkrunarheimilum?

 

Svandís Svavarsdóttir

Svandís Svavarsdóttir

Samþykki Alþingi frumvarp Svandísar Svarsdóttur og tveggja annarra þingmanna Vinstri grænna verðum hjónum og sambúðarfólki tryggður réttur til að vera samvistum á hjúkrunarheimilum.  Í greinargerð með frumvarpinu segir að það eigi að tryggja hjónum, og sambúðarfólki, rétt til að vera áfram samvistum þótt annað þeirra þurfi vegna skertrar heilsu eða færni að dveljast til langframa á stofnun fyrir aldraða. Sá réttur er ekki tryggður nú og því geta öldruð hjón eða sambýlisfólk þurft að slíta samvistum gegn vilja sínum þegar svo er komið fyrir öðru þeirra að langtímadvöl á stofnun fyrir aldraða er nauðsynleg. Aðskilnaðurinn getur reynst þeim og aðstandendum þungbær og því mikið hagsmunamál aldraðra að tryggja rétt sinn til áfram­haldandi sambúðar. Allmargir hafa skilað umsögnum um frumvarpið sem nú er til meðferðar hjá velferðarnefnd. Nokkur samtök þar á meðal Alþýðusamband Íslands leggja til að það verði samþykkt í óbreyttri mynd en aðrir hafa áhyggjur af kostnaði og því hvað verði um þann sem heilbrigður er ef hinn sjúki fellur frá.

Ekki í nein hús að venda

Haukur Ingibergsson skrifar umsöng fyrir hönd Landsambands eldri borgara. Hann segir að;  „Íbúðir í nýjum hjúkrunarheimilum eru stórar og því mögulegt fyrir tvo einstaklinga að búa í þeim. Tryggja þarf við lagasetningu að búsetustaða heilbrigða einstaklingsins við fráfall maka sé skýr. Reynsla starfsfólks sem starfað hefur á hjúkrunar- og dvalarheimilum þar sem hressari einstaklingar fluttu í dvalarrými til að vera nær maka sínum í hjúkrunarrými er sú að við fráfall maka í hjúkrunarrými hafi hressari einstaklingurinn verið búinn að taka upp heimilið sitt og hafi því ekki í nein hús að venda.“ Margrét Steinarsdóttir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands segir að  aðskilnaður geti reynst eldri borgurum og aðstandendum þeirra afar þungbær og ætti réttur til sambúðar á stofnun að efla sjálfstæði og sjálfákvörðunarrétt þeirra. „Þá hefur aðskilnaður hjóna eða sambúðarfólks óumflýjanlega aukinn kostnað í för með sér sem í mörgum tilvikum kemur sér einkar illa fyrir ellilífeyrisþega,“ segir Margrét.

Leggst gegn breytingum

Hvað gerist ef heilbrigði makinn fellur frá?

Hvað gerist ef heilbrigði makinn fellur frá?

Unnur V. Ingólfsdóttir framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar ritar umsögn fyrir bæjarráð og segir að viðvarandi skortur á hjúkrunarrýmum og rekstrarvanda hjúkrunarheimila gefi ekki tilefni til fyrrgreindra breytinga, nema á þeim vanda sé unnið. „Fyrirkomulag búsetu maka á hjúkrunarheimili þarf einnig að vera með þeim hætti að tryggt sé að það íþyngi ekki þeim sem ekki er í þörf fyrir þjónustu hjúkrunarheimilisins. Tryggt þarf einnig að vera að hann hafi í einhver hús að venda falli veikari frá makinn frá en sé ekki tilneyddur til að búa áfram á hjúkrunarheimili. Að sama skapi þarf að koma i veg fyrir að sá sem slíkt á við um njóti þjónustu umfram þörf sem stuðlar að færniskerðíngu, félagslegri einangrun og stendur í vegi fyrir því að þeir sem eru í þörf fyrir þjónustu njóti hennar. Hærra hlutfall karla flytur inn á hjúkrunarheimili fyrir 80 ára aldur {42% á móti 28% kvenna) og konur bíða lengur eftir hjúkrunarrými en karlar. Það eru því meiri líkur á því að konur séu í hópi þeirra einstaklinga sem velja að flylja með maka sínum á hjúkrunarheimili ef frumvarpið yrði að lögum.“

Hver á að borga?

Ólafur Þór Gunnarsson, lyf- og öldrunarlæknir  tjárir sig og segir að rétt væri að tiltekið væri með hvaða hætti greiðslur vegna búsetu maka kæmu til, hvort gert væri ráð fyrir leigu, hvort gert væri ráð fyrir búsetu í sama herbergi/íbúð og hvort aðrar reglur um þjónustu og þjónustukaup giltu einnig um makann. „Hjúkrunarheimili eru í dag rekin á daggjöldum, og slík gjöld kæmu væntanlega ekki með heilbrigðum einstaklingi, og afar fáir eldri einstaklingar eru svo vel settir að geta greitt þau sjálfir, auk þess sem hámarkskostnaðarþátttakan rúmlega 384 þúsund á mánuði nær engan veginn að mæta þeirri fjárþörf sem heimilið hefur fyrir rýmið en daggjöld flestra stofnana eru yfir 20.000 kr. Sennilega væri þá heppilegast að skilgreina eftirlifandi maka í hvíldarinnlögn, en þær geta í dag lengst orðið 8 vikur.“ Eybjörg H. Hauksdóttir lögfræðingur ritar umsöng fyrir Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og viðrar svipaðar áhyggjur og Ólafur Þór.

Það eru mannréttindi fyrir hjón að fá að vera saman.

Það eru mannréttindi fyrir hjón að fá að vera saman.

Hvaða reglur eiga að gilda um maka

Eybjörg segir : „Ekki er heldur í frumvarpinu gerð grein fyrir því hvað skuli gert ef makinn veikist líka. í dag eru margir heimilismanna í dvalarrýmum með gilt fæmi – og heilsumat til vistunar í hjúkrunarrými. Þeir heimilismenn fá í raun sömu þjónustu og íbúar í hjúkranarrými. Þrátt fyrir það hafna yfirvöld því að greiða hjúkrunargjald fyrir þá heimilismenn, heldur greiða bara dvalarrýmisgjald sem er mun lægra. Hvaða reglur munu gilda um maka heimilismanns ? Hvemig ferli á að tryggja að hann fái þá þjónustu sem hann þarf á að halda á hverjum tíma ? Og hvenig ferli á að tryggja að hjúkrunarheimilin fái greitt fyrir þá þjónustu sem þau veita ? Þrátt fyrir að makinn væri alveg heilsuhraustur þá mun alltaf fylgja honum rekstrarkostnaður. Bara það að ráðstafa rými undir einstakling sem ekki er að nýta sér þá þjónustu sem veitt er, leiðir til þess að reksturinn verður óhagkvæmari. Hver á að standa skil á þeim aukna rekstrarkostnaði sem þessu mun óhjákvæmilega fylgja ? Þá er heldur ekki gerð grein fyrir því hvemig fyrirkomulag eigi að vera varðandi greiðslur fyrir maka heimilismanns.“

Ritstjórn maí 11, 2016 10:35