Eiginmaður á eftirlaunum gerir konuna gráhærða

Sandra með nýju bókina Tell the girl

Sandra með nýju bókina Tell The Girl

Rithöfundurinn Sandra Howard skrifaði þessa grein sem birtist í Daily Mail  fyrir rúmri viku. Hér er greinin þýdd og örlítið stytt

Sem rithöfundur, verður mér mest úr verki þegar enginn er heima og þögn í húsinu. En þessa dagana er Michael, maðurinn minn elskulegur, að gera mig gráhærða með því að vera stöðugt að kíkja inní vinnuherbergið mitt og spyrja í hálfum hljóðum hvort ég vilji til dæmis ekki kaffi. Einmitt þegar setning er að mótast í höfðinu á mér.

Ég reyni að stilla mig um að hreyta einhverju út úr mér og segi „Ekki núna elskan, ég er búin að fá nóg kaffi“:   „Mér finnst ömurlegt að vera að trufla þig, segir Michael þá og meinar auðvitað að það ætli hann samt að gera „en það lítur út fyrir að Liverppool ætli að kaupa Mario Balotelli, við ættum að fylgjast vel með því“.

Michael hefur verið aðdáandi Liverpool FC allt sitt líf og ég hef orðið það líka, kannski í sjálfsvörn. Uppveðruð yfir þessum fréttum, hætti ég að skrifa og ræði málið við Mihael í nokkrar mínútur. Klukkutíma síðar, þegar ég hef rétt náð að einbeita mér að fyrsta kaflanum á ný, er hann mættur aftur. „Fyrirgefðu að ég trufla þig, segir hann,“hefurðu tekið eftir því hvað klukkan er, hefurðu hugsað eitthvað um hádegismat?“ Klukkan er bara 12:30 og ég hef ekki leitt hugann að mat. „Ég get alveg fengið mér ostasamloku“, bætir Michael við og það vottar fyrir píslarvættissvip á andlitinu.

Ég veit að hann meinar hvert orð og að hann vill gjarnan hjálpa til, og að ég þarf líka að borða, en ég vil gjarnan stjórna í eldhúsinu. Þannig að, nokkrum mínútum síðar, hætti ég að skrifa og fer að útbúa hádegisverð.

Þannig ganga dagarnir fyrir sig þegar Michael er heima. Þegar ég er að skrifa, geri ég það á undarlegustu tímum. Þegar vel gengur og ég er í stuði skrifa ég út í eitt og man hvorki eftir hádegisverði né kvöldverði ef því er að skipta. Þegar Michael er heima fer ég út í að borða reglulega þrjár máltíðir á dag. Ég er viss um að það er miklu hollara fyrir mig, en stundum tapa ég söguþræðinum. Það er heldur ekki þannig að hann sé vísvitandi að trufla mig. Það er bara þannig að Michael hefur dregið sig í hlé úr kastljósi stjórnmálanna og getur því, eins og aðrir eiginmenn sem hafa meiri tíma en áður, verið meira heima. Honum finnst gott að hafa félagsskap, einhvern til að ræða við og borða reglulega. Í stuttu máli, hann langar að eyða meiri tíma með mér. Ég er mjög þakklát fyrir það og við höfum það skemmtilegt saman, en ég hef líka þörf fyrir að vera ein útaf fyrir mig.

Þegar skiladagurinn á síðustu bókinni minni Tell the Girl var að nálgast, fékk ég frábæra hugmynd. Ég sendi Michael til Caroline Waldegrave vinkonu minnar, sem var að opna matreiðsluskóla í Somerset. Hana vantaði fólk til að prófa á mataruppskriftirnar og kennsluaðferðirnar og Michael tók það fúslega að sér, eftir ákveðinn þrýsting frá mér.

Hann lærði undirstöðuatriðin í matreiðslu, hvernig steikja á kjúkling, elda lambaskanka og þeyta búðing. Á meðan hafði ég þrjá daga í næði til að ljúka bókinni.

Líf okkar núna er gerólíkt því sem var þegar Michael var á þingi.   Hann var innanríkisráðherra í ráðuneyti John Major frá 1993-1997 og formaður Íhaldsflokksins frá 2003-2007. Ég missti af honum á þessum tíma, sá hann varla. Það var eins og búið væri að lýsa hann þjóðareign og hann kom bara heim til að sofa. Þannig að þegar Michael hætti í fulltrúadeildinni fyrir fjórum árum 68 ára gamall, og fór yfir í lávarðardeildina sem er mun rólegri, tók líf mitt stakkaskiptum. Þó hann sinni ákveðnum viðskiptum áfram og hafi ekki hætt öllum verkefnum, getur hann núna unnið að heiman. Þar sem áður var rými fyrir Micael í húsinu, er hann núna í eigin persónu. Þó ég hafi bannað orðið eftirlaunaaldur úr orðaforða okkar – mér finnst orðið vera merki um að menn hafi gefist upp fyrir ellinni – þá er engum blöðum um það að fletta. Michael hefur meiri tíma núna til að horfa á íþróttir, lesa bækur og njóta heimilislífsins. Ég hef aftur á móti meira að gera en nokkru sinni, er nýbúin að gefa út bók og hef mikla þörf fyrir að byrja á þeirri næstu. Þannig að ég verð að viðurkenna að ég minnist þeirra daga með söknuði, þegar Michael fór að heiman klukkan 8 á morgnana og ég sá hann ekki fyrr en það var komið myrkur.

Mér finnst yndislegt að sjá meira af honum og að við skulum geta eytt kvöldunum saman, en samt… það væri ekkert að því að hann færi í vinnuna klukkan 9:00 og kæmi heim klukkan sex. Eins og sakir standa er ég að reyna að venjast hans skemmtilega en svolítið ónæðissama félagsskap.

Þessi staða, sem við deilum með eiginkonum um allan heim, sem eiga maka sem hafa dregið sig í hlé frá annasömum störfum, hefur fengið heiti. Þetta er kallað, Eftirlaunaveiki eiginmanna (The Retired Husbands Syndrome) og í vikunni var mikið fjallað um það í blöðunum. Félagsfræðingar við Háskólann í Padova á Ítalíu, tóku viðtöl við 840 japanskar konur, en þær voru valdar vegna þess að kynjahlutverkin þar í landi eru enn mjög hefðbundin. Rannsóknin var gerð á árunum 2008-20013. Hún sýndi að það opnar ekki endilega nýjan heim af áhyggjulausu heimilislífi þegar eiginmaðurinn fer á eftirlaun, heldur er það upphafið að streitu og þunglyndi. Þessi niðurstaða sem getur átt við í mörgum löndum, þar á meðal Bretlandi, er athyglisverð. Samkvæmt rannsókninni eykst vanlíðan konunnar með hverju árinu sem líður, eftir að eiginmaðurinn fer á eftirlaun. Þetta hefur ekki eingöngu áhrif á heimavinnandi húsnæður.

Konur sem halda áfram að vinna eftir að makinn fer að vera heima, kvarta jafnvel meira. Áhrifin á útivinnandi konur eru meiri að sögn vísindamannanna, þar sem þær hafa minni tíma til að mæta þörfum eiginmanna sinna. Ég skil afstöðu þeirra. Við þetta bætist að heimilisverkin aukast þegar   eiginmaðurinn er heima, því hann dreifir í kringum sig alls kyns hlutum. Þegar Michael hætti á þingi, vissi ég að ég var ekki ein um þessa upplifun. Ég var kominn í lið með heilli herdeild kvenna sem komast í létt uppnám þegar eftirlaunaaldurinn er nefndur, þótt þær elski mennina sína og myndu ekki vilja lifa án þeirra.

Við Michael giftumst árið 1975 og í mörg ár, sá ég ein um heimilið. Ég ól börnin okkar upp, Nick 38 ára og Larissu 37 ára og sameinaði móðurhlutverkið örðum störfum, en ég var fyrirsæta og blaðamaður áður en ég gerðist rithöfundur. Ég hafði yfirdrifið að gera og það hafði Michael líka. Okkar líf voru á sitthvoru sporinu þótt þau lægju hlið við hlið. Ég ríkti á heimilinu en þingið var vettvangur Michaels. Þessir heimar rákust ekki á.   En nú er Michael kominn heim, inní ríki mitt og já, ég verð að viðurkenna að stundum verð ég dálítið stressuð, þegar ég horfi á dótið hans alls staðar, skjölin sem hann er að flokka og þáttöku hans í mínu lífi. Á meðan hann var á þingi, þá var hann að vinna í málefnum kjördæmisins og svara fjölmiðlum á kvöldin og um helgar. Svo voru fundir og aðrir viðburðir. Þannig er pólitíkin. Hver einasta mínúta dagsins er skipulögð.

Breytingin er mikil. Michael er núna 73 ára og ég vona að hann eigi langan og farsælan tíma fyrir höndum. Samt veit ég eftir rúmlega 40 ár með honum, að ef hann mætti velja, myndi hann eyða öllum deginum fyrir framan litla sjónvarpið okkar. Fótbolti yfir veturinn, krikket á sumrin og hann hefði mikla ánægju af kappreiðum þess á milli. Mér verður um og ó, við tilhugsunina um að skarpur hugur hans eigi eftir að staðna á meðan hann flatmagar fyrir framan sjónvarpið og fylgist með gengi Liverpool FC og endalausum krikket leikjum.

Læknir nokkur ráðlagði vini okkar sem er farinn að eldast að hætta ekki að ferðast þó hann yrði níræður. Hann var rúmlega áttræður þegar þetta var og á stöðugum bakpokaferðalögum um heiminn. Læknirinn ráðlagði honum að fara sér kannski hægar, en alls ekki að hætta. Læknirinn taldi að skyndileg breyting yfir í rólegt heimilislíf gæti gengið frá honum. Þessi hugaði vinur okkar hélt því ferðalögum sínum um heiminn áfram og af fullum krafti, sér til ánægju og heilsubótar. Það er vegna þessa sem ég ráðlegg Michael að halda sér virkum, bæði andlega og líkamlega. Að halda áfram að þjálfa bæði huga og líkama til fulls.

Sandra lýsir síðan í greininni, hvað hún telur að Michael geti tekið sér fyri rhendur og það kemur fram að hann er ekki líklegur til að snúa sér til dæmis að viðhaldi á heimilinu. Það kom í ljós strax í tilhugalífinu að hann hafði ekki lag á slíku, enda var það hún sem sá um að hengja upp myndir og skipta um perur á heimilinu. Þau eru líka ólík, hún er alltaf á síðustu stundu, á meðan hann vill vera tímanlega þegar þau eru að fara eitthvað út. En að lokum segir Sandra.

Það er svo margt sem ég elska í fari hans. Hann kemur mér til að hlæja – jafnvel þegar ég er alveg öskureið. Og ég hygg að ég eigi að fagna því að hann vill helst af öllu vera heima – hjá mér. En of mikil samvera getur verið kæfandi. Þess vegna er ég á móti eftirlaunaaldrinum. Þrátt fyrir allt er nauðsynlegt fyrir hvaða eiginkonu sem er að taka sér smáhvíld, jafnvel frá fullkomnum eiginmanni.

Ritstjórn september 2, 2014 10:10