Eiga öll börnin að erfa jafnt?

Það er algengt að þeir, sem standa frammi fyrir því að skipta eignum milli barnanna sinna, spyrji eftirfarandi spurningar: Eiga öll börnin að fá jafnt? Þetta segir Jean Chatzky sem skrifar um erfðamál á AARP systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum. Hún segir að það sé reiknað með að eftirstríðsárakynslóðin arfleiði börnin sín að 30 trilljónum dollara á næstu 30-40 árum. Hversu há upphæðin er hér á Íslandi er hins vegar ekki ljóst og aðstæður eru að sjálfsögðu allt aðrar hér. Engu að síður er greinin forvitnileg og fjallar um mál sem margir velta fyrir sér. Jean gefur foreldrum nokkur góð ráð um hvernig best er að skipta eigum sínum á milli barnanna.

  1. Stjórnaðu væntingum með því að ræða málin. Nýleg skoðanakönnun bandaríska fjármálafyrirtækisins Fidelity Investments sýnir að uppkomin börn vanmeta almennt verðmæti eigna foreldranna. Það er að vísu betra en að þau ofmeti eignirnar og búist við mun meiru en þau síðar fái. En það er gott að gefa þeim ákveðna hugmynd um hversu miklar eignirnar eru. „Það þýðir ekki að foreldrarnir eigi að leggja öll spil varðandi fjármálin á borðið“, segir lögfræðingur nokkur frá Detroit. „Hvernig eignirnar skiptast snýst ekki um lýðræði heldur óskir foreldranna“, segir hann. „Foreldrar ættu hins vegar að gefa börnunum góða hugmynd um hvernig þeir standa fjárhagslega. Þeir verða samt ævinlega að taka fram að staðan gæti breyst, til dæmis ef þeir þyrftu að kaupa mikla læknishjálp. Þeir ættu líka að segja börnunum hvern þau eiga að hafa samband við, ef þeir falla frá og hvar mikilvægir pappírar eru geymdir.
  2. Jöfn skipting. Ein algengasta spurningin sem foreldrar spyrja sig, er hvort þeir eigi að láta öll börnin sín hafa jafnt. Sérfræðingar segja að það hjálpi vissulega. „Ef þú vilt halda deilum í lágmarki, hafðu þetta þá eins jafnt og mögulegt er“,segir annar lögfræðingur sem Jean ræðir við. „Og það snýst ekki bara um eignirnar, heldur líka um ábyrgðina á að ganga frá praktískum málum sem snúa að dánarbúinu. Þegar foreldrarnir fela einhverju barna sinna ábyrgð á að ganga frá sínum málum, eru þeir að gefa út yfirlýsingu um hverjum þeir treysta best og hver þeir telji að ráði við verkefnið. Þetta snýst um fjármál og er ákvörðun sem verður ekki breytt þegar fólk er fallið frá, þannig að það er mikilvægt að hugsa um tilfinningar barnanna í þessu sambandi“, segir hann. Hann leggur til að allir sem hafi til þess einhverja getu, taki þátt í að ganga frá búinu, jafnvel þó að þeir séu ekki allir í jafn stóru hlutverki.
  3. Skiptu sjálfur. „Það er mikilvægt að ganga frá því að öll börnin fái líftrygginguna þína, sé einhver slík fyrir hendi. Ef þú átt skartgripi, listmuni eða aðra dýra muni skrifaðu lista og taktu fram hver á að fá hvað“, segir í greininni. „Auk þess skaltu segja fyrir um hvernig á að skipta því sem eftir er, þannig að börnin geti fylgt þínum ráðum í því“.
  4. Ef þú skiptir ekki jafnt, útskýrðu þá hvers vegna. Það getur verið að foreldrar taki þá ákvörðun að eigur þeirra skuli ekki skiptast jafnt á milli barnanna. Ástæðan fyrir því getur verið sú að eitt barnanna þéni mun meira en hin og þurfi þess vegna minna á peningunum að halda.“ En það geta komið upp leiðindi vegna þessa“, segir lögræðingurinn sem rætt er við í greininni „ og það er ástæðan fyrir því að sumir foreldrar forðast að ræða þetta við börnin sín. En það sé hins vegar lágmark að skilja eftir skýringu kjósi menn að gera þetta. Bara til að segja Ég elska ykkur öll jafnt, en það er af eftirfarandi ástæðum sem ég skipti eignunum ekki jafnt a milli ykkar“.
  5. Settu peningana í sjóð. Þetta er nokkuð sem tíðkast í Bandaríkjunum, en Lifðu núna er ekki kunnugt um að þessi aðferð sé notuð á Íslandi, þó svo kunni vel að vera. En þá er verið að taka ákvörðun til dæmis um að borga arfinn ekki út strax, jafnvel að greiða hann út í áföngum um nokkurra ára skeið. En sú leið er látin liggja á milli hluta hér.

 

Ritstjórn nóvember 1, 2022 07:00